Byrjuðu að vinna þegar þau voru loksins hætt

Útsýnið yfir Elliðaárvatn og fjallahringinn er fagurt

Mæðginin Helga Heiðbjört Björnsdóttir og Björn Ingi Stefánsson vinna saman á Hótel Kríunesi, sem er náttúruparadís við Elliðavatn í Reykajvík. Sannkölluð sveit í borg. Helga og faðir Björns, Stefán Ágústsson fluttu fyrir 15 árum í Kríunes þegar þau voru að fara á eftirlaun.  „ Pabbi og mamma, sérstaklega mamma kom stundum og hjálpaði mér, það þurfti að búa um rúm og fleira. Þegar við vorum svo að stækka gerðum við ráð fyrir íbúð fyrir þau og þau fluttu hingað“, segir Björn og bætir við að þau hafi tekið fullan þátt í rekstri hótelsins.  „það er oft hlegið að því að þegar við loks hættum að vinna, þá byrjuðum við að vinna“, segir Helga.  Stefán féll frá fyrir 8 árum, en Helga býr enn og vinnur í Kríunesi 83 ára gömul.

Ætlaði að stofna hestabú

Kríunes hefur verið byggt upp á löngum tíma.  „Ég keypti staðinn árið 1993  með það í huga að vera hérna með hesta. Það var 90 fermetra íbúðarbús hér og ég fékk fljótlega leyfi til að stækka það. Við leigðum gamla húsið út og fluttum í nýbygginguna“, rifjar Björn upp. „En í apríl 1997 brennur gamla húsið og þá byggðum við það aftur upp með fjórum herbergjum og fórum að bjóða uppá gistingu. Við settum okkur í samband við Ferðaþjónustu bænda sem studdi við bakið á okkur til að byrja með og hefur verið góður samstarfaðili allar götur síðan. Næsta skref var að við breyttum bílskúrnum í lítinn fundarsal og fórum að leigja út fundaraðstöðu. Herbergjunum hefur fjölgað með árunum. Þau eru núna orðin 26 og við erum með þrjá fundarsali“.

Helga H Björnsdóttir

Rómuð fyrir súpur og sósur

Björn segir að Helga sé rómuð fyrir súpurnar sínar og sósurnar, enda sé hún húsmæðraskólagengin og kunni ýmislegt fyrir sér.  Blaðamaður getur sannarlega vitnað um að að súpan hennar er dásamleg og útsýnið úr matsalnum í Kríunesi yfir vatnið og allan fjallahringinn umhverfis höfuðborgarsvæðið er óviðjafnanlegt. Punkturinn yfir I-ið er svo lítil sandlóa sem spásserar fyrir utan gluggann í matsalnum, búin að koma upp ungunum sínum sem voru líka á vappi fyrir utan gluggann á meðan þeir voru að komast á legg.

Voru í 36 ár á Seltjarnarnesi

Áður en Helga og Stefán fluttu í Kríunes, bjuggu þau í 36 ár á Sæbraut á  Seltjarnarnesi. „Við vorum þar með hesta“, segja Björn Ingi og Helga og bæta við að Nesið hafi á þeim tíma verið hálfgerð sveit.  Stefán  starfaði við heildsölu, en lengst af sem  prentsmiðjustjóri með eigin prentsmiðju sem hét Tarsus. Hann var einnig einn af stofendnum Gróttu.  Þau eignuðust þrjá stráka sem nú eru orðnir rígfullorðnir. „ Jú jú, þeir eru að ná mér“, segir Helga og brosir.  Björn Ingi er elstur af strákunum, en síðan kom Stefán Örn og svo Sveinn Þór. Helga á  9 barnabörn og 18 barnabarnabörn. Hún sat og prjónaði á COVID tímabilinu „Það er alveg sama hversu marga vettlinga þú prjónar og í  hvaða stærð, það passar alltaf á einhvern“, segir hún um það að eiga svona mörg börn og barnabörn.

