Edda Þórarinsdóttir leik- og söngkona

Það er tvennt sem Edda Þórarinsdóttir leik- og söngkona er að fást við þessa dagana. Annars vegar er hún að undirbúa sig fyrir golfið í sumar, en hins vegar er hún að lesa passíusálmana. Hún mun ásamt fjórum öðrum leikkonum lesa sálmana í Saurbæjarkirkju í Hvalfirði, á föstudaginn langa klukkan 13. „Ég les 10 sálma og hef verið að glíma við þetta að undanförnu. Þetta er svakalega snúið og erfitt að lesa þetta þannig að innihaldið komist til skila“, segir hún. „Þetta er búin að vera erfið glíma en ofsalega skemmtileg“.

Edda byrjaði í golfi árið 2011. „Ég var búin að vera með stöðugt kvef og leiðindi og hugsaði, ég þarf að fara að gera eitthvað utandyra“ rifjar hún upp og það er skemmst frá því að segja að síðan hefur hún stundað golf og varla fengið kvef. Hún segist ekki vera góð í golfi, en stunda það sér til yndis og ánægju. Þegar blaðamaður náði tali af henni, var hún einmitt á leiðinni í golf í góða veðrinu.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Edda varð heimsfræg á Íslandi með tríóinu, Þrjú á palli. Tríóið gaf út samtals sjö hljómplötur og spilaði töluvert í sjónvarpinu sem þá var rétt að hefjast hér. Plötur þeirra voru líka mikið spilaðar í útvarpinu.  Þrjú á palli byrjuðu að spila saman í verki Jónasar Árnasonar Þið munið hann Jörund og það var hann sem gaf tríóinu þetta heiti. Þeim þótti gaman að spila saman og héldu áfram að gera það utan leikhússins. Þau skemmtu um allt land, sóttu tónlistarhátíðir í Skandinavíu og fóru líka til Bandaríkjanna. Þau voru stjörnur hér heima og fólk heilsaði þeim á götu. Edda segir að það hafi bara verið jákvæð upplifun að vera frægur á Íslandi og fólk í eldri kantinum þekki hana meira sem söngkonu en leikkonu, þó hún hafi starfað miklu lengur í leikhúsinu en tónlistinni.

Eddu eru söngleikirnir eftirminnilegir úr starfinu í leikhúsinu. Hún söng tvisvar í söngleiknum Kabarett. „Ég fékk að leika Sally Bowles, sem er aðalhlutverkið í Kabarett og 30 árum síðar söng ég aftur í söngleiknum, en þá lék ég gömlu kerlinguna í sýningunni Fraulein Schneider sem er líka ægilega skemmtilegt hlutverk“.  Hún segir að hlutverkið í Edit Piaf, sem sett var upp hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1985 hafi haft mikil áhrif á sig.  Á þeim tíma hafi menn hér á landi lítið verið farnir að huga að tónlist frönsku söngkonunnar.  Edda segir að hún hafi mikið sungið þessi lög þegar hún hafi verið beðin um að koma fram. „Þórarinn Eldjárn þýddi leikritið og söngtextana og þýðingar hans voru dásamlegar“ bætir hún við.

Edda er eining í stjórn félagsskapar sem kallar sig Leikhúslistakonur fimmtíu plús. Þær hafa verið með sýningar í Iðnó, en fara í samstarf við Þjóðleikhúsið á næsta leikári. Þær hafa áhuga á að setja þar upp sýninguna Konur og krínólín, sem var frumsýnd í Iðnó í sumar.“Þetta er sýning sem segir svolítið sögu kvenfatnaðar frá 1860 og var alveg óskaplega skemmtileg, tónlist, grín og glens“. Þá er Edda með í undirbúningi eigin sýningu í Þjóðleikhúsinu, sem heitir Dansandi ljóð og byggist á ljóðum Gerðar Kristnýjar.

„Svo erum við að undirbúa sýningu sem verður væntanlega næsta haust í Þjóðleikhúsinu í tilefni fullveldisafmælisins. Þar verður fjallað um fjallkonuna bæði í gríni og alvöru og það hvernig hún er tilkomin. Við erum margar í þessum hópi sem höfum verið fjallkonur“, segir Edda og talar um það sem sérstaka reynslu. Hún var hins vegar ekki tilbúin að greina frá sinni fjallkonureynslu í þessu stutta spjalli við Lifðu núna. „ Það fór allt úrskeiðis, sem gat farið úrskeiðis og frá því mun ég væntanlega greina í þessari leiksýningu….“, segir hún að lokum og hlær.

 

Ritstjórn mars 14, 2018 09:31