Spegillinn lýgur!

Viðar Eggertsson verðandi eldri borgari, í þjálfun, skrifar.

Reglulega horfi ég á sjálfan mig í spegli. Oftast er það á morgnana þegar ég greiði mér og raka mig. Einnig meðan ég bursta tennurnar. Rafmagnstannburstinn minn gefur mér tvær mínútur til verksins. Á meðan þarf ég að hafa augun einhvers staðar og einfaldast er að horfa á sjálfan mig þar sem ég stend við baðvaskinn fyrir framan risastóra baðherbergisspegilinn.

Maðurinn sem blasir við mér er bara allra huggulegasti maður. Hárið er að vísu að þynnast örlítið og svolítið að grána, en andlitið er ótrúlega lítið markað árafjölda og hann ber aldurinn svo vel og er hreint út sagt: Unglegur eftir aldri.

Fullur af gleði og sátt geng ég frá tannburstanum, yfirgef spegilinn og klæði mig. Síðan sest ég við tölvuna og fletti Facebooksíðum. Alltaf blasir andlitið mitt við á sínum vísa stað á Facebook.

Um daginn tók ég upp á þeim óskunda að fara skoða myndirnar af mér í myndasafninu mínu á Facebook. Óskunda segi ég, því við mér blasti annar maður en ég sá í speglinum nokkrum mínútum áður. „Nei, þetta getur ekki verið“, hugsaði ég, þegar ég leit á fyrstu myndina, „svona lít ég ekki út. Þetta er vond mynd af mér“. Lífsreynda andlitið sem brosti við mér á myndinni var mun markaðra árum en ég. Hárið þynnra en á mér. Maðurinn var einfaldlega eldri en ég. Eða hvað?

Ég skoðaði fleiri myndir og niðurstaðan var sú að ég hlyti að myndast bara óvenju illa. Því fleiri myndir sem ég skoðaði af mér komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að finna einhvern góðan ljósmyndara til að smella af raunverulega „góðri mynd“ af mér.

Ég fór að skoða myndir af vinum mínum á Facebook, fólki á svipuðum aldri. Flestir virtust myndast illa og vera mun eldri en ég ef ég sko miða við spegilmynd mína. Nokkrar vinkonur mínar í sama aldurshópi á Facebook eru óragar við að smella af sér sjálfum og skella á Facebook. Þær eru tiltölulega sléttar í andliti og einhvern veginn skín ferskleikinn af þeim svo liggur við að maður fái ofbirtu í augun.

„Hvernig stendur á þessu“, hugsaði ég. Ég fór að skoða myndirnar betur og það rann smátt og smátt upp ljós fyrir mér. Þær höfðu einfaldlega uppgvötvað að spegillnn lýgur og þær höfðu tekið málið föstum tökum.

Í speglinum sjáum við okkur eins og við viljum líta út, ekki hvernig við lítum út í raun og veru. Til þess að líta út á myndum eins og við viljum sjá okkur sjálf, þá þurfum við að beita tækni. Þessar vinkonur mínar beittu útsmoginni tækni símans til að taka af sér sjálfu. Það eru nefnilega til alls konar trix í myndavélum símanna okkar. Forrit sem gera okkur unglegri og laus við merki þess að við höfum lifað. Að við höfum safnað reynslu og þroska í áranna rás. Sjálfan verður eins og spegillinn sem sýnir okkur það sem við viljum sjá.

En langar mig til að sjá sjálfan mig í fegraðri mynd? Hvað er fögur mynd? Ég fór að skoða mig aftur í speglinum og tók tölvuna með mér. Þannig gat ég gert góðan samanburð á sjálfum mér í spegli og sjálfum mér á mynd. Hvor maðurinn er ég? Hvorum manninum vil ég líkjast? Ég, maður á hraðsiglingu að verða eldri borgari?

Smátt og smátt fór ég að taka ljósmyndirnar í sátt. Þessi maður á ljósmyndunum var víst meira ég. Þroskaður maður með ótrúlega lífsreynslu, breyskur maður sem samt hefur reynt svo margt að hann hrekkur varla við þó eitthvað fari úrskeiðis á hraðferð daganna. Maður sem ber þess merki að hafa lifað! Maður sem ekki hefði viljað fara á mis við neitt af ævintýrum lífsins sem hann á að baki, né áföllunum. Hver splunkunýr dagur með fullt af nýjum verkefnum og upplifunum sem er svo gaman að fást við, einmitt með alla þessa lífsreynslu að vopni. Lífsreynslan er á við heilan verkfæraskúr.

Þessi uppgvötvun hefur reyndar haft eitt slæmt í för með sér – fyrir suma: Ég er hættur að standa upp í strætó, biðstofum og slíkum stöðum með takmarkað sætapláss, fyrir „eldra fólki“. Ég veit orðið að líklega er þetta „eldra fólk“  jafnaldrar mínir, eða fólk sem er yngra en ég sjálfur. Það getur staðið. Ég er búinn að vinna fyrir þessu sæti.

Viðar Eggertsson janúar 20, 2020 07:03