Blómstraðu þegar þú ferð á eftirlaun

Eftir því sem við eldumst, bæði á líkama og sál, verðum við fullmótaðar manneskjur. Þegar við erum lítil langar okkur að eldast og verða fullorðin sem fyrst. Við kvíðum kannski fyrir því en allt er nýtt og spennandi. Flestar breytingarnar sem við upplifum á þessum aldri eru örvandi og það er forvitnilegt að upplifa eitthvað nýtt. Lífið er skemmtilegt og við hlökkum til næsta ævintýris. Eyðum ekki tíma í að velta okkur upp úr vandamálum sem kunna að fylgja breytingunum. Ef okkur leiðist, höldum við bara áfram að leita að einhverju nýju.

Viðfangsefnin á miðjum aldri

Þegar við eldumst finnum við að þrekið minnkar og það rennur upp fyrir okkur að við þurfum að sinna sjálfum okkur. Við hægjum á og skoðum hvernig best er að bregðast við. Takmarkanir eru okkur ekki efst í huga, því við erum heilbrigð og sterk og lífið er gott. Það kemur fyrir að við fáum bakverk, eða verk í fótinn, en við látum það ekki aftra okkur frá að njóta lífsins.

Við erum í vinnu, leggjum fram okkar skerf til samfélagsins og njótum þess árangurs sem við höfum náð. Við skilgreinum okkur út frá vinnunni. Okkur finnst við hafa tilgang og það er fólk sem treystir á að við skilum okkar framlagi. Það er litið eins á okkur úti í samfélaginu og okkur finnst við standa föstum fótum í tilverunni. Læknisheimsóknum fjölgar kannski, en við hugsum ekki mikið um það, förum til læknis ef á þarf að halda, fáum lyfseðla og leggjum okkur fram um að fylgja leiðbeiningum læknisins.

Eftirlaunaaldurinn

Eftirlaunaárin sem bíða handan við horni valda sumum kvíða en líka gleði. Flestir hlakka til að ráða tíma sínum sjálfir meðan aðrir óttast að hafa engan tilgang í lífinu lengur. Það er eðlilegt að þeir sem hafa verið á vinnumarkaðinum lengi,kvíði því að fara á eftirlaun. Það er nýtt fyrir þeim og eðlilegt að hræðast hið ókunna.

Okkur líður vel þegar við erum spurð hvað við gerum og svörum að við séum hjúkrunarfræðingar, kennarar verkfræðingar, borgarstarfsmenn eða eitthvað annað. Líka ef einhver spyr á hverju við lifum. En þegar eftirlaunaárin renna upp, verður okkur illa við þessar spurningar og svörin við þeim.

Við viljum gjarnan njóta eftirlaunaáranna, en finnst vandræðalegt að útskýra fyrir öðrum hvað við gerum. Okkur finnst kannski ágætt að vera hætt starfi sem var orðið einhæft og leiðinlegt, en eigum ekki auðvelt með að viðurkenna það fyrir öðrum. Okkur langaði að fara á eftirlaun, jafnvel þó það ylli ákveðnu óöryggi.

Eftirlaunaskeiðið og öldrunarferlið

Við eigum kannski erfitt með að fóta okkur og þurfum að ná áttum áður en við náum fótfestu í nýrri tilveru. Það kannst sennilega margir við að hafa týnt sjálfum sér og tilgangi lífsins þegar þeir fóru á eftirlaun. En ef við höldum að lífið hafi engan tilgang lengur, ættum við að hugsa okkur vel um.

Að fara á eftirlaun, þýðir að við höfum skipt um starf og hafið nýtt ferðalag með nýjum áskorunum sem við ein getum sigrast á. Það tekur tíma að sættast við nýju leiðina, en hún er full af nýjum og spennandi ævintýrum. Það er ekkert að óttast.

