Efri árunum mætt á fjörugan hátt

Helga M. Ögmundsdóttir er ein af þessum eiturkláru og reynslumiklu eldri borgurum sem er gert að hætta að vinna sjötugir. Það má færa fyrir því rök að það sé missir fyrir samfélagið að nýta ekki krafta manneskju eins og Helgu lengur í vinnu en reglur eru reglur og Helga beygir sig fús undir þær og snýr sér annað. Hún mun reyndar halda ákveðnum verkefnum áfram svo það er ekki alveg klippt á vinnuævina en kennslan og stjórnunin hverfur úr lífi hennar. Og ef að líkum lætur munum við njóta krafta hennar á allt öðru sviði í framtíðinni.

Helga er upphaflega læknir að mennt en hún útskrifaðist 1975 frá Háskóla Íslands. Hún fann fljótlega út að rannsóknir heilluðu hana meira en klínísk læknisstörf og hélt að loknu námi hér á landi til Edinborgar þar sem hún fór í doktorsnám í ónæmisfræði. Þar hitti Helga eiginmann sinn, Peter Holbrook, sem var þar í doktorsnámi við sömu deild. Peter er tannlæknir í grunninn með sérnám í örverufræði. Þar voru þau í 6 ár og komu að námi loknu til Íslands. Foreldrar Helgu voru fullorðin og þar sem Helga var einkabarn þeirra kom ekki til greina annað en hún kæmi heim aðstæðna vegna. Peter hafði komið tvívegis til Íslands áður en hann kynntist Helgu því hann hafði heimsótt vin sinn sem hafði verið samtíða honum í náminu í Edinborg. Svo þegar Helga kom til sögunnar var valið um framtíðarstaðsetningu ekki erfitt.

Líffræði fruma

Að loknu námi var Helga fyrst ráðin við Landspítalann á rannsóknarstofu í veirufræði en þá fór Krabbameinsfélagið af stað með rannsóknarstofu í sameinda- og frumulíffræði. Helga réðst þá þangað og starfaði lengst af á þeirri rannsóknarstofu eða í tuttugu ár. Þá vildi Krabbameinsfélagið koma þessari starfsemi af sér en hún hafði alla tíð verið rekin í samvinnu við læknadeildina. Þá fluttist rannsóknarstofan á Landspítalann og þar með fór Helga að vinna aftur þar og fór m.a. að kenna frumulíffræði við læknadeildina. Þekking í sameinda- og frumulíffræði segir Helga að sé forsenda fyrir því að skilja krabbamein og rannsóknir og framfarir á því sviði séu svo miklar að fagið sé óneitanlega gífurlega spennandi.

Myndin er tekin í sumarbústaðnum haustið 2011. Hjónin eru fyrir miðju, Lengst til vinstri er yngri sonurinn Baldvin, en sá eldri Ögmundur er lengst til hægri

Börnin komu til sögunnar

Helga og Peter eiga tvo syni. Annar er fæddur í Edinborg en Helga var komin fjóra mánuði á leið þegar hún fór í doktorsvörnina. Sá sem fæddist þar er nú flugvélaverkfræðingur í Þýskalandi en býr í Hafnarfirði. Hinn fæddist hér heima tveimur árum síðar og er stjórnmálafræðingur í grunninn og hefur fengist við rannsóknir á hryðjuverkum. Hann býr í Hollandi en starfar líka í Englandi. Þeir sækja báðir á slóðir forfeðranna þar sem rætur þeirra liggja bæði til Þýskalands og Englands.

Fjölþjóðleg fjölskylda

Allt í kringum Helgu er fólk af ólíku þjóðerni. Faðir hennar sótti sér kvonfang til Þýskalands þar sem hann var við nám í verkfræði. Móðir Helgu er því þýsk svo Helga er jafnvíg á þýsku og íslensku og enskan er henni líka mjög töm. Foreldrar hannar hittust ekki í 8 ár á meðan á stríðinu stóð en ástin hélt og móðir hennar fluttist til Íslands við fyrsta tækifæri eftir stríðið. Þau gengu í hjónaband og Helga fæddist svo til níu mánuðum síðar.

Eiginkona annars sonar Helgu og Peters er ítölsk og pólsk en kona hins sonarins er íslensk en á ættir að rekja til Danmerkur. Faðir Helgu var íslenskur og móðir þýsk svo blandan er töluverð.

Efri árunum mætt á fjörugan hátt

Nú þegar Helga hefur meiri tíma til að verja í áhugamál hefur ýmislegt spennandi tekið við. Hún spilar á píanó sem hún segist bara gera fyrir sjálfa sig og kannski barnabörnin en hún sækir tíma og þykir gaman að taka framförum. Hún hóf síðan nám við Endurmenntun HÍ í leiðsögumanninum nú í haust sem hún segir að sé óskaplega skemmtilegt og þar nýtast tungumálin þrjú sem hún hefur á valdi sínu mjög vel. Helga segir að þetta nám sé mjög vinsælt meðal þeirra sem eru að hætta að vinna sem geri námið ekki síst spennandi þar sem saman komi fólk úr mismunandi áttum og allir með áhugaverða reynslu í farteskinu. Helga er í þessu námi sér til gamans eins og er og veit ekki hvert það muni leiða hana að lokum, en fylgist spennt með.

Tjaldið góða sem nú er rúmlega 40 ára gamalt og fer enn í ferðalögin með Helgu og Peter. Hér í Áfangagili.

Hafa ferðast mikið

Helga og eiginmaður hennar hafa ferðast mikið, bæði innanlands sem utan. Þau hafa starfa sinna vegna mikið farið á ráðstefnur í útlöndum en líka ferðast töluvert innanlands. Þau eiga sumarbústað austur í Gnúpverjahreppi þar sem þau hafa dvalið mjög mikið. Svo eitt árið horfðu þau hvort á annað og spurðu: “Skyldi vera til eitthvað á Íslandi fyrir utan Gnúpverjahrepp, ættum við ekki að gá að því?” Þau voru sammála um að prófa og komust að því að svo var og síðan hafa þau reglulega stungið tjaldinu í skottið og farið af stað í þá átt sem veðurspáin hefur verið þokkaleg. Helga segir að þau eigi eldgamalt fjallatjald sem veki alltaf mikla kátínu meðal barna því það sé orðið rúmlega 40 ára gamalt. Þau fari reglulega með það í Seglagerðina Ægi til að láta gera við það og detti ekki í hug að endurnýja það á meðan það dugar. Helga hefur alltaf haft gaman af að teikna og mála og sér fyrir sér að gera meira af því. Hún fór líka á námskeið fyrir nokkru í ritun ævisagna en hún hefur haft hug á að rita ævisögu foreldra sinna.

Stundar ekki markvissa líkamsrækt

Helga segist ekki stunda markvissa líkamsrækt en hún gangi mikið og fari til dæmis frekar stigann en lyftuna á milli hæða þegar hún komi því við. Þau eru með grænmetisrækt í sumarbústaðnum og njóti þeirrar útiveru mikið. Þau hjónin viðhafi engar ýkjur hvorki í mataræði eða hreyfingu en láti skynsemina ráða.

 

 

 

 

 

Ritstjórn september 14, 2018 04:43