
Nanna Rögnvaldardóttir
Nanna Rögnvaldardóttir rithöfundur skrifar.
Nú er ég komin á nýja eyju, Pico-eyju, sem er næststærsta eyjan í Azoreyjaklasanum en ekki nema sú fjórða fjölmennasta – aðeins um 15.000 íbúar og þar af um 6.000 í höfuðstaðnum, Madalena, þar sem ég verð í tæpa viku og er búin að koma mér fyrir í afskaplega notalegri íbúð í miðbænum, með útsýni yfir kirkjuna og aðaltorgið. Og hér var ég á gamlárskvöld.
Ég hef margoft lýst því yfir hvað ég sé lítið hrifin af íslenskum áramótum. Það er að segja flugeldunum. Mér er illa við hávaða, einkum og sér í lagi sprengingar, ýl og svoleiðis, þetta er vont fyrir dýr, það kemur svo mikið rusl frá þessu, og svo þarf þetta endilega að teygja sig yfir marga daga, ef ekki vikur. Alltaf verið að skjóta og sprengja og einhverjir slasa sig.
Ég kaupi engar sprengjur en til að fá nú ekki samviskubit yfir að styðja ekki Landsbjörgu gerðist ég Bakvörður og gef með glöðu geði fimm þúsund á mánuði – það er meira að segja frádráttarbært frá skatti. Betra en að kaupa eitthvað rándýrt sem brennur upp á nokkrum sekúndum. En ég slepp ekki við hávaðann og ljósadýrðina, nema með því að draga vel fyrir alla glugga og nota eyrnatappa.
Ég var forvitin að sjá hvernig Pico-búar höndluðu áramótin. Í fyrra var ég í Aveiro á meginlandi Portúgals og þar voru hljómleikar í miðbænum, flugeldar, öll kaffihús og barir opin og mikið fjör. Held ég, ég var komin heim á hótel og farin að sofa fyrir miðnætti.

Klettaeyjar utan við höfnina í Pico; mér skilst að þær kallist Liggjandi og Standandi. Nágrannaeyjan Faial í baksýn.
Hér í Madalena hafði verið indælisveður á gamlársdag, 17°C eða svo, sól og nærri logn og ég fór í langa göngu til að skoða mig um. Kvöldið var svo afar kyrrlátt, allt virtist lokað. Ég leit öðru hverju út á torgið og þar sást ekki nokkur maður á ferli. Engir flugeldar eða neitt og ekki heldur í Horta, höfuðstað næstu eyjar (Faial), sem er hér handan við ekki sérlega breitt sund. Um miðnætti var ég að búa mig undir að fara í rúmið (þá var klukkan orðin eitt á Íslandi og ég var búin að óska fjölda fólks gleðilegs árs á Facebook og taka við nýársóskum). En klukkan tólf, ekki mínútu fyrr, var allt í einu farið að skjóta flugeldum úr öllum áttum, og eins yfir í Horta. Þetta stóð í fimm mínútur. Þá lauk flugeldaskothríðinni jafnskjótt og hún hófst og allt datt í dúnalogn og friðsæld á ný.
Þetta fannst mér góður siður.
Veðrið var ekki eins gott á nýársdag. Reyndar engin rigning en lítið um sól, snörp norðangola með brimi og hitinn mest svona 14°C. En fínt gönguveður. Hvert átti ég að ganga?