Við erum að breyatast og verða enn betri útgáfa af okkur sjálfum. Við höfum loksins tíma til að gera ýmislegt sem við gáfum okkur aldrei tíma til að gera hér áður fyrr. Það er mjög gaman að gera plön um allt sem okkur langar til að gera.

Lífið hefur alltaf tilgang

Við erum enn sama fólkið, sem hlær að lélegum bröndurum, brosir til ókunnugra og býður fram aðstoð ef við sjáum einhvern sem þarfnast hennar. Hvernig getum við vitað hversu miklu mál þetta skiptir aðra?

Þeir sem eru á kafi í vinnu og barnauppeldi, hafa kannski ekki tíma til að huga að nágrönnunum, hringja í vini eða velta fyrir sér hversu mikilvægir litlu hlutirnir geta verið og hvernig þeir gera heiminn betri.

Nágrannakonan sem hafði dyrnar opnar fyrir börn einstæðu móðurinnar, sem var sein heim úr vinnunni suma daga, létti verulega á móðurinni sem þótti vænt um að vita að hún væri til staðar ef á þurfti að halda.

Eldri kona sagði frá því að nágrannakona þvæi alltaf fyrir hana sængurfötin, af því hún átti ekki þvottavél og hefði þurft að koma þeim í þvottahús. Þær urðu vinkonur og konan sem þvoði fyrir hana sængurfötin hitti nýtt fólk. Eldri maður sem mokaði snjó frá dyrum konunnar í næsta húsi, fékk nýbakaðar smákökur að launum í hvert sinn.

Verið tilbúin að hjálpa öðrum

Það er til eins mikið af störfum og við erum tilbúin til að sinna. Það er hægt að læra jafn mikið og við erum tilbúin að tileinka okkur og það eru jafn margir í þörf fyrir kærleika og við erum tilbúin að gefa. Við erum sprell lifandi og fær um að gera ýmislegt.

Við erum jafnvel fær um það, hverjar sem aðstæður okkar eru. Það er til ungt fólk sem glímir við heilsuleysi og eldra fólk sem er í góðu formi. Líf á eftirlaunum gerir okkur kleift að horfa á heimin, jafnvel út um gluggann heima hjá okkur. Þar sjáum við ýmislegt skemmtilegt gerast og getum notið þess. Það eru yfirleitt alltaf einhver tækifæri.

Aldur er bara tala

Aldur er í raun bara tala. Sjúkdómar geta stungið sér niður á hvaða tíma ævinnar sem er og við þurfum hvað eftir annað ævina á enda, að takast á við ýmiss konar tilfinningavandamál og ráða fram úr þeim. Við ættum ekki að horfa einungis á það sem er neikvætt í lífi okkar, heldur fagna því sem er jákvætt.

Það er ýmislegt neikvætt við allan aldur. En þegar við eldumst gleymum við ýmsum vandamálum sem við þurftum að glíma við þegar við vorum yngri. Að eldast, þýðir ekki að lífið stöðvist. Við horfum öll á sömu veröldina og flestir kostir eru aðgengilegir okkur öllum, með smá tilfæringum. Við ættum ekki að draga okkur í hlé frá lífinu vegna rangra hugmynda um aldur. Við verðum aldrei of gömul til að læra eitthvað nýtt og forvitni er hluti af mannlegu eðli.

Gerið plön um skemmtileg ævintýri og ef þarf má alveg breyta þeim aðeins. Gerið það bara og haldið svo áfram. Það þurfti áreiðanlega að laga ýmislegt að þörfum lítilla barna á sínum tíma. Lífið er ekki samkeppni milli aldursskeiða, heldur dásamleg vegferð, þar sem við getum lært sitthvað nýtt, barist fyrir friði og gefið öðrum kærleika. Eftirlaunaárin geta fært okkur ný ævintýri, nýja vini og nýja þekkingu sem við höfum fengið frelsi til að njóta.

 Þessi grein þýdd og endursögð, byggist á grein á vefnum Sixtyandme.

Ritstjórn ágúst 19, 2021 07:00