Covid lækkaði lífslíkur víða – en ekki á Íslandi

Kórónuveirufaraldurinn lagðist mjög misþungt á eldra fólk og aðra viðkvæmari hópa í löndum heims. Vakin er athygli á því í nýrri stöðuskýrslu um Norðurlönd að há dánartíðni eldra fólks í faraldrinum hefur dregið tilfinnanlega úr lífslíkum í mjög mörgum löndum, en ekki á fjórum af fimm Norðurlandanna, þar á meðal Íslandi. Þetta endurspeglar árangursríkar sóttvarnir og vernd viðkvæmra hópa samfélagsins.

Í skýrslunni segir: „Áratugum saman hafa lífslíkur farið stöðugt vaxandi í Evrópusambandinu í heild, sem og flestum öðrum löndum heims. Að dragi úr lífslíkum er sjaldgæft, en það er það sem sannarlega gerðist í mörgum Evrópulöndum í kórónuveirufaraldrinum. Samkvæmt niðurstöðum einnar rannsóknar, sem gerð var í 37 velmegunarlöndum, féllu lífslíkur í 31 af þessum 37 löndum á árinu 2020. Einu löndin í þessum hópi þar sem ekki dró úr lífslíkum voru Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur, Nýja Sjáland og Taiwan. Mesta fall lífslíkna varð í Rússlandi og í Bandaríkjunum.“

Lífslíkur jukust á Íslandi

Svíþjóð sker sig úr meðal Norðurlandanna; þar tókst ekki nærri eins vel og hjá frændþjóðunum að vernda eldra fólk og viðkvæma, og dánartíðni var há meðal þessara hópa framan af faraldrinum. Af þessum sökum lækkuðu reiknaðar lífslíkur Svía nokkuð á fyrsta faraldursárinu 2020: fóru úr 81,3 í 80,6 ár fyrir karla og úr 84,7 í 84,3 ár fyrir konur. Reiknaðar lífslíkur á Íslandi, í Noregi, Finnlandi, Danmörku og Færeyjum jukust aftur á móti lítið eitt fyrir bæði kyn á árinu 2020.

En þrátt fyrir umframdánartíðni af völdum Covid-19 í Svíþjóð, þá koma Norðurlöndin saman gríðarlega vel út í samanburði við önnur svæði heimsins, þar með talið aðra hluta Evrópu. Dánartíðnin var sérstaklega há í Suður-Evrópu. Stærsta fallið í lífslíkum varð í Suður- og Austur-Evrópu. Umframdánartíðnin af völdum faraldursins var hæst á Ítalíu og Spáni. Fyrir faraldurinn, árið 2019, voru lífslíkur orðnar með því hæsta sem gerist í þessum tveimur síðastnefndu löndum.

Ótímabært að dæma um „beztu“ viðbrögðin

Skýrsluhöfundar ítreka þó að erfitt sé að segja á þessum tímapunkti hvert Norðurlandanna hafi sýnt sig að fylgja „beztu“ langtímastefnunni í viðbrögðum sínum við faraldrinum. „Sumar afleiðinga faraldursins komu fram strax, svo sem aukin dánartíðni, á meðan aðrar afleiðingar eins og langtímaáhrif Covid-sýkingar („long Covid“), aðrar heilsufarsafleiðingar, sálfræðilegar og efnahagslegar afleiðingar geta tekið lengri tíma að sýna sig.“ Þeir ítreka þó í ályktunum sínum í skýrslunni að íbúar Norðurlanda nutu almennt góðrar heilsu í alþjóðlegum samanburði áður en faraldurinn skall á, sem átti sinn þátt í að áhrif hans urðu ekki eins alvarleg í norrænum samfélögum og víða annars staðar.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn mars 28, 2022 12:00