Það er áleitin spurning að svara því hver er uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi. Með því móðga ég marga og skapa mér fleiri óvini fremur en vini. Af hverju velur þú ekki Vestmannaeyjar þar sem þú bjóst og starfaðir? Eða Klambratúnið nærri æskuheimili þínu?
Það vill til að í æsku minni átti ég fjögur sumur við Berufjörð. Það voru þrjú sumur í sveit í bæ á Djúpavogi og eitt sumar í sveit á Skála á Berufjarðaströnd.
Á liðnum árum hef ég komið flest sumur til Djúpavogs og dvalið þar nokkra daga í senn. Það er ánægjulegt að koma aftur eftir 60 ár og hitta gamla leikfélaga, sem eiga nokkuð eftir af æskuljóma sínum.
Berufjörðurinn með verslunarstaðnum á Djúpavogi er um margt áhugaverður til að heimsækja og skoða. Yfir bænum gnæfir Bóndavarðan þar sem sést inn fjörðinn og yfir ströndina.
Þar er ægifögur náttúra með Búlandstind sem gnæfir yfir fjörðinn og byggðina. Eitt sinn kleif ég tindinn með konu minni og vinahjónum. Karlmennirnir náðu sem næst á tindinn, en þar sem við vorum ekki með GPS-tæki til að festa einstigi fyrir ofan skriðu í minni urðum við að lúta í lægra haldi fyrir tindinum því sinni, en tindurinn bíður. Það var sigur að eiga aðeins nokkra litla hjalla eftir til að ná tindinum.
Á tindinum er fólgin flaska með óminnismiði, sem þeir fá að súpa af, þegar tindurinn er sigraður, ef þeir þá finna flöskuna!
Undir Búlandstindi er náttúrvættið Teigarhorn, en í fjörunni við Teigarhorn eru merkilegar steinamyndanir. Teigarhorn og fjaran eru friðuð en umgengni er heimil.
Í önnur skipti hef ég gengið til fjalls við Stöng í landi Skála. Eftir hverja brekku kemur nýtt landslag.
Í bænum á Djúpavogi eru nokkur gömul og falleg hús. Elst er Langabúð, frá 18. öld. Við hlið þess stendur Faktorshúsið frá 1840. Í Löngubúð er núna safn og veitingahús.
Í Löngubúð starfaði þræll, sem aldrei var leystur úr ánauð. Hann öðlaðist frelsi sem verslunarþjónn á Íslandi. Hans Jónatan bjó við Djúpavog í 25 ár við frelsi og virðingu samborgara sinna.
Í sumar var þrælnum Hans Jónatan reistur minnisvarðinn FRELSI við Löngubúð. Höfundur verksins er Sigurður Guðmundsson, myndlistarmaður, en hann er einnig höfundur EGGJANNA við Gleðivik. Sigurður stendur einnig fyrir sýningunni „Rúllandi snjóbolti“. Þá er líf í bænum.
Við Djúpavog eru ótal gönguleiðir sem henta öllum. Það er hægt að fara í fuglaskoðun við Breiðavog og Fýluvog. Þegar gengið er út á flugvöll blasa við Papey og Ketilboðafles á eina hönd og Þrándarjökull á aðra hönd, en jökullinn sést ekki frá þjóvegi 1.
Með því að ganga fram Hamarsdal er hægt að komast á jökulinn. Á sama veg er Hofsjökull, eystri, inn af Hofsdal í Álftafirði.
Berufjörður og Djúpivogur eru við þjóðveg 1. Þar er hægt að á. Á Djúpavogi eru hótel og gistiaðstaða. Og veitingahús með mat úr héraði.
Þegar ég var á Djúpavogi fyrir 60 árum komu þangað 10–20 ferðamenn á dag. Núna koma stundum hundruð ferðamanna með rútum og skemmtiferðaskipum, dag hvern.
Það eru ótal skemmtilegir áfangastaðir á Íslandi. Mér finnst stundum óafsakanlegt að fara af landi í júní, júlí og ágúst. Hver og einn getur fundið sér áfangastað með sögu og náttúru til að njóta.