Sögðu að ég stjórnaði öllu

Helga  fer í leikfimi tvisvar til  þrisvar í viku, í sund og er líka í golfi. „ Vinnan gengur fyrir“, segir hún. „Ég þarf ekki lengur að vera með veislur og finnst mikið meira gaman að vinna úti en inni. Þeir sögðu nú alltaf strákarnir að ég stjórnaði öllu“, segir hún og hlær. „Hún var með nefið ofan í öllu, sama hvað það var“ segir Björn Ingi og fer líka að hlæja. Hann telur að Helga hafi ótvíræða stjórnunarhæfileika. „Pabbi passaði einnig vel inn í hópinn, en hann sá um fjármálin og hafði allt í röð og reglu. Hann var mikill málamaður og þýddi fjölda bóka meðfram annari vinnu. Hann léstst árið 2012“, segir hann.

Þau láta vel af samstarfinu

Reynir að stilla sig

En hvernig er það fyrir mæðgin að vinna saman?  „Móðir mín er mjög vinnusöm, henni fellur aldrei verk úr hendi. Það gengur alveg sérlega vel“, segir Björn Ingi og Helga heldur áfram. „ Sonur minn er með alveg sérstaklega góða lund og gerir gott úr öllu, það þýðir ekkert að æsa sig neitt. Það er ekkert auðvelt að vinna með öllum, en okkar samstarf gengur mjög vel“, segir hún.  „ Ætli ég fengi ekki 10 fyrir geðslag, ef ég væri hestur“, segir Björn þá hlæjandi. „Þetta er hans, ég er að vinna hjá honum“, skýtur Helga inní.  „Það líður ekki sú vika að mamma komi ekki og bendi mér á að það þurfi að gera þetta, ganga frá þessu, það þurfi endilega að laga þetta, slá blettinn eða mála þennan vegg, já eða gera við þvottavélina,“ segir Björn Ingi. „Ég  reyni nú að stilla mig“, segir Helga og hlær.

Ekki hefðbundið miðbæjarhótel

En hvers vegna varð ekkert úr hestabúi á Kríunesi? „Þetta æxlaðist svona. Hestarnir taka svo mikinn tíma að þú getur ekki stundað aðrar íþróttir jafnframt. Ég hef gaman af hjólreiðum og golfi, þannig að ég varð að velja á milli. Við erum enn með hesta, dóttir mín er með þrjá hesta í tamningu núna, þannig að við erum ekki alveg hætt, en erum ekki með hesthús á staðnum“, segir Björn Ingi. „Við erum ekki með hefðbundið hótel í miðbæ Reykjavíkur, heldur erum við sveit í borg. Fólk upplifir það eftir 10 mínútna akstur út úr borginni að það sé komið uppí sveit. Við erum ekki eingöngu hótel fyrir útlendinga, okkar markaður er einnig Íslendingar, fjölskyldur sem vilja gera sér dagamun, gista og njóta þessarar stórkostlegu náttúruperlu. Og svo er funda- og veitingaaðstaðn stór hlut af starfseminni. Það hefur verið vinsælt hjá eldra fólki að koma hér í hópum í rútum og borða og hér hittast til dæmis  gamlir skólaárgangar og fermingarárgangar“.

Bókanir eru að glæðast segir Björn Ingi

Ætla að bíða af sér óveðrið

Hótel Kríunes hefur ekki farið varhluta af hruni ferðaþjónustunnar vegna COVID. „Þá skiptum við alveg um gír og settum í lága drifið,“ segir Björn. „ Við snerum okkur strax alfarið að íslenska markaðinum, því erlendi markaðurinn var farinn. Síðan harnaði enn á dalnum þegar samkomubannið kom. Þá duttu út allir fundir, veislur og ráðstefnur. Nú er þetta að glæðast aftur og erlendu ferðamennirnir farnir að koma inn. Við ætlum að bíða af okkur þetta óveður og erum farin að sjá til lands. Það er að koma mikið af bókunum inní haustið og  fyrir næsta ár. Og beiðni um fundi eru farnar að berast“, segir Björn Ingi bjartsýnn á rekstur Hótelsins þar sem þrjár kynslóðir sömu fjölskyldunnar vinna. Þrjú barna Björns Inga koma að rekstrinum og hótelstjórinn Sara er dóttir hans og ömmustelpa Helgu.

Þessi grein birtist áður á vefsíðu Lifðu núna í júlí 2020

Ritstjórn júlí 24, 2020 07:22