Tengdar greinar

Eftirlaun skerðast hjá eldra fólki í bakvarðasveitinni

Guðrún Helga Pálsdóttir sjúkraliði er komin á eftirlaun. Hún hefur áhuga á að vera í  bakvarðasveit hjúkrunarfólks vegna Covid 19, en er hins vegar í þeirri stöðu, að fengi hún greitt fyrir starfið í bakvarðasveitinni, myndi það lækka ellilífeyrinn sem hún fær frá Tryggingastofnun. „Það er ekki málið að ég get fengið vinnu, ég er bara ekki tilbúin að vinna nánast launalaust“, segir hún í samtali við Lifðu núna og segir að þó henni sé heimilt að hafa 1.200.000 krónur á árinu í atvinnutekjur án þess að það skerði eftirlaunin, dugi það skammt því hún sé þegar komin í þau mörk á þessu ári þar sem hún hefur tekið vaktir á sjúkrahúsi. Færi hún að vinna sem bakvörður núna, myndi það því lækka ellilífeyrinn.  „Það er fullt af hressu fólki á eftirlaunum sem hægt væri að fá í vinnu, ef kaupið væri ekki umsvifalaust rifið af því“, segir hún.

Á ekki það sama að ganga yfir alla?

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Nýlega var greint frá því í fréttum að ung kona á námslánum, gæti ekki starfað sem bakvörður vegna þess að það skerti námslánið hennar. Menntamálaráðherra brást hratt við og þessu var kippt í liðinn.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara segir ljóst að það séu fleiri með tekjutengingar sem vilji gjarnan vinna í bakvarðasveitinni, en við það skerðist réttindi þeirra í almannatryggingum.  Menntamálaráðherra hafi beðið um breytingar á Menntasjóði námsmanna, til að námsmenn geti haldið námsláninu sínu þrátt fyrir vinnu í bakvarðasveitinni. „Við teljum að þetta séu svo lík dæmi að það sé full ástæða til að skoða hvort þau eru ekki af sama meiði. Það er því eðlileg fyrirspurn til félags- og barnamálaráðherra um hvort sama eigi ekki yfir alla að ganga“, segir hún.

 

 

Ritstjórn nóvember 5, 2020 07:53