Eldri borgarar upp á punt?

Viðar Eggertsson

Viðar Eggertsson verðandi eftirlaunamaður í starfsþjálfun skrifar:

Frameftir síðustu öld voru konur nánast ósýnilegar á opinberu sviði stjórnmálanna á Íslandi. Það var í raun ekki fyrr en Kvennaframboðið bauð fram í sveitastjórnum og í kjölfarið að Kvennalistinn bauð fram til Alþingis að menn (lesist: karlmenn) tóku við sér.

Þegar konur tóku af skarið og buðu sig fram til áhrifa á sínum eigin listum og á sínum eigin forsendum fór valdakerfi feðraveldisins loks að titra – og skjálfa. Nú dugði ekki lengur að fara hina hefðbundnu leið að skreyta framboðslista stjórnmálaflokkana með konum – konum upp á punt í vonlausum sætum framboðslistanna. Dæmdar til áhrifaleysis.

Fyrstu viðbrögð karlaveldisins var hneykslun, háð og rógur. Hvað vildu konur upp á dekk? Auk þess settu þær á dagskrá hin svokölluðu „mjúku“ mál. Forkastanleg mál sem áttu ekki heima í virðulegum ræðustól valdsins, mál sem snerust um kvenfrelsi, láglaunakonur, börn, dagheimili, fjölskyldumál – og ekki síst það hneykslanlegasta á þessum tíma: Umhverfismál!

Þegar karlarnir sáu hversu vel þessum kvensniftum, sem voru svo ósvífnar að gera sig gildandi, varð ágengt, þá brugðu þeir seint og um síðir á það ráð að þoka konum á sínum framboðslistum svolítið ofar, en ekki svo að þær ógnuðu að ráði valdastrúktur flokksins og flokkseigendanna.

Allt um eldri borgara, án þeirra sjálfra

Það eru komnir varanlegir brestir í glerþakið hvað varðar konur og stjórnmál, en ekki hvað varðar eldri borgara. Fólk sem lætur sig sérstaklega varða lífskjaramál þeirra sem komnir eru yfir sextugt, er nánast ósýnilegt á framboðslistum flokkana. Rétt eins og konurnar áður, hlýtur baráttufólk fyrir betri lífskjörum aldraðra sama hlutskipti og þær:  Áhrifalaus sæti á framboðslistum… upp á punt. Vonlaus til að komast í ræðustólinn, komast í bakherbergin, komast að til að skipta sköpum.

Um 45.000 eldri borgarar eru í landinu og er þá miðað við 67 ára aldurinn. Ef miðað er við aðildaraldur í félögum eldri borgara vítt og breitt um landið, 60 ára, eru þetta yfir 50.000 kjósendur. Kjósendur sem eiga að að lúta ríkisvaldinu í einu og öllu hvað varðar lífskjör sín, afkomu og réttindi. Kjósendur sem fá ekki að setjast að samningaborði til að að þoka kjörum sínum á betri veg. Kjósendur sem verða að lúta því að kjör þeirra séu ákveðin í ræðustól Alþingis, bakherbergjum Alþingis. Allt um þá, án þeirra sjálfra. Valdalaust fólk.

Hvað er til ráða?

Tvennt er í stöðunni. Annað er að eldri borgarar sem hafa starfað í stjórnmálaflokkunum, oft áratugum saman, láti ekki lengur bjóða sér puntsæti á framboðslistum. Þeir krefjist sæta sem geti fleytt þeim inn á þing til áhrifa. Þannig verði eldri borgarar sem hafa brennandi áhuga á að rétta lífskjör eldri borgara, inni á þingi fyrir hvern stjórnmálaflokk að afloknum næstu Alþingiskosningum. Þegar á þing er komið vinni þeir saman þvert á flokka og komi málunum á skrið sem hafa alltof lengi setið á hakanum og verið upp á punt í stefnuyfirlýsingum flokkanna.

Hitt er að eldri borgarar stofni stjórnmálaafl um sín helstu lífskjaramál. Það er nóg, það þarf ekki að mynda samstöðu um hin ólíkustu þjóðfélagsmál. Þegar á þing er komið, getur flokkurinn boðið minnihlutastjórn stuðning, gegn því að baráttumál stjórnmálaflokks eldri borgara komist í framkvæmd. Það er ekki síður freistandi fyrir aðra stjórnmálaflokka þegar svo er komið að tæplega verður hægt að mynda meirihlutastjórn án aðkomu þriggja til fimm stjórnmálaflokka.

 

——————————————————————————-

 

 

Viðar Eggertsson júlí 26, 2020 13:08