Ákveðin tegund bókmennta eftir konur hefur verið litin hornauga af menningarelítunni. Um er að ræða sögur þar sem ástir og örlög kvenna eru í aðalhlutverki og þótt háskinn sé oft nærri þarf lítið að óttast því allt fer vel að lokum. Þessar bækur eru misjafnlega vel skrifaðar en eru fínasta afþreying og enginn ætti að vanmeta áhrif þeirra.
Hin óviðjafnanlega Kapitóla
Rúmlega öld er síðan Kapítóla kom út í fyrsta sinn hér á landi. Á frummálinu heitir sagan The Hidden Hand. Þetta er gríðarlega spennandi saga um mögnuð örlög nokkurra einstaklega góðra manneskja. Kapítóla varð innblástur og fyrirmynd þriggja kynslóða kvenna sem lærðu af henni sjálfstæði, hvatvísi, hugrekki og staðfestu. Ráðamenn hér á landi með Jónas frá Hriflu í broddi fylkingar gerðu sitt besta til að draga úr vinsældum hennar.
Hugsanlega hugnaðist þeim ekki sú staðreynd að Kapítóla nær hvað eftir annað að sjá við svarta Donald, aðalskúrki sögunnar, og bjarga öllu. Ekki nóg með það. Hún lætur engan karlmann segja sér fyrir verkum og vefur velgjörðarmanni sínum um fingur sér, snýr taflinu örugglega við þegar presturinn ætlar að kenna henni kvenlegri siði og gerir nákvæmlega það sem hún vill. Á fyrstu áratugum síðustu aldar var ekki vinsælt að konur tækju ráðin í sínar hendur og stjórnuðu ekki bara eigin örlögum heldur annarra svo líklegt er að útsjónarsemi Kapítólu hafi hrætt Jónas og aðra ráðamenn Íslands.
Þetta er í árdaga kvenréttindabaráttunnar og baráttan fyrir kosningarétti og kjörgengi og þess vegna gæti kona á borð við þessa sögupersónu náð að skjóta mönnum skelk í bringu, enda súffragetturnar í Bretlandi og víðar orðnar áberandi. Og það er óumdeilt að Kapítóla hafði áhrif á sjálfsmynd, drauma og lífsval þriggja kynslóða íslenskra kvenna. Við sem lásum bókina á mörkum æsku og unglingsára, eftir að hafa heyrt góðar umsagnir mæðra okkar um aðalpersónuna, munum spennuna, gleðina og áhugann þegar þær réttu fram lúð eintak og sögðu að hér væri á ferð skemmtileg saga. Sennilegt er að stúlkur á öllum tímum geti samsamað sig Kapítólu og tekið hana sér til fyrirmyndar. Kapítóla var og er áhrifavaldur ekkert síður en Lína Langsokkur, Jo March í Yngismeyjum eða Little Women, Beverly Gray, Nancy Drew, Rósa Bennett, Hermione Granger í Harry Potter og ótal fleiri greindar stúlkur sem þora að vera þær sjálfar. Fyrir nokkru kom út sjötta útgáfa Kapítólu og enn er stuðst við þýðingu Eggerts Jóhannessonar er þýddi hana upphaflega og endursagði. Silja Aðalsteinsdóttir yfirfór þessa útgáfu og ritaði eftirmála.
„Við sem lásum bókina á mörkum æsku og unglingsára, eftir að hafa heyrt góðar umsagnir mæðra okkar um aðalpersónuna, munum spennuna, gleðina og áhugann þegar þær réttu fram lúð eintak og sögðu að hér væri á ferð skemmtileg saga.“
Bókin með langa titilinn
Mjög góð kvikmynd var gerð eftir dásamlegri sögu Mary Ann Shaffer og Annie Barrows, The Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society eða Bókmennta- og kartöflubökufélagið. Af því tilefni var bókin endurútgefin hjá Bjarti og þeir sem misstu af henni í fyrri sinnið ættu að nota tækifærið til að grípa hana og lesa ef þeir rekast á hana. Sagan segir frá Juliet Ashton, ungum rithöfundi í leit að viðfangsefni fyrir næstu sögu sína. Hún finnur bréf frá manni, búsettum á Guernsey inni í bók og það verður til þess að þau fara að skrifast á. Í kjölfarið kynnist hún öðrum meðlimum bókmennta- og kartöflubökufélagsins og heillast svo að hún leggur af stað til eyjarinnar til að hitta þá. Það verður til þess að líf hennar gerbreytist. Kvikmyndin skartar Lily James í hlutverki Juliet, Michiel Huisman leikur Dawsey Adams og Jessica Brown Findlay er Elizabeth McKenna og Matthew Goode, Sidney Stark.
Þetta er falleg saga um vináttu, ást og þrautseigju fólks á erfiðum tímum. Þarna kemur vel fram hvernig stríð getur dregið jafnt fram það besta sem og það versta í manneskjum. Bókin er sett upp eins og safn bréfa og sagan rakin í gegnum þau. Og í raun er tilurð hennar einnig nokkuð merkileg saga. Mary Ann Shaffer hafði ætlað að skrifa ævisögu Kathleen Scott, eiginkonu, Roberts Falcons Scott pólarfara og til að afla sér heimilda ferðaðist hún til Englands. Meðan hún dvaldi þar missti hún móðinn, enda lítið á persónulegum gögnum Kathleen að græða.
Hún ákvað þess vegna að fara í frí til Guernseyjar en varð þar veðurteppt nokkrum dögum lengur en hún ætlaði sér og varði mestum tíma sínum í bókabúð bæjarins. Þar las hún heilmikið um lífið á eynni undir járnhæl nasista en þeir gerðu innrás á Ermasundseyjarnar og þær voru hernumdar meðan á stríðinu stóð. Þetta varð til þess að Mary Ann hætti við að skrifa um Kathleen og ákvað þess í stað bók sem fólk myndi almennt vilja lesa. Í tuttugu ár lá hugumyndin hins vegar á ís en svo hóf hún verkið. Handritið var sent til útgefanda, honum leist vel á en ritstjóri bókaforlagsins lagði til umfangsmiklar breytingar.
Þá var Mary Ann orðin mjög mikið veik af krabbameini. Hún bað því systurdóttur sína, Annie Barrows að taka við og ljúka við handritið. Annie var þá þekktur barnabókahöfundur og Mary Ann treysti henni fyllilega til að fylgja eftir sinni sýn. Þetta varð úr og Annie er titluð meðhöfundur. Þann 16. febrúar 2008 lést Mary Ann en bókin kom út nokkrum mánuðum seinna.
„Þetta er falleg saga um vináttu, ást og þrautseigju fólks á erfiðum tímum. Þarna kemur vel fram hvernig stríð getur dregið jafnt fram það besta sem og það versta í fólki. Bókin er sett upp eins og safn bréfa og sagan rakin í gegnum þau.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.