Þessi bók á ekki skilið að koma út var dómurinn sem síðasta saga Gabriel García Márquez hlaut þegar börn hans færðu hana til útgefanda í fyrsta sinn. Síðustu árin sem hann lifði glímdi Gabriel við minnisglöp og gat því ekki skrifað af sömu nákvæmni og vandvirkni og áður. En synir hans Rodrigo og Gonzalo endurskoðuðu þá afstöðu þegar þeir lásu hana aftur áratug eftir andlát föður þeirra, Nóbelsverðlaunahafans og nú er hún komin út á íslensku undir titlinum, Sjáumst í ágúst í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar.
Þótt umboðsmanni höfundarins og útgefanda hans hafi ekki litist á söguna og fundist að hún gengi ekki út eru lesendur ekki sammála. Ástarævintýri ríflega miðaldra tónlistarkennara, móður og hamingjusamlegrar giftrar konu í árlegum ferðum hennar til að vitja leiðis móður hennar eru áleitin og spennandi í meðförum þessa mikla ritsnillings. Líklega stendur enginn Gabriel García Márquez á sporði hvað varðar að lýsa ástinni, flækjum hennar, fegurð, ljótleika, harmrænu og gleði.
Það er eitthvað ferskt og nýtt við að lesa um kynlíf eldra fólks. Hvernig gengið er til verks hispurslaust og án skammar. Ana Magdalena Bach var hrein mey þegar hún gekk í hjónaband og hún elskar mann sinn. Þau hafa notið þeirra forréttinda að hafa varðveitt ástríðuna í sambandinu og þessi árlegu ævintýri hennar á eyju í Karíbahafinu eru henni í senn krydd í tilveruna og tilefni til aukinnar sjálfsþekkingar. Fyrsta ævintýrið er henni erfiðast því sá maður skilur eftir tuttugu dollara seðil í bókinni sem hún var að lesa. Það snertir hana illa eða þar til hún fær teikn frá látinni móður sinni.
Ástin þegar ellin sækir á
Það er skemmtileg tilviljun að nýlega kom einnig út bókin Hnífur eftir Salman Rushdie. Þar veltir hann fyrir sér fólskulegri hnífaárás sem hann varð fyrir árið 2022, aðdraganda og eftirmálum en þar spilar ástin einnig stórt hlutverk. Salman kynntist konu sinni, Rachel Elizu Griffiths árið 2016 og þau höfðu aðeins verið gift í ár þegar árásin á hann átti sér stað. Hann segir afskaplega fallega frá kynnum þeirra og stuðningi hennar í gegnum veikindin og endurhæfingu eftir árásina. En Eliza er þrjátíu og einu ári yngri en hann. Ástin er augljóslega jafnsterkt og umbreytandi afl eftir miðjan aldur og fyrir hann, í það minnsta ef marka má þessar mögnuðu sögur.
Þótt Sjáumst í ágúst sé ekki stórvirki á borð við Hundrað ára einsemd og Ástin á tímum kólerunnar ber þessi stutta saga engu að síður frábærri frásagnartækni Gabriel García Márquez frábært vitni. Hér glittir í grimmd og frumstæðustu hvatir mannsins í sinni ljótu mynd en þess á milli sólskin, hlýju, tryggð og umhyggjusemi. Hið ósagða er svo ekki síður forvitnilegt en það sem sagt er. Til dæmis er áhugavert hvers vegna móðir, Önu Magdalenu vildi láta grafa sig á þessari eyju. Dóttir hennar lýsir henni sem kennara sem þráði aldrei neitt umfram eða meira en hlutskipti sitt í lífinu en að velja sér legstað á fagurri eyju með útsýn yfir hafið og dásemdir eyja Karíbahafsins benda til flóknari persónu en þeirrar sem dóttirin þekkti. Þegar á allt er litið Sjáumst í ágúst áhugaverð og skemmtileg saga eftir frábæran stílista sem gaman er að lesa.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.