Vondir tímar fyrir ömmur og afa

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Það er gott skápapláss í svefnherberginu okkar, sem kemur sér nú vel. Í efstu hillu eru tvö páskaegg af stærðinni 11 frá því um páska. Kassi keyptur í gær á pósthúsinu bættist áðan við á hilluna. Hann er með nýjum bókum fyrir unga menn og sælgæti. Hann er vandlega merktur. Heimilisfangið tekur 4 línur og í neðstu línu stendur Costa Rica. Ég reyndi að skrifa adressuna eins skýrt og ég mögulega gat, því síðasti pakki komst aldrei á leiðarenda. Ég fór í pósthúsið ánægð með framkvæmdina. En viti menn, þar var ég spurð hvort Costa Rica væri borg eða land. Ég sagði að þetta væri land í Mið-Ameríku. Stúlkan hvarf á bak við tölvuskjáinn og sagði mér að landið væri lokað og ekki hægt að senda pakka þangað vegna covid-19. Hún sýndi mér yfirlýsinguna á skjánum þannig að þetta fór ekkert á milli mála. Hún hafði ekki svar við því hve mörg önnur lönd í heiminum væru nú lokuð fyrir pakkasendingum frá ömmum og öfum.

Þetta eru vondir tímar fyrir afa og ömmur. Við áttum bókaða ferð fyrir okkur og páskaeggin í vor en vegna ferðatakmarkanna varð ekkert úr henni. Sá yngri var búinn að safna lausum tönnum í poka sem amma tannálfur átti að kaupa og rækta fyrsta ananasinn fyrir undirritaða, sem hann setti í ísskápinn. Ávöxturinn er löngu orðinn óætur. Þann eldri langaði til þess að fara heim með okkur til þess að geta spilað fótbolta við félagana á Íslandi. En þessir draumar urðu að engu.

Þar sem allar íslenskar barnabækur á heimilinu eru þegar marglesnar eftir langt skólabann og samskiptabann við jafnaldra á sólarströndinni varð að ráði að útbúa bókasendinguna sem nú hvílir í skápunum á Akureyri. Guð má vita hvenær hægt verður að senda hana.

Ég talaði við ömmustrákana mína um helgina og sá eldri sagðist vera orðinn mjög leiður. Hann spurði mig líka hvort svona ástand hefði skapast áður í heiminum. Ég sagði honum að fyrir rúmum hundrað árum hefðum við líka fengið veiki sem var kölluð Spánska veikin. Hann spurði mig hvort ég hefði verið til þá. Ég neitaði því og sagði honum að það væri alveg nóg að upplifa eina farsótt sem þessa á ævinni. Og við það stend ég.

Ég geri ráð fyrir að hvorki páskaeggin né góðgætið í kassanum hafi eilíft líf og endi í ruslatunnunni. Ég veit heldur ekki nema bækurnar verði orðnar of barnalegar þegar þeir fá þær í hendur. Hvað veit maður á þessum fordæmalausu tímum?

Sigrún Stefánsdóttir júlí 20, 2020 08:48