Eldri danir drekka sér til óbóta

Fjöldi 65 ára og eldri sem hafa farið í áfengismeðferð í Danmörku hefur meira en tvöfaldast. Í grein sem birtist á vef danska ríkisúrvarpsins dr.dk kemur fram að árið 2013 fóru 1.427, 65 ára og eldri í meðferð en fimm árum áður var fjöldinn 655. Á sama tíma hefur þeim fjölgað mjög sem fá lyf gegn áfengissýki svo sem antabus. Karsten Bröndmark, áfengisráðgjafi í Fredreriksberg, segir að þeir sem fara í meðferð hafi í mörgum tilfellum drukkið mikið alla ævi. Þegar fólk hverfi af vinnumarkaði hafi það minna fyrir stafni og fari þá að drekka enn meira. Það leiði til alvarlegra áfengisvandamála. Sveitarfélögin í Danmörku hafa frá árinu 2007 borið ábyrgð á að bjóða upp á áfengismeðferð. Talið er að mun fleiri eldri danir þyrftu að leita sér aðstoðar vegna ótæpilegrar áfengisneyslu en gera það í dag. Danska heilbrigðisráðuneytið hefur biðlað til lækna og hjúkrunarfræðinga um að vera vakandi fyrir vandamálinu og hjálpa fólki sem glímir við áfengisfíkn að koma sér af stað í meðferð. Talið er að 27 prósent karla á aldrinum 65 til 74 ára glími við áfengisvandamál og 10 prósent kvenna.

 

Ritstjórn apríl 11, 2016 12:59