Dregur saman með kynjunum

 Það er af sú tíð að fjölmiðlar taki  viðtöl við fólk sem nær hundrað ára aldri. Enda hefur fjölgað verulega í hópnum á síðustu árum. Árið 1950 náði einn Íslendingur því að verða hundrað ára, árið 1990 voru 17 Íslendingar hundrað ára og eldri um aldamót voru þeir 26, sex árum síðar voru þeir 31 og í fyrra voru þeir 39. Á sama tíma hefur meðal ævilengd hækkað.

Drengir sem fæddust á síðasta ári geta vænst þess að verða 81 árs gamlir en stúlkur 84 ára. Drengir sem fæddust á árunum 2006 til 2015 gátu vænst þess að verða 80 ára en ævivæntingar stúlkna hafa staðið í stað á sama tíma. Þetta er meðal þess sem kemur fram Þegar mannfjöldaþróun Hagstofunnar fyrir síðast liðið ár er skoðuð. Í fyrra var meðalævilengd karla 80,7 ár en kvenna 83,7 ár.

„Meðalævilengd sýnir hve mörg æviár einstaklingur á að meðaltali ólifað  við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur farið lækkandi á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um. Meðalævilengd hefur vaxið jafnt og þétt hjá báðum kynjum undanfarna öld. Vöxturinn stóð reyndar í stað hjá körlum á árabilinu 1951–1970, en aftur hefur dregið saman með kynjunum síðan þá. Heldur hefur dregið úr vexti meðalævilengdarinnar eftir miðja 20. öldina, en hún jókst mjög hratt frá lokum 19. aldarinnar. Frá árinu 1986 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum árum í meðalævilengd,“ segir á vef Hagstofunar.

Ýmislegt fleira er hægt að lesa út úr tölum Hagstofunnar svo sem að aldursflokkarnir frá nýfæddum til 59 ára voru svipaðir að stærð 1. janúar 2017 með 20–25 þúsund í hverjum fimm ára aldurshópi. Frá 60 ára fækkar hins vegar í árgöngum. Á undanförnum árum og áratugum hefur aldurssamsetning landsmanna breyst mikið. Börnum hefur fækkað hlutfallslega en eldra fólki fjölgað. Fjöldi fólks á vinnualdri sem telst vera 20 til 64 ára hefur staðið í stað undanfarin fimm ár. Í ársbyrjun2017 var fólk á þessum aldri 59,7% en 59,3% 1. janúar 2013. Á síðastliðnum fimm árum hefur fólki á aldrinum 0–19 ára fækkað úr 27,7% af þjóðinni í 26,2% en fólki sem er eldra en 64 ára fjölgað úr 12,9% í 14,0%.

Ritstjórn ágúst 15, 2017 07:39