Að féfletta gamalt fólk

Ofbeldi gegn öldruðum hefur verið nokkuð í umræðunni hér á landi síðustu misseri. Íslenskar rannsóknir á ofbeldi gegn öldruðum og hversu algengt það eru mjög fáar.  Erlendar rannsóknir sýna hinsvegar að um 2-10% allra aldraðra séu beittir einhverskonar ofbeldi og telja má líklegt að ástandið hér sé svipað. Í grein sem Lifðu núna rakst á bandaríska vefnum aarp.com er fjallað eina birtingarmynd ofbeldis gegn öldruðum, það er þegar ætttingjar, vinir eða ummönnunaraðilar reyna að féfletta gamalt fólk. Lifuðu núna ákvað að endursegja greinina.

Í Bandaríkjunum er vel þekkt að fjárhagsleg misneyting sé kærð en algengt er að fórnarlömbin séu fullorðið fólk sem á undir högg að sækja. Það sem vekur helst athygli er að um þriðjungur gerenda í kærðum málum eru fjölskyldumeðlimir, oft maki fórnarlambsins, uppkomin börn eða barnabörn. Rannsóknir sýna jafnframt að gerendur eru oft háðir efnum og tekjum fórnarlambsins. Þeir búa þá í húsnæði hins misneytta og stríða oft sjálfir við ýmiss vandamál eins og fíkniefnavanda eða eru í fjárhagsvandræðum.

Misneyting aldraðra falið vandamál

Fórnarlamb misneytingar er hugsanlega háð aðstoð og ummönnun gerandans sem einnig reynir að einangra hann eða hana. Sá eða sú sem verður fyrir slíku gæti einnig óttast hefnd gerandans og hræðist þannig að greina frá misneytingunni. Fórnarlambið er þá oft of hrætt, skammast sín eða er einfaldlega of veikt til að geta hugsað nógu skýrt til að geta greint frá misneytingunni. Uppkomin börn, eða barnabörn eru oft gerendur í slíkum málum eða þá makar, systkini, kunningjar eða ummönnunaraðilar. Í slíkum tilfellum er algengt að fórnarlömb kæri ekki til lögreglu til að vernda gerandann. Þá eru nágrannar tregir til að bregðast við enda ekki víst að þeir sjái neitt misjafnt eða að þeir eru óvissir um það hvert þeir eiga að snúa sér. Það sem eldra fólk getur gert til að komast hjá því að láta aðra misnota fjármuni sína er til dæmis þetta:

Haltu stöðugu og reglulegu sambandi við fjölskyldu og vini.

Ekki einangrast og ekki láta neinn komast upp með að einangra þig.

Leitaðu til fólks sem þú treystir vel til að aðstoða þig við hluti sem eru þér erfiðir.

Ræddu reglulega við lækninn þinn til að ræða hvers kyns líkamleg og andleg einkenni og láttu hann vísa þér til sérfræðinga.

Komdu fjármálum þínum í gott lag núna, áður en minni þitt og heilsa þín bilar.

Fylgstu reglulega sjálf/ur með fjármálum þínum og/eða skipaðu fjárhaldsmann sem þú treystir vel.

Gerðu öllum það ljóst að þú átt fullan rétt á því að komið sé fram við þig af virðingu. Gerðu lýðum það ljóst hvað þú vilt og hvað þú vilt ekki. Settu fólki mörk.

Einangrun og misneyting

Kerfisbundin einangrun er leið margra gerenda til misneytingar. Þannig einangrun hefur ýmsar myndir, til dæmis:

Fórnarlambinu er gert ókleyft að tala við aðra nema gerandinn sé viðstaddur.

Sími þolanda er gerður óvirkur þannig að hann eða hún veit ekki að aðrir eru að reyna að hafa samband. Þannig upplifir þolandinn mikla einmannakennd.

Hjálpartæki eins og gleraugu, heyrnartæki eða göngustafir „eru utan seilingar eða týnd“ sem þá takmarkar hreyfigetu og sjálfstæði þolandans.

Smátt og smátt er þeirri hugmynd komið inn hjá fórnarlambinu að öðru fólki eins og vinum, læknum eða jafnvel nánum fjölskyldumeðlimum sé ekki treystandi.

Þolandinn verður að lokum algjörlega háð gerandanum og treystir engum öðrum en honum.

Einkenni misneytingar:

Misneyting aldraðra getur verið mjög fjölbreytt. Telja má upp misnotkun á umboði, eða að fjárhaldsmaður nýti eignir þolandans í eigin þágu. Gerendur misnota einnig gjafmildi, samúð, einfeldni, og aðrar tilfinningar hins aldraða.

Eftirfarandi einkenni fjárhagslegrar misneytingar eru meðal annars:

Skyndileg breyting á eyðsluvenjum eins og háar óútskýrðar úttektir af bankareikningum með debetkorti.

Falsaðar undirskriftir á fjárhagslegum gjörningum eins og afsölum.

Skyndilegar breytingar á erfðaskrá eða eignum afsalað.

Verðmætir hlutir eða fjármunir hverfa.

Ógreiddir reikningar hlaðast upp.

Ættingi birtist skyndilega og krefst hlutar í búi og eignum eða „nýr besti vinur“ býðst ákveðið til að annast fjármál hins aldraða.

Ummerki um misneytingu hjá þolanda:

Hann dregur sig í hlé

Þunglyndi

Hjálparleysi

Deyfð

Tilfinningalegur sársauki eða vanlíðan

Hann ýtir fólki frá sér

Kvíðahegðun

Reiði

Hræðsla eða hik við að tala frjálslega

Leyndarhyggja

Rugl eða mikil gleymska.

Við verðum öll að hafa augun opin til að verja fólk gegn misneytingu. Gruni þig að eitthvað misjafnt eigi sér stað er þér rétt að láta lögreglu eða önnur viðeigandi yfirvöld vita.  Þú mátt vera viss um að ábendingar þínar verða teknar til greina.

 

Ritstjórn janúar 8, 2016 10:49