Eggert Þorleifsson ánægður með Hopkins

Kvikmyndin Faðirinn (e. The Father), sem nú er verið að sýna í bíóhúsum landsins, hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda, en hún var tilnefnd til sex Óskarsverðlauna og vann til tvennra. Anthony Hopkins leikur aðalhlutverkið og hreppti hann bæði Óskars- og BAFTA-verðlaunin fyrir túlkun sína í myndinni. Auk hans var Olivia Colman tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki.

Hopkins leikur aldraðan mann sem þolir illa tilraunir dóttur sinnar (Coleman) til að ráða húshjálp handa sér. Fljótlega kemur í ljós að hann glímir við minnisglöp sem verða æ augljósari og vandræðalegri eftir því sem líður á myndina. Áhorfendur upplifa sterkt líðan hans í heimi þar sem allt virðist á hverfanda hveli, ástvinir koma og fara, ókunnugt fólk virðist leggja undir sig híbýli hans, og ekki er alltaf ljóst hvort hann er heima hjá sér, heima hjá dóttur sinni eða á sjúkrastofnun.

Coleman og Hopkins í hlutverkum sínum. Mynd: Sean Gleason.

Myndin þykir sýna á raunsæjan en jafnframt listrænan hátt hvað minnisglöp og alzheimer geta verið íþyngjandi sjúkdómar sem valda mikilli sorg og upplausn. Kvikmyndin er tekin í Lundúnum, að mestu í Hayes, vesturhluta borgarinnar, og í baksviði ómar dúett perluveiðaranna svonefndu úr óperu Bizets (fr. Les Pêcheurs de Perles), eitthvert angurværasta verk óperuheimsins, sem gamli maðurinn nærist á í viðsjárverðum heimi gleymskunnar.

Handrit kvikmyndarinnar er byggt á franska leikritinu Le Père eftir Florian Zeller, en það var fyrst sett á fjalir í Frakklandi árið 2012. Zeller lagaði sjálfur handritið að kvikmyndaforminu ásamt Christopher Hampton og hlutu þeir báðir Óskarsverðlaunin fyrir það. Zeller hefur raunar unnið til fjölda verðlauna fyrir leikrit sitt, en hann leikstýrði jafnframt kvikmyndinni og er það frumraun hans á því sviði.

Mörgum er enn í fersku minni að þetta sama leikrit var sett á fjalir í Þjóðleikhúsinu árið 2017 í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur og fór þá Eggert Þorleifsson með aðalhlutverkið og sló algjörlega í gegn sem verkfræðingurinn minnislausi, André. Eggert túlkaði snilldarlega hæga leið mannsins inn í tómið, yfirborðshroka hans meðan hann hélt sjálfsörygginu og vaxandi öryggisleysi hans, uns kom að sáru niðurbrotinu að lokum.

Lifðu núna lék forvitni á að vita hvað Eggerti fyndist til um frammistöðu kollega síns í myndinni. „Kvikmyndin er mjög góð og engum blöðum um það að fletta að Hopkins skilar sínu afar vel, og það gerir raunar Coleman líka. Leikritið var auðvitað „harmrænn farsi“, eins og sagði í undirtitli, og þar var margt bráðhlægilegt og absúrd, eins og vera ber í leikhúsinu. Ég held að í leikuppfærslunni hafi tekist að komast hjá línulaga melódrama sem aftur á móti er ekki undan vikist í kvikmyndinni. Ég er auðvitað ánægður með frammistöðu Hopkins, hann er frábær túlkandi.“

Hopkins var ekki viðstaddur Óskarsverðlaunaafhendinguna 26. apríl síðastliðinn, en hann var þá staddur á heimaslóðum sínum í Wales á Englandi sem hann hafði ekki farið til í heilt ár sökum kórónuveirufaraldursins. Hann er 83 ára gamall og er nú elsti leikari sem unnið hefur til Óskarsverðlauna fyrir leik í aðalhlutverki. Hann sagði í ávarpi sem hann sendi frá sér á samfélagsmiðlum eftir verðlaunahátíðina að niðurstaðan hefði komið sér á óvart, hann hefði alls ekki gert ráð fyrir því að hreppa verðlaunin.

Tónlist Bizets er eins og leiðarstef í allri myndinni:

Ritstjórn maí 11, 2021 08:00