Vill afnema sumarbústaðaskattinn

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður íhugar að flytja tillögu til breytingar á skattalögum, sem myndu afnema „sumarbústaðaskattinn“ svokallaða. „Ég er að hugsa þetta“ segir hann í samtali við Lifðu núna. „Ég hugsa skatta útfrá þessu meginsjónarmiði – er þetta sanngjarnt? Það að skattleggja með þessum hætti verðbreytingar á sumarbústað sem hafa orðið vegna verðbólgu, samsvarar skatti á verðbólguna. Hvaða brjálsemi er þetta eiginlega?“, segir hann.

Sala sumarbústaðar verði ekki skattlögð

Hann segist vera að hugsa um að leggja fram frumvarp til breytinga á tekjuskattslögum í þá veru að sala á sumarbústað komi ekki til skattlagningar. Þetta sé einfaldlega eins og hver önnur íbúðasala. Vilhjálmur nefnir einnig aðra skattareglu sem þurfi að breyta, en það er skattur sem lagður er á fólk sem á fasteignir umfram 1200 rúmmetra á hjón, en 600 rúmmetra á einstakling. Þetta geti náð til  viðbótarfasteignar sem menn eigi, en búi ekki í heldur leigi út.

Verið að hegna þeim sem spara

Vilhjálmur tekur dæmi um einstakling sem á 300 fermetra hús sem hann hefur byggt sér. Börnin eru kannski farin að heiman og hann eigi íbúð sem hann býr ekki í.  Selji hann hana fái hann háan skatt. „Það er verið að hegna þeim sem spara og koma þeim undir tekjutrygginguna“, segir hann, „eins og hinum sem hafa eytt og sólundað. Hvatinn er ekki að menn séu sjálfbjarga, heldur að þeir verði ósjálfbjarga og komist undir tekjutryggingu hins opinbera.

Færri skattborgarar sem borga brúsann í framtíðinni

Þetta telur Vilhjálmur óráð og vill breyta þessu, sérstaklega þar sem stefni í að ellilífeyrisútgjöld samfélagsins muni aukast verulega á næstu árum á sama tíma og skattborgurum sem þurfi að standa undir útgjöldunum fækki. „Það eru núna um sex skattgreiðendur á bak við hvern eftirlaunamann, en árið 2050 verða þeir orðnir tveir“.

 

Ritstjórn september 6, 2017 10:21