Förum til Tenerife á morgun

Helga Björnsdóttir situr með blautt hárið í anddyri JSB líkamsræktarinnar og er að koma úr leikfimitíma, en hún hefur verið í leikfimi hjá Báru í rúm fjörutíu ár. Þar kynntist hún hópi annarra kvenna. „Þegar maður fer oft í viku og hittir alltaf sömu konurnar kynnist maður þeim smám saman“, segir hún, en þær eru rúmlega 20 konurnar sem eru saman í leikfimi og hafa haldið hópinn í áratugi. Þær hittast alltaf á kaffihúsi einu sinni í mánuði og mæta í stórafmæli hver til annarrar. Helga segir að með tímanum hafi karlarnir bæst í hópinn og þau hafi farið að fara saman í leikhús og í golfferðir.

Slaka á í tvær vikur

Helga er í leikfiminni þrisvar í viku. Henni finnst það algerlega nauðsynlegt. „Maður heldur sér við á þessu. Þoli, þreki og bara öllu. Hreyfingin hefur svo mikið að segja. Ég er með gigt og held henni niðri með hreyfingunni og þarf ekki að taka lyf“, segir hún. Hún segir í ýmsu að snúast hjá leikfimihópnum þessa dagana. „Við erum að fara til Tenerife á morgun. Þar ætlar hópurinn að spila golf, hvíla sig og slaka á í tvær vikur. Við förum í gönguferðir, spilum golf og höfum það skemmtilegt“, segir Helga og blaðamaður verður að játa að hann öfundar hana svolítið af því að geta stungið af úr íslenska vetrinum.

Fór á eftirlaun og fór að vinna á gistiheimili

En hún ætlar líka að hvíla sig, því hún er enn að vinna. Hún segir að þegar hún og maðurinn hennar, sem er núna fallinn frá, hafi farið á eftirlaun, hafi þau byrjað að vinna hjá syni sínum sem reki gistiheimili í Kríunesi. Helga er búin að vinna þar í 15 ár.

Ritstjórn febrúar 22, 2016 14:43