Fjögur algeng mistök við starfslok

Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB skrifar um fjármál.
Réttar upplýsingar geta sparað fólki stórfé. Þar sem fjármálin geta flækst töluvert við starfslok er þekking á þeim breytingum sem verða dýrmæt og getur komið í veg fyrir óþarfa kostnað. Hér eru 4 dæmi um mistök sem við gerum allt of oft.

Hátekjuskattur greiddur af séreignarsparnaði

Þeir sem hafa laun eða lífeyri langt undir mörkum hátekjuskatts (836.404 kr.) geta samt sem áður verið skattlagðir í hæsta skattþrepi. Þegar séreignarsparnaður er tekinn út á eftir að borga af honum tekjuskatt. Séu háar upphæðir teknar út í einu, eða á einu ári, leggjast þær ofan á aðrar tekjur, svo sem lífeyri og laun og heildartekjurnar geta farið yfir hátekjumörkin. Upphæðir umfram þau bera 6,5% hærri skatt og því getur verið hagkvæmara að taka sparnaðinn út á lengri tíma eða bíða þar til við erum hætt að vinna og tekjur okkar lækka.

Fjármunir faldir fyrir Tryggingastofnun

Tryggingastofnun (TR) skerðir ekki lífeyrisgreiðslur vegna eigna, eingöngu vegna tekna. Skerðingar vegna fjármagnstekna geta verið nokkrar, sé sparnaður mikill, en yfirleitt mun minni en flestir halda og ekki króna á móti krónu nema greiddar séu sérstakar framfærsluuppbætur. Fjármagnstekjur (svo sem vextir) skerða ekki tekjutryggingu og heimilisuppbót upp að 98.640 krónum á mann á ári (tvöfalt hjá hjónum) og töluvert meira getur þurft til að skerða grunnlífeyri. Fjármunir sem ekki bera neina ávöxtun rýrna í verðbólgu og því er betra að fá vexti, þó einhverjar skerðingar verði á bótum. Frítekjumark fjármagnstekna hjá skattinum eru 125.000 krónur á mann.

Óþarfa umsókn hjá TR

Réttindi þriggja stærstu bótaflokka TR aukast um 0,5% fyrir hvern mánuð sem umsókn um lífeyri er frestað og slíkt er hægt til 72 ára aldurs. Þeir sem vinna fulla vinnu fram yfir 67 ára aldur hafa ekki endilega hag af því að sækja þar um lífeyri og ættu því að skoða fýsileika þess að fresta tökunni þar til farið er af vinnumarkaði.

Úttekt séreignar vegna skerðinga TR

Sá misskilningur er útbreiddur að taka þurfi út allan séreignarsparnað áður en sótt er um greiðslur frá Tryggingastofnun. Byggir sú umræða á gömlum upplýsingum, frá þeim tíma sem úttektin gat skert helstu greiðslur Tryggingastofnunar. Í dag getur úttekt séreignar einungis skert sérstakar uppbætur, sem helst eru greiddar þeim sem hafa lítinn sem engan lífeyri, en ekki grunnlífeyri, tekjutryggingu eða heimilisuppbót.

VÍB veitir upplýsingar og ráðgjöf um fjármál við starfslok í 440-4900, vib@vib.is eða með persónulegri ráðgjöf á Kirkjusandi. Ítarlegar upplýsingar má auk þess finna á starfslokasíðu VÍB www.vib.is/60.

Ritstjórn apríl 30, 2015 15:13