Vilhjálmur Bjarnason, eitt sinn alþingismaður

Vilhjálmur hefur nú lokið kennslustörfum sínum við Háskóla Íslands. Hann er 68 ára gamall en er hvergi nærri hættu að láta til sín taka víða um samfélagið og er í lausamennsku hér og þar. Hann er upphaflega menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands en fór 43 ára gamall  til Bandaríkjanna í framhaldsnám í viðskiptafræði og hagfræði.

Vilhjálmur sat á Alþingi í fjögur ár í gegnum tvennar kosningar. Hann var reyndar færður niður um sæti í prófkjöri þar síðast, lét það ekki slá sig út af laginu og telur að hann eigi fullt erindi til kjósenda í næstu kosningum og ætlar að fara í framboð aftur næsta haust. Nú er hann kominn í raðir eldri borgara og ætlar að láta rödd þessa hóps heyrast. Vilhjálmur  miðar sig við aldur ýmissa framámanna og -kvenna víða um heim. “Mér þykir ég vera bara á nokkuð þroskuðum og góðum aldri þegar ég miða mig til dæmis við Bretadrottnigu sem er 95 ára og son hennar Karl sem er 73 ára,” segir Vilhjálmur og brosir.  “Joe Biden Bandaríkjaforseti er tíu árum eldri en ég og Nancy Pelosi er 81 árs. Svo það sér hver maður að 68 ára er ekkert tiltökumál,” segir Vilhjálmur og hlær. “Til að geta sinnt þingsetu vel þarf maður að mínu mati að hafa náð vissum þroska og ég taldi mig hafa náð þeim þroska um sextugt. Þar með er ég ekki að setja út á kornungt fólk sem hefur tekið þessi mikilvægu störf að sér. En ég trúi því að besta útkoman verði þegar ungir eldhugar og eldra og reynslumeira fólk leggja saman og finna bestu hugsanlegu  lausn á málum. Þeir ungu þurfa að bera gæfu til að nýta reynslu þeirra eldri því þingið hefur þörf fyrir þessa reynslu.”

Eftir að Vilhjálmur hætti á Alþingi síðast var honum boðið að koma á fund fyrrverandi alþingismanna en hafnaði því boði. “Ég ætla að ákveða það sjálfur hvenær ég verð “fyrrverandi”, segir hann og nú er ljóst að ekki var tímabært að kalla hann fyrrverandi eitt eða neitt.

Eitt af því sem Vilhjálmur hefur tekið að sér eftir að hann hætti formlegri vinnu er seta í stjórn bankasýslunnar sem leggur til að Íslandsbanki verði seldur og í því felst töluverð vinna. Hann er líka að taka sæti í safnaráði á vegum Menntamálaráðherra. Þess utan er hann í nefnd á vegum sama ráðuneytis um dönskukennslu á Íslandi. Vilhjálmur hefur skrifað pistla í Morgunblaðið hálfsmánaðarlega frá árinu 2015. Og svo ætlar hann að bjóða sig fram í  næstu alþingiskosningum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvestur kjördæmi.

“Á þeim tíma sem ég hef lifað hef ég fylgst með kynslóðinni á undan mér fá ýmsa erfiðleika í fangið. Upp úr 50 eða 60 ára aldri varð sú kynslóð oft heilsulaus og margir létust skömmu síðar. Nú hefur fólk breytt neysluvenjum sínum, flestir hafa hætt að reykja og það hefur leitt til stórkostlega breyttrar heilsu Íslendinga. Þar fyrir utan hefur lyfjaþróun í heiminum orðið til þess að breyta og bæta lífsgæði fólks verulega. Allt þetta er að koma okkur til góða í dag svo það er engin ástæða til að leggja árar í bát þótt sjötugsaldrinum eða meira sé náð. Þess vegna ætla ég að bjóða mig fram í næstu Alþingiskosningum á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvestur kjördæmi. Ég ætla að vekja athygli á því að ég er að verða  sjötugur og vinna fyrir þann aldurshóp. Ég hef fjallað um mörg mál íslensks samfélags í greinaskrifum mínum undanfarin ár.

En einu máli hef ég hamrað meira á en öðrum og það er málefni lífeyrissjóðanna. Það er hvernig lífeyrissjóðir eru að taka yfir megin hlutverk almannatrygginga. Lífeyrissjóðirnir þurfa ákveðna vernd því sumir eru þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðirnir eigi að taka að sér ýmiss konar gæluverkefni, sem þeim er bara alls ekki ætlað að sinna. Mér hefur þótt að lífeyrissjóðirnir hafi haft fáa sér til verndar á Alþingi. Staðreyndin er sú að þeir bera bara eina skyldu og það er að greiða út eftirlaun. Lífeyrissjóði varða ekkert um þjóðarhag!

Það er full þörf á því að elsti aldurshópurinn hafi rödd á Alþingi og algerlega nauðsynlegt að hann eigi fulltrúa þar, sem hefur skilning á þessum málaflokki. Lífeyrissjóðirnir standa sterkt og ef okkur tekst að standa vörð um þá gerist þess ekki þörf að skattleggja unga fólkið okkar til að eiga fyrir lífeyrisgreiðslun fyrir aðra. Við eigum alveg nægar eignir í þessum sjóðum til að lifa sómasamlegu lífi. Þetta eru eignir, sem við höfum sannarlega sjálf safnað á allri okkar starfsævi. En það er alger forsenda  að um þær eignir sé vel séð. Þær eiga alls ekki að vera ráðstöfunarfé fyrir einhverja til að leggja í ótrygg gæluverkefni.”

Frá því Vilhjálmur var á þrítugsaldri hefur hann barist fyrir frjálsum sparnaði. “Fólk á að geta átt frjálsan sparnað án þess að hann brenni upp eða sé skattlagður í drep. Það hefur aldrei verið meiri þörf á því en einmitt núna þegar margir eru að horfast í augu við atvinnumissi. Þá er gott að geta leitað í slíkan sparnað.”

Vilhjálmur hefur ýmis áhugamál fyrir utan stjórnmál og sem dæmi hefur hann hlaupið hálfmaraþon einu sinni á ári allt frá 1988. Hann fer í sund á hverjum morgni og syndir 2-300 metra. Tvo eftirmiðdaga fer hann í leikfimi og svo hleypur hann um helgar. Síðastliðið sumar var ekkert Reykjavíkurmaraþon svo Vilhjálmur tók áskorun um að hlaupa hálfmaraþon á eigin vegum til styrktar og áheita fyrir MS félagið. Hann hljóp því sitt hálfmaraþon frá Reykjalundi að húsnæði MS félagsins við Sléttuveg. Vilhjálmur hefur auk þess tekið að sér tímavörslu á handboltaleikjum í Garðabæ í allmörg ár og þykir það óskaplega skemmtilegt. Svo ljóst er að Vilhjálmur er hvergi nærri hættur að láta til sín taka þótt næsti afmælisdagur verði hans sextugasti og níundi.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 27, 2021 08:15