Tugir eldri borgara á spítala með flensu

Margir sem hafa fengið flensu í vetur hafa orðið mjög veikir og verið lengi að ná sér strik. Þó inflúensutilfellum hér á landi sé farið að fækka mikið voru samt sem áður sex lagðir inn á Landspítalann í vikunni eftir páska með flensu. Á vef Landlæknisembættisins kemur fram að um hundrað manns hér á landi hafi endað á spítala vegna inflúensu eftir áramót, tæp 60 prósent þeirra hafa verið eldri en 67 ára.

Það er ekki bara á Íslandi sem flensan hefur verið skæð. Margrét Þórhildur danadrottning hélt upp á 75 ára afmæli sitt um miðjan mánuðinn. Þeir sem fylgdust með útsendingu danska sjónvarpsins 14. apríl sáu að Hinrik prins var fjarri góðu gamni, hann lá heima í höllinni með flensu.

Á vef danska ríkisútvarpsins, DR, segir að flensan hafi verið seint á ferðinni í ár og bóluefni gegn henni hafi ekki virkað sem skyldi enda flestir bólusettir gegn öðru afbrigði af flensu en því sem náði yfirhöndinni. En á hverjum tíma eru fleiri en eitt afbrigði af flensu í gangi. Flensueinkennin þekkja flestir, hár hiti, höfuðverkur og beinverkir. Flestir hrista flensuna af sér á nokkrum dögum en það eru ekki allir svo heppnir. Margir eru þreyttir og slappir í nokkara vikur  og margir þjást af þrálátum hósta. Að því er fram kemur á DR getur flensan haft verulega slæm áhrif á heilsu þeirra sem orðnir eru 65 ára og eldri og þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þessir hópar eru oft viðkvæmari fyrir ýmsum fylgikvillum flensunnar svo sem lungnabólgu. Einkenni og krankleiki þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma svo sem sykursýki, blóð-, lungna-, hjarta og æðarsjúkdóma getur versnað  fái þeir flensu. Þeir sem eldri eru eða þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma ættu að leita læknis hafi þeir grun um að þeir séu að fá flensu.

Ritstjórn apríl 21, 2015 15:45