Skora á stjórnvöld að leiðrétta kjör eftirlaunafólks

Landsfundur LEB – Landssambands eldri borgara var haldinn í Reykjavík í vikunni. Þar var fjallað um kjaramál, eins og á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og samþykkt svipuð ályktun.  Aftur var lýst vonbrigðum með það hversu lítið hefur gengið að leiðrétta launakjör eftirlaunafólks, þrátt fyrir kosningaloforð allra flokka í þá veru. Lágmarkslaun hafa síðasta áratuginn hækkað um 92% á meðan grunnupphæð ellilíefyris frá TR hefur einungis hækkað um 61,1%. Það er ekki í samræmi við lög um almannatryggingar sem gera ráð fyrir að lífeyrir almannatrygginga fylgi launaþróun. Þá eru skerðingar í almannatryggingakerfinu harðlega gagnrýndar, enda vinni þær markvisst gegn því að fólk geti bætt kjör sín af eigin rammleik með því að afla sér viðbótartekna. Síðan segir orðrétt í ályktuninni

Þegar skerðing almannatrygginga leggst við tekjuskattinn og útsvarið, verður niðurstaðan grimmir jaðarskattar, sem leggjast á eftirlaunafólk og öryrkja og valda því að þau öldruðu halda í besta falli eftir 27 til 35 krónur af hverjum 100 krónum sem þau hafa í aðrar tekjur. Engum öðrum þjóðfélagshópum er ætlað að búa við slíka skattheimtu, enda er hún óboðleg og óásættanleg.

Landsfundur LEB 2020 skorar á stjórnvöld að taka strax afgerandi skref til að leiðrétta kjör eftirlaunafólks. Hækka verður lífeyri a.m.k. til jafns við lágmarkslaun og líta sérstaklega til þess hóps aldraðra sem er verst settur. Jafnframt verður að hækka almenna frítekjumarkið úr 25 þúsund krónum á mánuði í 100 þúsund krónur á mánuði sem fylgi svo vísitölubreytingum. Launuð vinna eldri borgara valdi ekki skerðingu greiðslna frá Tryggingarstofnun ríkisins.

Hafin verði vinna við uppstokkun á regluverki lífeyristrygginga, sem komið er í ógöngur vegna óhóflegra tekjutenginga og hárra jaðarskatta.

Það er ljóst að eldri borgarar eru mjög farnir að ókyrrast, enda ótækt að það dragi stöðugt í sundur með þeim og öðrum í launaþróuninni. Í nýútkomnu blaði Landssambands eldri borgara gagnrýnir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður sambandsins  einnig hversu hægt hefur gengið að ná fram kjarabótum fyrir eldri borgara á umliðnum árum og segir að það sé ástæða þess að Landssambandið hafi látið gera nýja úttekt á launaþróun eldri borgara miðað við aðra.

Ritstjórn júlí 2, 2020 12:02