Liðskiptaaðgerð – lið fyrir lið

Æ algengara verður að fólk fái nýja liði í stað þeirra sem hafa gefið sig í tímans rás. Jóhanna Axelsdóttir fyrrverandi kennari var nýlega komin úr aðgerð á Akureyri þegar blaðamaður heimsótti hana í glæsilega íbúð hennar á Völlunum í Hafnarfirði.

„Velkomin, gakktu í bæinn,“ segir Jóhanna og bendir um leið á ægifagra fjallasýn sem blasir við augum frá heimili hennar – og ekki spillir Haukahúsið. „Ég hef auðvitað stutt Hauka, með þeim æfðu strákarnir mínir tveir,“ segir hún meðan blaðamaður fer úr skónum. Svo er haldið inn í stofu og göngugrindinni ýtt inn í eldhús meðan við spjöllum saman yfir kaffibolla og súkkulaðiköku. „Nú er hálfur mánuður síðan ég kom úr aðgerðinni og ég og göngugrindin fjarlægjumst hvor aðra með þó nokkrum hraða,“ segir Jóhanna. Væri göngugrindin ekki á staðnum dytti manni varla í hug að Jóhanna væri nýkomin úr mjaðmaskiptaaðgerð.

„Ég kvarta yfirleitt fremur lítið en það fyrsta sem benti til þess sem nú er orðið var samtal mitt við afgreiðslustúlkur í apóteki fyrir mörgum árum. Ég nefndi verk í mjöðm og þær ráðlögðu mér að taka tvær Paratabstöflur á kvöldin áður en ég færi að sofa. Ég tók bara eina og þannig gekk þetta í mörg ár. Smám saman versnaði ástandið og loks fór fólk að segja við mig: „Hvers vegna gengur þú svona Jóhanna?“ Þá var ég farin ósjálfrátt að hlífa slæmu mjöðminni. Þegar ég svo var hætt að geta sofið á hægri hliðinni og var með sífellda verki fannst mér nóg komið og fór til heimilislæknis. Hann fékk í snarheitum fyrir mig viðtal hjá gigtarlækni sem sendi mig í röntgenmyndatöku. Niðurstöður hennar sýndu að mjaðmarliðurinn var ónýtur. „Hvað er til ráða?“ sagði ég. „Skipta um mjöðm,“ svaraði læknirinn.“

Gekk það ferli hratt fyrir sig?

„Nei, læknirinn skrifaði Landspítalanum og hálfum öðrum mánuði síðar fékk ég bréf þaðan sem í stóð að ég fengi annað bréf eftir sex til átta mánuði. Þá myndi ég komast í viðtal og að því loknu í nokkra mánaða biðröð. Ég fór þá að fylgjast með fréttum af þessum málum. Margir höfðu að sögn beðið lengi eftir mjaðmaliðskiptum. Ég hafði samband við gigtarlækninn minn og hann skrifaði til Akureyrar í framhaldi af því. Skömmu síðar var hringt og mér boðið í viðtal. Nánast allt ferlið á Akureyri var fullkomið. Ég fékk pláss á sjúkrahóteli af því ég kom að sunnan. Ég ræddi svo við lækni sem sagði mér að ég þyrfti líklega að bíða í níutíu daga. Mér fannst það hljóma nokkuð vel. Þegar fór að halla í ágúst hringdi ég norður til að athuga hvar málið væri statt. Mjög þægilegur hjúkrunarfræðingur sagði mér að ég væri ekki á lista í september en reynt yrði að koma mér að í október. Þá sagði ég: „Veistu, ég get varla beðið svo lengi, ég yrði alein. Báðir synir mínir búa erlendis en tengdadóttir mín ætlaði að bíða með brottför fram í september til að hjálpa mér eftir aðgerðina.“

„Stuttu síðar hringdi hjúkrunarfræðingurinn og sagði mér að pláss hefði losnað og ég gæti komist í aðgerð 11. september. Þetta voru frábærar fréttir, mér finnst ég seint geta fullþakkað þessu góða fólki fyrir norðan.  Ég flaug svo til Akureyrar. Þar var ég leidd í gegnum innritunarferlið á skipulegan hátt – lið fyrir lið. Útskýrt vandlega fyrir mér hvað yrði gert, hvenær og hvernig, bæði fyrir og eftir aðgerðina. Mér var meira að segja kennt hvernig ég ætti að setjast inn í bíla eftir aðgerðina. Það var frábært að vera á sjúkrahúsinu fyrir norðan, það er svo vel um mann hugsað. Eina sem ég þurfti að láta á móti mér var að ég mátti ekki bera krem á andlitið fyrir aðgerðina.“

Og hvernig var svo aðgerðin?

