Blóðberg eftir Þóru Karítas Árnadóttur fjallar um óvenjulegt en mjög áhugavert efni, sem tengist atburðum sem áttu sér stað fyrir um 400 árum, þegar ung kona Þórdís Halldórsdóttur var dæmd til dauða og drekkt í Öxará á Þingvöllum fyrir að hafa eignast barn með mági sínum. Það hafði komið upp sá kvittur að hún hefði átt í sambandi við mág sinn en slíkt var talið dauðasök á tímum Stóradóms. Til að kveða niður orðróminn sór hún eið um að hún væri hrein mey, en fimm mánuðum síðar eignast hún barn. Við tekur 10 ára málarekstur, hún þarf að mæta fyrir Alþingi ár eftir ár og er pyntuð til að gefa upp föður að barninu. Að lokum er hún dæmd til dauða. Mágur hennar var einnig dæmdur til dauða, en bjargaði lífi sínu með því að flýja til Englands.
Mágur Þórdísar, Tómas Böðvarsson, sem giftist Bergljótu systur hennar kemur í heimsókn til föðurhúsa þeirra í upphafi bókarinnar og aðstoðar Þórdísi sem hafði dottið af hestbaki í forarpytt. Henni þykir vandræðalegt að hitta hann við þessar aðstæður.
„Hvers vegna baðstu um hönd Bergljótar?“ sagði ég skyndilega án mikillar umhugsunar og beinskeytt spurningin sem spratt upp úr vandræðum mínum virtist koma Tómasi jafn mikið á óvart og mér sjálfri; ég skammaðist mín fyrir að geta aldrei unað mér í þögn með ókunnugum og þurfa sífellt að mala eitthvað út í loftið ef ég fann til minnsta kvíða. Einmitt í svona kringumstæðum missti ég iðulega taumhald á tungu minni.
„Hún er ein fegursta konan í landsfjórðungnum,“ svaraði hann yfirvegaður og bætti við, „faðir minn vildi ætíð að ég eignaðist konu af Svalbarðsættinni en ég varð honum ekki sammála fyrr en ég sá ykkur systurnar loksins og áttaði mig á hve glæsilegar þið eruð.“
Ég tók ekki mark á skjalli Tómasar. Við systurnar vorum eins og dagur og nótt í útliti enda ég öll miklu smágerðari en Bergljót og með ljóst spegilslétt hár en ekki dökkt og liðað. Aftur á móti vissi ég að það var á allra vitorði hér um slóðir að Svalbarðsættin var bæði voldug og auðug þótt ríkidæminu væri ekki endilega til að deifa í mínum föðurhúsum. Okkur systrum fylgdi þó ágætis heimanmundur og ekki skemmdi fyrir að einhverjir skyldleikar voru með okkur og höfðingjum landsins, til að mynda Jóni Sigurðssyni, sýslumanni á Reynisstað, sem var nágranni Tómasar; ég vissi að tilvonandi eiginmaður systur minnar var í góðri vináttu við og skyldur ekki ómerkari manni en háæruverðugum biskupnum Guðbrandi Þorlákssyni Hólabiskupi svo líklega mátti að einhverju leyti teljast jafnræði með verðandi brúðhjónunum, í það minnsta þegar koma að ættartengslum.
Á leiðinni trúði Tómas mér fyrir því að hann hefði aðeins rætt einu sinni áður við systur mína og að það hefði verið við veisluhöldin að Hólum en háæruverðugur herra biskupinn var vanur að halda fagnað á hverju nýju ári og bjóða til sín helstu mönnum í nærsveitum. Mér þótti sú hugsun næsta furðurleg að þurfa að giftast nær ókunnugri manneskju og búa með henni alla ævi, eignast jafnvel saman börn, án þess að hafa hugmynd um hvort einhver von væri til þess að nokkra ánægju væri hægt að hafa hvort af öðru. Ég gat skilið að jafnræði varð að vera með hjónum en mér fannst að ást, hlýleiki og vinátta mætti vega þyngra þegar kæmi að því að bindast æviböndum.