Kjötsúpan kjörin á haustin

Kjötsúpan íslenska hefur áreiðanlega breyst í áranna rás, en grunnurinn er sá sami og þess vegna ekki úr vegi að birta hér kjötsúpuuppskrift Helgu Sigurðar frá síðustu öld!! Helga nefnir ekki fyrir hversu marga uppskriftin er en hún er þannig:

3/4 – 1 kg. kjöt

2 – 2,5 lítri  vatn

1,5 msk salt

30 gr hrísgrjón

0,5 kg gulrófur

250 gr kartöflur

150 gr hvítkál

250 gr gulrætur

1 msk söxuð steinselja

1 laukur eða blaðlaukur

Aðferð:

Kjötið er haft í fremur smáum bitum. Soðið í 25 mínútur. Grjónin eru þvegin úr köldu vatni og látin út í, soðið áfram í 20 mínútur. Grænmetið er hreinsað, flysjað og skorið niður. Soðið með síðustu 15 – 20 mínúturnar.  Salti bætt í ef vill.  Kjötinu er raðað öðrum megin á steikarfat og kartöflum og rófum hinum megin. Súpan er boðuð með kjötinu. Bezt er að hafa sem flestar tegundir af grænmeti í súpunni, t.d. saxaðan njóla, grænkál eða spínat, sem þá er soðið með síðustu mínúturnar. Einnig er gott að láta saxaða steinselju í súpuna um leið og hún er borin fram.

Súpan sem fylgir með hér á myndinni, er gerð í þessum anda. Að vísu var hrísgrjónunum sleppt og  sellerírótarbitum bætt við grænmetið sem er smátt skorið. Þá var kjötið tekið frá beinunum, skorið í litla bita og sett út í súpuna, í stað þess að bera grænmetið og kjötið fram sér og borða súpuna með. Einnig var borið fram með súpunni gróft brauð. Þessi súpa er á matseðli margra heimila í sláturtíðinni á haustin og er yfirleitt mjög vinsæl. Hugmynd Helgu Sigurðar um að setja njóla í súpuna er athyglisverð. Njólablöð söxuð út í uppstúf gefa til dæmis mjög gott bragð og ugglaust gætum við notað njólann meira til matargerðar en gert er.

Ritstjórn september 27, 2019 12:35