Vilja hraðari uppbyggingu hjúkrunarheimila

Biðlistar eftir hjúkrunarheimilum og fjöldi eldra fólks liggjandi á sjúkrahúsum vegna þess að það fær ekki pláss á hjúkrunarheimilunum hafa verið viðvarandi vandamál hér á landi  í að minnsta kosti tvo áratugi, ef ekki lengur.  Á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni í gær, var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að setja aukinn kraft í uppbyggingu hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu. Í ályktuninni segir meðal annars:

Nú er svo komið að algjört neyðarástand hefur skapast, enda fer eldra fólki ört fjölgandi. Nú eru 243 einstaklingar, skv. tölum landlæknisembættisins frá því í september 2023, á biðlista. Hægt gengur að vinna á biðlista þessum, en hann stendur nánast í stað eða bætist við hann milli ársfjórðunga.   Þetta er algjörlega óboðlegt ástand og stjórnvöldum til háborinnar skammar sem hafa haft mjög langan tíma til að leysa þetta vandamál.

Bent er á í ályktuninni að það hafi verið fyrirséð í mörg ár, í hvað stefndi þar sem mannfjöldaspár hafi sýnt það svart á hvítu, að veruleg fjölgun eldra fólks myndi eiga sér stað í náinni framtíð. Þolmörkum hafi verið náð fyrir löngu og verði ekkert að gert aukist enn álag á sjúkrahúsin, sem þegar finni fyrir ástandinu. Minnt er á hvað það er gríðarlega kostnaðarsamt að halda fólki á sjúkrahúsi sem eigi að vera inná hjúkrunarheimilum.

Það segir sig auðvitað sjálft að mikill munur er á lífsgæðum eldri borgara sem rúmliggjandi eru á sjúkrahúsi eða á hjúkrunarheimili þegar læknisaðstoð á sjúkrahúsi er lokið. Þeir einstaklingar sem komast ekki áfram í kerfinu verða af ákveðnum félagslegum tengslum og ýmis konar afþreyingu og tómstundum sem hjúkrunarheimilin geta boðið sínu heimilisfólki á meðan sjúkrahús hafa ekki slíka þjónustu að bjóða.  Einmanaleika þarf svo sannarlega að sporna  við og það gerum við ekki með því að halda einstaklingum á sjúkrahúsi sem eru tilbúnir til útskriftar yfir á hjúkrunarheimili. Enda er allt annað að vera inni á heimili með sína persónulegu hluti og aðstöðu til að taka á móti nánustu fjölskyldu eða vinum. Á sjúkrahúsi er hætt við einangrun, þar sem heimsóknir og almenn lífsgæði eru takmörkuð sem getur valdið því að elda fólk visnar upp og jafnvel deyr á biðlistanum.

Þá er í ályktuninni fjallað um fréttir fjölmiðla af breytingum á heilbrigðisstofnunum þar sem skrifstofur og baðherbergi hafa verið rýmd og gerð úr þeim hjúkrunarrými eða einbýlum breytt í tvíbýli. Þetta sé ekki í neinu samræmi við lágmarksviðmið um byggingu og starfsemi hjúkrunarheimila frá júní 2014. Og í lok ályktunarinnar segir.

Það er kvíðvænlegt fyrir marga að lenda á þessum stofnunum, vera þar öðrum háður og vita að þjónustan er í algjöru lágmarki. Ríki og sveitarfélögum er skylt að koma þessum málum í lag sem fyrst og hætta að kasta vandanum á milli sín. Við sættum okkur ekki við neitt annað.

 

Ritstjórn febrúar 22, 2024 12:44