Það er ekkert leyndarmál að fagrar og frægar konur hafa margar átt í góðu sambandi við tiltekna hátískuhönnuði. Þeir hafa séð þeim fyrir fatnaði og fylgihlutum til að skarta á stærstu viðburðum í lífi þeirra. Þær á móti hafa tekið ástfóstri við ýmislegt sem þeir framleiða og í sumum tilfellum er nafn hönnuðarins og konunnar samofið. Eitt af því sem er minnismerki um slík sambönd eru handtöskur. Nokkrar dýrustu og fallegustu töskur á markaðnum bera nöfn frægra kvenna og það er alltaf saga á bak við það hvernig nafnið kom til.

Jane Birkin virðist þurfa að hafa ansi margt með sér hvert sem hún fer.
Birkin-taskan
Birkin-taskan varð til árið 1984 og er nefnd eftir leikkonunni Jane Birkin. Hún var þá á hápunkti frægðar sinnar, hafði átt í ástarsambandi við Serge Gainsbourg, fyrrum eiginmann Bridget Bardot, og sungið með honum lagið, Je t’aime, sem hneykslaði alla heimsbyggðina. Í fríi í Portúgal með Serge keypti Jane bastkörfu af portúgölskum fiskimönnum og upp frá því bar hún hana hvert sem hún fór og fyllti hana af öllu því sem hún taldi nauðsynlegt að hafa meðferðis.
Sagan segir að einhverju sinni hafi Jane verið á leið milli landa í flugvél með körfuna og misst hana á gólfið. Allt sem í henni var dreifðist um allt. Sessunautur hennar hjálpaði henni að tína upp hlutina en það reyndist vera Jean-Louis Dumas aðalframkvæmdastjóri Hermès á þeim tíma. Þegar

Jane Birkin með bastkörfuna sem hún hvolfdi úr í flugvélinni.
þau voru sest kvartaði Birkin við hann yfir því að engar rúmgóðar, fallegar handtöskur væri að finna á markaðnum og hún þess vegna kosið að bera bastkörfuna. Hann sneri til baka og bað hönnuði sína að búa til tösku eftir forskrift Birkin og Birkin-taskan varð til og auðvitað fékk Jane sent eintak um leið og hún var tilbúin.
Þessar töskur hafa síðan náð þvílíkum vinsældum og þykja svo klassískar að margar ríkustu konur heims eiga þónokkrar í safni sínu, í mismunandi litum, úr fjölbreytilegum efnum og í

Fyrsta Birkin-taskan.
nokkrum stærðum. Taskan þykir einnig halda mjög vel verðgildi sínu, þannig að ef einhver á eina slíka vel með farna, geta sumar þessar eldri verið dýrari en ný taska. Vinsældir Birkin-töskunnar náðu svo nýjum hæðum árið 1998 þegar Samantha reynir í einum þætti af Sex and the City, að koma höndum yfir Birkin-tösku og er beðin útskýra hvers vegna það sé svo mikilvægt að eiga eina slíka. Hún svarar: „Ó elskan það er ekki endilega stíllinn heldur hvað það segir að maður beri eina þeirra.“ Sem sé stöðutákn stöðutáknanna.

Grace Kelly notaði töskuna á snilldarlegan hátt til að skýla stækkandi óléttukúlunni.
Kelly-taskan
En Birkin er ekki eina taskan frá Hermès sem hefur náð þeim hæðum að vera alþjóðlegt stöðutákn. Árið 1956 tóku paparazzi-ljósmyndarar myndir af Grace Kelly að stíga út úr bíl. Hún hafði þá nýlega verið krýnd krónprinsessa af Mónakó. Grace var ófrísk og vildi ekki að það vitnaðist strax svo hún kom handtösku sinni vandlega fyrir þannig að hyldi litlu kúluna sem tekin var að myndast. Ljósmyndin birtist á forsíðu, Life magazine, og forvígismenn Hermès voru ekki seinir á sér að skíra töskuna, Kelly, og auðvitað tók hún að rokseljast um leið. Kelly er enn í dag ein vinsælasta handtaska í heimi og ótal konur dreymir um að eignast eina slíka.

Díana var mjög hrifin af töskunni sem í höfuðið á henni fékk nafnið Lady Dior.
Lady Dior
Árið 1995 gaf Bernadette Chirac, fyrrum forsetfrú Frakklands, lafði Díönu Spencer handtösku. Töskur af þessari gerð voru í miklu uppáhaldi hjá Bernadette og hún vildi gleðja vinkonu sína. Þarna voru liðin þrjú ár frá skilnaði Karls og Díönu og hún enn að finna sig og skapa sér stöðu. Þessi litla taska, einföld að formi með smekklegum skreytingum heillaði Díönu einnig og ljósmyndir fóru að birtast af henni með töskuna. Auðvitað voru markaðssérfræðingar Dior ekki lengi að kveikja á perunni og Lady Dior varð til.

Einn tískublaðamaður vildi meina að handföng töskunnar endurspegluðu fullkomlega augnabrúnir leikkonunnar.
Garbo-taskan
Árið 2007 vildi svissneska fyrirtækið Bally minnast goðsagnarinnar Gretu Garbo á eftirminnilegan hátt. Fyrirtækið framleiðir lúxus fylgihluti og auðvitað varð fyrir valinu að hanna einstaklega fallega og sérstæða tösku. Ákveðið var einnig að framleiða hana í takmörkuðu upplagi en áhersla lögð á að taskan endurspeglaði elegans stjörnunnar og einn tískublaðamaður fullyrti að há bogadregin handföng töskunnar endurspegluðu augnabrúnir Gretu Garbo.

Taskan sem hönnuð var til að heiðra Sophiu Lauren.
Sophiu-taskan
Salvatore Ferragamo og Sophia Loren eru vinir og hún hefur verið fastakúnni hjá honum um árabil. Árið 2009 ákvað hönnunarteymi hússins að hanna tösku sérstaklega fyrir hana til að heiðra hana og þakka fyrir tryggðina sem hún hafði sýnt þeim í gegnum árin. Taskan er dásamleg rétt eins og Sophia.

Alexa Chung með Alexu-tösku.
Alexu-taskan
Dag nokkurn var einn hönnuðanna hjá Mulberry að fletta í gegnum tímarit þegar hann rak augun í ljósmynd af Alexu Chung. Í stað þess að skarta dýrri kventösku frá einhverju hátískuhúsanna hélt Alexa á klassískri skjalatösku frá Mulberry. Hönnuðurinn, Emma Hill, varð svo ánægð með þetta að hún settist við borðið og teiknaði tösku sem að hennar mati endurspeglaði bæði einfaldan, kvenlegan og tímalausan stíl Alexu og karlmannlegan tóninn sem skjalataskan setti. Taskan sem varð til á þarna á teikniborðinu árið 2010 er sögð hafa forðað Mulberry frá gjaldþroti svo vinsæl varð hún strax.

Daphne-taska.
The Daphne-taskan
Þótt nafn fyrirsætunnar Dapne Groeneveld sé kannski ekki heimsþekkt gekk hún tískupallana fyrir ansi marga hönnuði á fyrsta og öðrum áratug þessarar aldar. Jason Wu var nægilega heillaður af henni til að hanna tösku árið 2012 og skíra hana í höfuðið á henni. Hann sagði að taskan væri eins og Dapne, klassísk að fegurð en samt með eigin stíl
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.