Ástir í kjörbúð á tímum kórónuveirunnar

Viðar Eggertsson

Viðar Eggertsson er verðandi eldri borgari í þjálfun

Ég reyni eftir fremsta megni að fækka ferðum mínum og stytta viðverutímann þegar ég fer í kjörbúð. Ég reyni líka að velja búð sem er ekki of lítil og þröng og fara eins snemma morguns og mögulegt er, vopnaður innkaupalista. Spritta mig vandlega og set upp einnota hanska.Tauta fyrir munni mér: „Hlýða Víði! Hlýða Víði!“

En allt kemur fyrir ekki. Mér finnst ég hreinlega vera í stöðugri lífshættu í þessum búðum. Ég þarf líklega að taka með mér 2ja m. langt prik næst til að halda „æstum aðdáendum“ mínum í skefjum, svona einskonar extra langan blindrastaf.

Í kjörbúðinni sem ég fór í í dag komst ég varla hjá að strjúkast við starfsmanninn sem taldi inn í búðina. Hann stóð alveg við innganginn. Þegar inn var komið varð strax afar augljóst að fólk upp til hópa virðist ekki skilja 2ja metra regluna. Það æðir um búðina með jafnvel klút fyrir vitum en hangir síðan blygðunarlaust utan í manni. Ekki alveg staður og stund fyrir viðreynslu, finnst mér.

Starfsmenn dunda sér við að raða vörum í hillur og teppa hálfan ganginn. Er virkilega ekki hægt að fylla á hillur fyrir eða eftir opnunartíma? Þetta eru bara örfá dæmi um hversu háskaleg hegðunin í búðinni var.

Ég má þó til að segja starfsfólkinu til varnar, sem flest allt er kornungt og rétt að hefja lífið, að ábyrgðin er ekki þeirra. Ábyrgðin er fullorðna fólksins sem á og rekur þessar verslanir. Starfsfólkið á gólfinu er í jafn mikilli hættu að smitast eins og við sem komum til að versla. Eigendanna er að tryggja bæði starfsfólki og viðskiptavinum sem öruggasta verslun.

Svo allrar sanngirni sé nú gætt í hvívetna þá stóðu í morgun allir í röð með kerrurnar sínar í tilhlýðilegri fjarlægð frá öðrum. En nema hvað? Jújú, þá þurftu auðvitað endilega einhverjir aðdáendur hinna prúðu, sem biðu hver með sína kerru, að smeygja sér með nokkurri fyrirferð á milli fólks í röðinni með tilheyrandi snertingum.

Það væri til mikilla bóta ef verslunareigendur myndu nú koma á einstefnuumferð um gangana á milli hillurekkana. Bara það væri til bóta, að ekki sé talað um ýmislegt fleira sem hægt væri að gera… Verslunareigendur eru ekki stikkfrí. Þeir, eins og við öll, eru almannavarnir.

En auðvitað veit ég vel að það er til fólk sem stundar kjörbúðir til að komast í náin kynni við aðra. Alþekkt um allan heim. Ástir í kjörbúðum er ekki alveg málið. Ekki núna, sko.

Munið: Ekki vera hálfviti. Hlýða Víði! Ef ekki, þá bara: Hlýddu rödd þinnar eigin skynsemi!

Viðar Eggertsson apríl 6, 2020 07:33