Áttræður múrari enn að vinna

Eftirfarandi grein eftir Thomas Helsborg birtist á vef DR danska ríkisúvarpsins og Lifðu núna ákvað að snara henni yfir á íslensku.

Poul-Erik Heyn er búinn að vera á vinnumarkaðinum í rúm 70 ár. Nú er hann orðinn áttræður og starfar enn sem múrari. Hann er ekkert að hugsa um að hætta. „Það er ástæða til að halda áfram að vinna“, segir hann.  „Ég þekki marga sem hættu að vinna á aldrinum 65-70 ára og það leið ekki á löngu, þar til þeir voru dánir“.

Við lifum lengur ef við höfum hlutverk

Japan er eitt þeirra landa sem státar af mestu langlífi.  Þar lifa menn að meðaltali þremur árum lengur en danir. Ástæðan fyrir því er meðal annars gott mataræði, með miklum fiski. En það getur líka verið hluti skýringarinnar, að þeir vinna lengur og að eldra fólk hefur mikilvægu hlutverki að gegna í japönsku samfélagi. Poul-Erik veit ekki hvað hann ætti að taka sér fyrir hendur ef hann hefði ekki vinnuna. „Ég ráðlegg öðrum að halda áfram að vinna. Þú hreyfir þig mikið, hittir fólk og talar við marga. Það er besta lyf sem hægt er að hugsa sér, að minnsta kosti fyrir mig“, segir hann.

Margir ánægðir á eftirlaunum

Það er erfitt að fullyrða eitthvað um hvenær fólk á að hætta að vinna. Menn eru afar mismunandi. Það segir Astrid Pernille Jespersen lektor við Kaupmannahafnarháskóla. „Það getur verið mikill missir fyrir einhverja að hætta að vinna, ef þeim finnst starfið skemmtilegt og vinnufélagarnir eru stór hluti af þeim sem þeir umgangast. Fyrir aðra getur það verið mikill léttir að hætta að vinna,vegna þess að þá fá þeir loksins tíma til að sinna fjölskyldunni, vinunum og áhugamálum sínum“.

Ritstjórn júlí 25, 2016 11:19