„Eldsnemma um morguninn var ég mætt í skurðstofuna. Hafði þá tekið verkjalyf. Ég var ekki svæfð heldur mænudeyfð. Mér fannst það að vissu leyti óþægilegt. Ekki af því að ég fyndi til heldur sá ég og heyrði það sem fram fór. Ég hafði fram að þessu varla getað lesið um aðgerðir eða blóð án þess að verða flökurt. Nú lá ég þarna og heyrði það sem fram fór. Ég sá ekki svo mikið því ég lokaði augunum eða leit undan eftir bestu getu. Ég hefði átt að biðja um eyrnatól og hlusta á tónlist, það hefði létt mér lífið meðan á þessu stóð. Annars var þetta ekki langur tími. Aðgerðin tekur ekki nema í mesta lagi klukkutíma.“

Fannstu ekkert til?

„Nei, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég heyrði hins vegar vel þegar verið var að saga sundur beinin. Það var einkennilegt. Mér var þó auðvitað gefið eitthvað slævandi þannig að þetta var vel bærilegt þrátt fyrir allt. Ég man þetta samt mjög vel, aðgerðina frá upphafi til enda. Eftir að henni var lokið var ég flutt í stofu. Læknirinn var búinn að segja mér að ég myndi allt að því hlæja þegar ég yrði beðin að hreyfa fæturna, ég myndi ekki finna fyrir þeim vegna deyfingarinnar. Þetta gekk eftir, mér tókst samt vel að hreyfa fæturna og fann lítt fyrir ógleði. Ég var ótrúlega heppin.“

Hvenær tókstu svo fyrstu sporin eftir aðgerðina?

„Ég var drifin fram úr sama daginn. Fyrir kvöldmat fékk ég háa göngugrind og ég fór fram á salerni með fylgdarmanneskju. Þá var ég farin að finna fyrir fótunum aftur. Deyfingin fór ótrúlega hratt úr og ég fann ekki fyrir miklum kvölum, ég var auðvitað vel verkjastillt. Ég fékk lyf sem gefið er undir tungu. Það virkar hratt og vel. Ég viðurkenni að fyrsta nóttin var nokkuð erfið. Ég baðst undan að fara heim með hækjur og fékk göngugrind í staðinn. Það voru góð skipti“

Hvernig var heimferðin?

„Mér var ekið í hjólastól að flugvélinni og var satt að segja verkjaminni á heimferðinni en þegar ég flaug norður. Eitt þarf ég þó að passa vel héðan í frá. Hægri fóturinn má aldrei framar slengjast fram yfir þann vinstri, þá gæti nýi mjaðmarliðurinn farið úr skorðum“

Hvernig passar þú það?

„Ég má alla daga héðan í frá aldrei krossleggja fætur og verð að sofa með góðan púða milli fótanna. Eftir þriðju vikuna verða teknar klemmur sem settar voru á sárið eftir aðgerðina og þá mun mér opnast möguleiki smám saman á að sofa í eðlilegri stellingum en ég geri nú. Þá verður sárið gróið að utan en á eftir að gróa betur inni í mjöðminni. Ég byrjaði í meðferð hjá sjúkraþjálfara viku eftir aðgerðina. Fyrst er lögð áhersla á að koma blóðrásinni vel af stað á aðgerðarsvæðinu og svo er fóturinn nuddaður lauslega. Hann er enn mikið marinn. Það lagast nú með tímanum,“ segir Jóhanna.  Við fáum okkur meira kaffi og Jóhanna viðurkennir að hafa aðeins ofgert sér nokkrum dögum áður en sloppið án skaða.  „Ég get ekki sagt að ég sé alveg verkjalaus en ég finn furðulega lítið til miðað við hve stutt er frá aðgerð. Ég tek auðvitað verkjalyf en ég hef þegar dregið úr töku þeirra. Það segir sitt. Að deginum líður mér ágætlega og þarf ekki lyf,“ segir Jóhanna og brosir. Á því brosi má sjá að tilveran hefur skipt um lit í lífi hennar og leiðin liggur hratt upp á við.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir

gudrunsg@gmail.com

 

Ritstjórn október 17, 2019 06:47