Býður sig fram gegn sitjandi formanni FEB

Þorkell Sigurlaugsson býður sig fram til formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, á aðalfundi félagsins sem verður haldinn í Gullhömrum í Grafarholti þriðjudaginn 8.mars klukkan 13:30. Sitjandi formaður félagsins Ingibjörg H. Sverrisdóttir gefur jafnframt kost á sér áfram. Í kynningu á vefsíðu félagsins segist hann vera 68 ára að aldri og fullur áhuga á að starfa að ýmsum áhugaverðum verkefnum sem snúa a hagsmunum og áhugamálum eldri íbúa borgarinnar.

Þorkell er viðskiptafræðingur og var um árabil framkvæmdastjóri hjá Eimskip, eða þar til hann söðlaði um og hóf störf hjá Háskólanum í Reykjavík. Þorkell var stjórnarmaður í Framtakssjóði Íslands og um nokkurra ára skeið formaður stjórnar Sjálfsbjargarheimilisins. Hann er varaformaður landssamtakanna „Spítalinn okkar“ . Hann segist ávallt hafa þurft að sinna stjórnun, fjármálum og stefnumótun í þeim verkefnum sem hann hafi tekið að sér. Í niðurlagi kynningarinnar segir:

Ég hef mikinn áhuga á að efla enn frekar starfsemi FEB og þá einkum þá þætti sem snúa að aukinni virkni þessa aldurshóps í samfélaginu, forvarnir og endurhæfingu, fræðslu og menntun, menningarmálum og starfsmiðlun fyrir þá sem vilja starfa áfram að einhverjum verkefnum þrátt fyrir að vera komin á efri ár. Ferðalög innanlands og erlendis njóta einnig vaxandi vinsælda eftir COVID og margt fleira.

Ingibjörg H Sverrisdóttir er 74 ára. Hún var kjörin formaður félagsins fyrir tveimur árum og óskar nú eftir stuðningi til endurkjörs „eins og lög félagsins segja til um“ eins og segir í kynningu hennar. Hún rekur hvernig veiran hafi heft ýmsa starfsemi félagsins síðustu tvö ár, en þó hafi með samstilltu átaki stjórnar og starfsmanna tekist að halda félagsstarfinu gangandi með hléum og innan leyfilegra marka. 

Ingibjörg stundaði nám i ferðamálafræðum í HÍ og starfsvettvangur hennar hefur að mestu leyti verið í ferðaþjónustu bæði innanlands og utan. Hún tók virkan  þátt í verkalýðsbaráttunni innan VR  á sínum tíma og starfar í tveimur kvenfélögum, öðru þeirra sem formaður. Hún segir í sinni kynningu að Grái herinn og kjör eldri borgara eigi hug hennar þessa stundina, en hún tók virkan þátt í undirbúningi málaferlanna við ríkið vegna skerðinganna og er einn þriggja ákærenda í málinu sem nú er komið til Landsréttar. Að lokum segir í kynningu hennar:

Ég hef mikinn áhuga á að halda áfram með þau verkefni sem eru félaginu brýn eins og kjaramálin, húsnæðismál eldra fólks, efla félagsstarfið enn frekar, vinna meira að heilsueflingu og hvetja til frekari virkni eldra fólks í ýmsum málum. Ferðaskrifstofan okkar, FEBferðir, eflist með hverju árinu og vinsældir ferðanna hafa verið hvatning til að gera enn betur í þeim málum bæði varðandi innanlands- og utanlandsferðir.

Samhliða formannskjörinu fer fram stjórnarkjör á aðalfundinum. Hér má sjá hverjir bjóða sig fram í stjórnarkjörinu.

Ritstjórn mars 4, 2022 14:54