Amma hans Hjálmars skefur ekki utan af því.

Hjálmar Bogi Hafliðason sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi, fyrrum varaþingmaður Framsóknarflokks, kennari, leikari, söngvari og alltmuligmaður á Húsavík vitnar oft í ömmu sína, Unni Baldursdóttur. Grípum niður í eina söguna:

Ég spurði ömmu hvort hún væri ekki stolt af því að ég væri í framboði og leiddi framboðslista. Ég finn ekki fyrir Því, þú ert ekkert betri maður en hver annar. Afi þinn var aldrei í þessu, hann vann bara. „Nú jæja, þetta er kannski ekki vinna? Spurði ég. Og hún bætti reyndar við: „einhver verður víst að gera þetta, en að fólk skuli sækjast eftir að rassgatast þetta, þeir eru varla margir, en aðalmálið er bara að mjálma nógu mikið!“

Ég er enn að túlka þessi orð. En lokaorðin ömmu voru að ég ætti nú frekar að fá mér almennilega vinnu og gera eitthvað gagn!

Við frambjóðendur B-lista vorum að vísítera á Hvammi, heimili eldri borgar á Húsavík. Amma var í matsalnum og ég tók dömurnar á tal sem sátu við borðið. Hún spurði þá: „Ert þú ekkert að gera, Hjálmar Bogi?“ Enda klukkan um 15. Ég sagðist vera að vísíterea og hitta fólk fyrir kosningar. Amma hnussaði og spurði hvort að það teldist nú vera atvinna að vísítera!

Í upphafi árs sagði ég við ömmu með nokkurri áherslu að það væri sko komið árið 2019. Hún leit á mig eins og þetta væri heimskulegasta setning sem ég hafi nokkurn tímann sagt og sagði: „Nú? Og er það ekki bara eðlilegt – á eftir árinu 2018?“

 

Ritstjórn febrúar 19, 2020 16:58