Pico, hæsta fjall Portúgals, gnæfir yfir Madalena.
Það er einkum tvennt sem laðar ferðamenn að Pico. Eldfjallið Pico-fjall, hæsta fjall Azoreyja og raunar Portúgals alls, 2351 m. Það er ekki sérlega erfitt uppgöngu, skilst mér, kallar allavega ekki á sérstakar fjallgöngugræjur, en er nokkuð bratt. Ég var ekki að fara að príla upp á það, ætla að láta 205 metra eldfjallið sem ég komst upp á á Terceira duga. Fjallgöngur eru ekkert sérstaklega á mínu áhugasviði.
Hitt fannst mér meira spennandi, en það er vínræktarsvæði Pico-eyjar, sem er ekki bara venjulegar vínekrur, sem mér finnst reyndar alltaf gaman að skoða. Það er svo merkilegt og sérstakt að það er á Heimsminjaskrá UNESCO.
Þótt einhverjir landnemar settust að á Pico á 15. öld, um svipað leyti og hinar eyjarnar í miðjuhóp Azoreyja (Terceira, Graciosa, Faial og Sao Jorge) voru numdar, var eyjan lítt byggð í langan tíma. Það var vegna þess að hér var jarðvegurinn ekki líkt því eins frjósamur og á hinum eyjunum. Hér höfðu orðið mörg eldgos – og urðu fleiri eftir að eyjan fannst – með hraunflóðum úr hlíðum Pico-fjalls og svart hraun var mjög áberandi. Eyjan var kölluð „bölvaða eyjan“ og fátt var hægt að rækta þar.
En svo datt einhverjum í hug að fara að rækta vínvið í hrauninu og öskunni og það tókst svona ljómandi vel og vínið sem hér var bruggað þótti sérstakt og náði vinsældum.

Íbúðarhúsin eru nútímaleg en vínræktin hefur verið óbreytt í margar aldir.
Vínviðinn þurfti að verja fyrir vindum og söltu særoki og það var gert með því að byggja veggi eða garða úr hraungrýti. Ekki bara langa grjótgarða sem umluktu vínekrurnar, heldur var allt hólfað niður í lítil hólf – sum ekki nema 2-3 metrar á kant – sem minna óneitanlega á dilka í gömlum íslenskum fjárréttum, eða fiskbyrgi. Þessi hólf kallast currais og þar ræktuðu bændurnir vínvið sinn. Og gera enn, því að þetta hefur verið gert með svipuðum hætti í 500 ár og þarna gengur maður um stór flæmi sem er skipt niður í þúsundir lítilla hólfa, eins og risastórt völundarhús.
Á milli eru svo byggingar, stórar og smáar, víngerðir, geymsluhús, brunnar, stígar. Og vinnubrögðin eru meira og minna þau sömu og hér hafa alltaf tíðkast, því að hér er ekki hægt að koma við neinum vélum, a.m.k. ekki við ræktunina og uppskeruna.

Í hverju einasta smáhólfi er ræktaður vínviður
Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt dæmi um hvernig maðurinn hefur aðlagað sig að náttúrunni – og hana að sér – og merkilegt að ganga þarna um og ímynda sér alla vinnuna sem hefur farið í að byggja þessa litlu bása úr milljónum hraunmola, og svo í gróðursetningu, vökvun, tínslu og allt hitt. Ótrúlega áhrifamikið.

Hluti af Vínstígnum.
Allt hefur þetta verið varðveitt ótrúlega vel og er enn í fullri notkun, þótt þess sæjust lítil merki á nýársdag – það er ekki beint rétti tíminn til þess. Ég gekk þarna Vínstíginn svokallaða, sem er vel merktur og liggur um stíga og vegi á milli grjótbásanna. Hann er um 7 km langur og það er létt ganga, hvergi mikið hækkun en margt að sjá og landslagið einstaklega fallegt. Ég gekk reyndar stíginn á enda og gekk svo til baka aðra leið, svo að þetta voru líklega einir 15 km sem ég gekk – og blés ekki úr nös á eftir.
Ég geng annars miklu meira en ég gerði áður og ekki síst þegar ég er að ferðast erlendis. Mér finnst gott að ganga ein, er bara á mínum hraða, tek mikið af myndum og tek líka eftir svo mörgu. Ég er búin að sjá það núna að ég get gengið drjúgan spöl, kannski tek ég aðra langa gönguferð áður en ég yfirgef Pico og tek ferjuna yfir sundið til Horta á Faial, sem er næsti dvalarstaður.







