Óviðjafnanleg útilegusúpa

 

Þetta er ótrúlega góð súpa til að hafa með sér í útileguna.

Þessi gúllassúpa er einhver besta útilegusúpa sem til er. Hún er bragðmikil og saðsöm. Hana er hægt að gera heima áður en lagt er af stað í útileguna og hita hana upp á áfangastað. Súpan er góð nýlöguð, hún er enn betri daginn eftir og óviðjafnanleg á þriðja degi. Ef á að bregða sér í dagsgöngu er líka gott að hita súpuna og skella henni svo í hitabrúsa. Hún yljar þreyttum og köldum göngumönnum. Súpan er ættuð frá Búdapest en þar  hitti tíðindamaður Lifðu núna elskulegan leiðsögumann sem lét hann hafa uppskriftina. Sá hinn sami sagði að uppskriftin kæmi frá móður hans.  Hér er uppskriftin en hún á að duga fyrir  sex.

Ungversk gúllassúpa

3 msk. ólífuolía

1 laukur sneiddur

1 1/2 tsk. kúmenfræ

1/2 – 1 kíló nautakjöt af framparti skorið í litla bita og fituhreinsað.

3 msk. sæt paprika

2 1/2 lítri af nautasoði

1 stór bökunarkartafla flysjuð og skorin í litla bita

1 nýpa skorin í litla bita

1 stór gulrót skorin í litla bita

3 hvítlauskrif marin

2 tómatar skornir í litla bita

1 sellerístilkur

1 græn paprika skorin í þunnar ræmur

1 búnt steinselja skorin fínt

6 msk. sýrður rjómi (má sleppa)

Hitið olíuna í þykkbotna potti á meðalhita. Mýkið laukinn í olíunni ásamt kúmenfræjunum, í um það bil átta mínútur. Bætið kjötbitunum ásamt paprikuduftinu í pottinn og látið kjötið brúnast vel á öllum hliðum. Það tekur um það bil 15 mínútur. Hellið kjötsoðinu út í pottinn og látið suðuna koma upp, skrapið vel úr botninum á pottinum á meðan suðan er að koma upp, það gefur enn betra bragð. Lækkið hitann og látið malla þangað til kjötið er orðið meyrt, eða í um það bil 40 mínútur. Bætið þá tómötum, selleríi, grænu paprikunni og nípunni í pottinn og sjóðið þangað til grænmetið er orðið mjúkt undir tönn. Takið pottinn af hellunni og látið kólna í stutta stund. Takið um það bil einn þriðja af súpunni, grænmetinu og kjötinu og skellið í blandara. Bætið svo aftur út í súpuna. Bætið steinseljunni í pottinn. Þegar súpan er borin fram má bæta einni matskeið af sýrðum rjóma á hvern disk. Súpuna er gott að bera fram með góðu grófu brauði.

Ritstjórn ágúst 3, 2018 12:28