Snilld að vinna við að læra að verða eldri borgari

Viðar Eggertsson leikari, leikstjóri, leikhússtjóri og varaþingmaður Samfylkingarinnar skrifar

Lífið, maður lifandi, lífið! Það tekur mann með sér á ólíklegustu staði og útdeilir manni ýmsum áhugaverðum hlutverkum.
Þegar ég var kominn undir sextugt fylltist ég áhuga á og forvitni um hvernig kjör eldra fólks væru í raun þegar það kæmist loks á eftirlaun. Mér bauðst hlutastarf hjá LEB – Landssamband eldri borgara og tók því fagnandi. Þá settist ég í raun á skólabekk í eftirlaunafræðum og kallaði mig gjarnan „Verðandi eftrlaunamann í starfsþjálfun“

Eini starfsmaðurinn á skrifstofunni við hlið formanns hverju sinni

Starfið hefur verið margvíslegt, fyrir utan að sinna almennum skrifstofustörfum af öllu tagi, hef ég komið að brýnum stefnumálum LEB. Þar erum við að tala um helst kjaramál, heilbrigðismál, réttindamál og önnur velferðarmál sem snerta þennan stóra og breiða hóp fólks. Því hópurinn er langt frá því að vera einsleitur. Það eru um 53.000 manns 67 ára og eldri. Áherslur í starfinu hefur einkum beinst að þeim hluta hópsins sem hverju sinni stendur höllum fæti eftir því hvaða málaflokkur er undir hverju sinni.

Fólk hefur átt erfiðast með að fóta sig í reglum sem varða eftirlaun þess og þar kemur til samspil greiðslna frá lífeyrissjóðum annars vegar og frá almannatryggingum (TR) hins vegar.

En í raun er kerfið sáraeinfalt eftir að ný lög um almannatryggingar tóku gildi 1. janúar 2017. Þau sneru einfaldlega algjörlega við fyrra módeli. Sem varð til þess að greiðslur úr lífeyrissjóðum eru nú fyrsta stoð og greiðslur frá TR urðu önnur stoð og því víkjandi eftir að greiðslur lífeyrissjóða og allar aðrar tekjur eru taldar.  Því allar tekjur skerða rétt til ellilífeyris frá TR, eftir tvenns konar frítekjumörk pr. mánuð: 25.000 kr. almennt frítekjumark og 200.000 frítekjumark vegna atvinnutekna.

Margir átta sig ekki á að bankavextir og verðbætur af bankareikningum teljast tekjur (fjármagnstekjur) í skilningi laga um almannatryggingar, jafnvel þó vextir séu í raun neikvæðir.  Fjármagnstekjur falla undir almenna frítekjumarkið ásamt greiðslum úr lífeyrissjóðum. Á verðbólgutímum eru innlánsvextir hærri en annars og telja því fleiri krónur, þó þær séu fengnar sem neikvæðir vextir. Þarna hafa t.d. margir flaskað á að setja þessar krónur í tekjuáætlun sína hjá TR. Tekjuáætlun einstaklinganna sjálfra er það sem TR hefur til að ákveða greiðslur til viðkomandi. Þegar fólk hefur síðan skilað staðfestri skattskýrslu, þá fyrst er í raun staðfest hvað fólk hefur haft í aðrar tekjur en frá TR.

Þetta er ástæðan að sumir eru í skuld við TR meðan aðrir eiga jafnvel inni hjá TR. Lokauppgjör á árinu á undan á sér því stað í maímánuði árinu á eftir. Fólk sem hefur skilað tekjuáætlun sem er fjarri rauntölum getur einfaldlega fengið skert af taugaáfalli þegar uppgjörið kemur. Þá er bara eitt að gera: Að vanda sig betur við að gera sem réttasta tekjuáætlun, því hún er í rauninni eina gagnið sem TR hefur til að ákvarða mánaðarlegar greiðslu til eftirlaunataka.

Hitt er svo annað mál – og mjög mikilvægt: Það er að hækka almenna frítekjumarkið til muna! Það hefur verið óbreytt, 25.000 kr., í heil 7 ár, eða frá 1. Janúar 2017 og það eitt er í sjálfu sér kjarnarýrnun frá ári til árs. Þó það hefði bara fylgt verðlagsþróun þennan tíma, þá væri það strax umtalsverð kjarabót.

Einnig þyrfti að hækka hámarks ellilífeyri, svo hann væri a.m.k. ekki lægri en lægstu laun á vinnumarkaði og hann taki þeim hækkunum sem lög kveða á um, en á því hefur orðið misbrestur að mínu áliti og margra annarra.

Þetta tvennt myndi fyrst og fremst koma lágtekju og millitekju eftirlaunatökum til góða. Ekki veitir þeim af!

Þessi hluti kjaramála sem ég týni hér til hafa verið meðal margra helstu baráttumála LEB meðan ég hef starfað þar.

Nú, að fjórum og hálfu ári liðnu frá því ég hóf störf hjá LEB, er ég nánast orðinn sérfræðingur í kjaramálum eldra fólks og ýmsum hagsmunamálum sem ég hef sett mig inní af kostgæfni.

Á þessum tíma hefur þó orðið afar góð þróun í upplýsingagjöf til eftirlaunataka á netinu og hægt að fá nánast svar við öllu þar í dag. Vil ég helst nefna tvær slóðir á Island.is: Að fara á eftirlaun  og  Að eldast. Einnig öfluga vefi Samtaka lífeyrissjóða og TR

Nú er komið að leiðarlokum hjá mér hjá LEB. Ég er útskrifaður! Og lífið mun væntanlega taka mig á nýjar, óvæntar og spennandi slóðir… ef ég þekki það rétt.

LEB leitar því að ráðagóðri og áhugasamri manneskju í starfið sem ég hef sinnt, að læra að verða eldri borgari. Get mælt heilshugar með því.

Viðar Eggertsson febrúar 7, 2024 07:00