Biðlistar eftir aðgerðum lengjast og lengjast

Enn lengist bið þeirra sem eru að bíða eftir augasteinsaðgerðum.  Í nýútkomnum Talnabrunni Landlæknisembættisins kemur fram að í febrúar voru 4027 augasteinsaðgerðir á biðlista sambanborið við 3409 slíkar aðgerðir í sama mánuði árið 2015. Landlæknisembættið segir að hafa beri i huga að færri einstaklingar séu að baki þessum aðgerðum þar sem sumir séu skráðir tvisvar  á biðlistann þar sem þeir þurfi aðgerð á báðum augum. Ríflega fjörutíu prósent þeirra sem eru á biðlista eftir augasteinsaðgerð hafa beðið lengur en í ár eftir aðgerð. Meðalbiðtíminn er 38 vikur.

Bíða í meira en ár

En það er ekki bara löng bið eftir augasteinsaðgerðum, biðtími eftir gerviliðaaðgerðum á hnjám og mjöðmum hefur líka lengst.  Nú bíða 548 eftir að komast í gerviliðaaðgerð á mjöðm en í febrúar 2015 voru þeir 397.  Ef litið er á biðlista eftir gerviliðaaðgerð á hné þá hefur líka orðið mikil fjölgun þar, nú bíða 867 eftir slíkri aðgerð en voru 658 í febrúar í fyrra. Meðalbiðtíminn nú eftir gerviliðaaðgerð á hné er 54 vikur en 37 vikur eftir aðgerð mjöðm.

Bíða allt of lengi

Í Talnabrunninum segir að ljóst megi vera að verkföll heilbrigðisstarfsmanna á síðasta ári hafi haft mikil áhrif á biðtíma eftir aðgerðum og þeirra áhrifa gæti enn. Þar fyrir utan megi reikna með að stöðugt vaxandi þörf verði fyrir ýmsar aðgerðir er tengjast hækkandi aldri og vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Landlæknisembættið segir að staða á biðlistum eftir gerviliðaaðgerðum á mjöðm og hné sem og augasteinsaðgerðum sé óviðunandi og biðtími utan þeirra viðmiða sem Embætti landlæknis setur um bið eftir aðgerð. Embættið bindur þó vonir við að það takist að snúa þessari þróun við með auknu fjármagni, því þörfin sé brýn.

Ritstjórn apríl 5, 2016 11:27