Glíman við munnþurrkinn

Munnþurrkur gerir mörgum lífið leitt. Hann einkennist af sviða í munni og erfiðleikum við tal, tyggingu og getur valdið erfiðleikum við að kyngja. Hólmfríður Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri tannverndar hjá Landlæknisembættinu segir í grein á heimasíðu embættisins að eðlileg munnvatnsframleiðsla hafi mikið að segja fyrir líðan fólks og viðhaldi góðu heilbrigði munnsins. Vandamál tengd munnþurrki aukast þegar aldurinn færist yfir en munnþurrkur er oft talinn einn af fylgifiskum öldrunar.

Áhrifaríkt að bursta vel

Hólmfríður segir að góð munnhirða sé afar mikilvæg þegar fólk glími við munnþurrk.Tannburstun sé einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að fjarlægja sýkla og matarleifar af tönnum og mikilvægt sé að hreinsa á milli tannanna einu sinni á dag með tannþræði. Til að örva munnvatnsframleiðslu mælir Hólmfríður með því að fólk tyggi sykurlaust tyggjó eða noti munnvatnsörvandi töflur sem fást í apótekum.

Ekki borða sætt

„Til að vökva munninn er mikilvægt er að drekka mikið af vatni og skola munninn oft með volgu vatni, ekki ísvatni. Einnig er ráðlagt að nota svokallað gervimunnvatn sem fæst í lyfjabúðum, auk þess sem þar er að finna ýmis önnur hjálparefni við munnþurrki svo sem  sprey og gel sem mælt er með að smyrja á munnslímhúð til dæmis fyrir svefn til að tungan límist síður við góminn. Umrædd efni draga einnig úr óþægindum í slímhúð undir gervitönnum,“ segir Hólmfríður.

Hún segir jafnframt að aldrei eigi að nota sætindi til að lina munnþurrk. Gosdrykkir, ávaxtadrykkir, sætt tyggigúmmí, brjóstsykur og annað sælgæti valdi tannskemmdum á undraskömmum tíma. Auk þess er ráðlagt að takmarka neyslu á kaffi og alkahóli.

Ritstjórn janúar 5, 2015 11:50