Borgin vill ráða eldra fólk til starfa

Skóla- og frístundaheimili Reykjavíkurborgar vilja gjarnan ráða eldra fólk til starfa. Í ályktun sem samþykkt var fyrir skemmstu segir meðal annars:

Frístundaheimili og leikskólar Reykjavíkur hafa mjög góða reynslu af því að hafa eldri borgara í vinnu og hefur mikil ánægja verið með það meðal barna og foreldra og annars starfsfólks. Það er því mjög eftirsóknavert að fá fleiri eldri borgara til starfa og nýta þar með dýrmæta þekkingu og krafta í þágu barnanna í borginni. Störfin eru fjölbreytt og getur starfsfólk oft á tíðum nýtt áhugamál sín í vinnunni hvort sem það er að fara út í fótbolta með börnin, syngja með þeim, tefla við þau, lesa fyrir þau eða eitthvað annað. Hlutastörf eru í boði bæði í frístundaheimilum og leikskólum og oft er hægt að aðlaga vinnutíma að þörfum hvers og eins t.d. getur verið mögulegt að starfa eingöngu 2-3 daga í viku hluta dags eða allan daginn. Skóla- og frístundasvið hvetur eldri borgara til þess að skoða þann kost að koma til starfa í frístundaheimili eða leikskóla. Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er ávallt að finna upplýsingar um þau störf sem eru laus hverju sinni og er hægt að sækja um beint í gegnum þennan vef  http://reykjavik.is/laus-storf/sfs Þá er einnig hægt að setja sig beint í samband við stjórnendur þeirra starfsstaða sem hafa laus störf, en hér fyrir neðan má finna upplýsingar um þá staði og símanúmer.

Ályktun Skóla- og frístundasviðs kemur í kjölfar ályktunar sem Félag eldri borgara í Reykjavík samþykkti í lok nóvember á síðasta ári en þar voru  skólayfirvöld í Reykjavík hvött til þess að skoða hvort ekki væri hægt að fá  fólk á eftirlaunum til hlutastarfa á leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar.

 

Ritstjórn janúar 17, 2018 10:32