Yfir 100 hafa nú dáið á Íslandi úr Covid-19

Opinbera talan yfir andlát tengd kórónuveirufaraldrinum á Íslandi er nú komin yfir eitt hundrað. Alls hefur 101 andlát verið tilkynnt til Landlæknisembættisins, að því er fram kemur á vefnum covid.is.

Mjög hefur dregið úr smitum og nú liggja 48 sjúklingar á Landspítalanum með virka Covid-19-sýkingu. Tveir sjúklingar eru á gjörgæslu og er annar þeirra í öndunarvél. Nærri helmingur íbúa á Íslandi hefur nú greinst með staðfest smit.

Flest andlátin hafa verið í ómikron-bylgjunni en á þessu ári hafa 64 andlát tengd kórónuveirufaraldrinum verið tilkynnt til Landlæknisembættisins. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt að þessi fjöldi sé afleiðing af mikilli útbreiðslu afbrigðisins.

Flest andlát tengd Covid-19 hafa verið í aldurshópi 70 ára og eldri, samtals 84. Árið 2020 voru alls 29 andlát tilkynnt en árið 2021 voru þau mun færri, eða átta.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir

Fram kemur í nýlegum pistli sem Þórólfur sóttvarnalæknir skrifar að aðeins eigi að tilkynna þau andlát sem læknar meta að Covid-19 hafi valdið, stuðlað að eða á einhvern hátt átt þátt í andlátinu. „Til að dauðsfall sé skilgreint vegna Covid-19 mega ekki líða meira en 28 dagar frá greiningu á Covid-19 og ekki á að vera tímabil algjörs bata af Covid-19 á milli veikinda og andláts,“ segir þar.

Bóluefni við ómikronafbrigðinu væntanlegt

Sóttvarnarlæknir segir von á bóluefni á næstu vikum við svonefndu ómikron-afbrigði veirunnar. Hann segir að staðan hér á landi sé góð en of snemmt að lýsa því yfir að faraldurinn sé búinn. Hann hvetur þá sem enn eru óbólusettur að láta bólusetja sig.

„Það er von á bóluefni á næstu vikum og þá þarf að meta hvort það bóluefni sé vænlegra til að gefa fjórða skammt.  Við erum í sömu sporum og aðrir að bíða með það“, hefur RÚV eftir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni.

 

Ritstjórn mars 31, 2022 21:32