Situr lamað af spennu við skjáinn

Nýlega kom kvikmyndin Kidnap, með Halle Berry í aðalhlutverki inná VOD-ið og margir eru sjálfsagt  búnir að sjá hana. Par sem við þekkjum var búið að sjá að myndin var komin, án þess að hafa mikinn áhuga á að taka hana á leigu.  Fyrir rælni ákvað það hins vegar að taka myndina og fyrr en varði var það dottið inní þá ótrúlegu atburðarás sem myndin sýnir. Hún fjallar um Körlu sem er einstæð móðir sem vinnur sem þjónustustúlka á veitingastað, og son hennar Frankie sem er sex ára. Dag einn fara þau í skemmtigarð þar sem Frankie er rænt. Karla kemur auga hann, þar sem hann fer ásamt konu inní ókunnan bíl á bílastæðinu við garðinn og hefur eftirför. Þetta er æsispennandi eltingaleikur sem skilur fólk eftir lamað við skjáinn. Myndin er síðan 2017. Leikstjórinn heitir Luis Prieto og á Wikipedia segir að myndin hafi fengið misjafnar viðtökur gagnrýnenda. En hún er ótrúlega spennandi.

John Paul Getty er ekki á því að greiða himinhátt lausnargjald fyrir sonarson sinn

All the Money in the World er önnur mynd um „barns“rán, en hér er það ekki fátæk þjónustustúlka sem á barnið sem er rænt, heldur forríkt fólk og ránið er framið í Róm á Ítalíu. Sonurinn sem er rænt, John Paul Getty III er ekki sex ára, heldur sextán ára, og foreldrar hans eru sonur og (fyrrverandi) tengdadóttir John Paul Gettys sem á þeim tíma var talinn ríkasti maður heims. Það er krafist himinhárra upphæða í lausnargjald fyrir hann, sem Getty afi hans er ekki tilbúinn að greiða. Það vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þegar ræningjarnir skáru eyrað af John Paul og sendu til fjölmiðla til að knýja á um að lausnargjaldið yrði greitt.  Michelle Williams fer með annað aðalhlutverka myndarinnar og leikur móður Johns Pauls III en Christopher Plummer leikur afa hans miljarðamæringinn. Upphaflega fór Kevin Spacey með hlutverk hans, en þegar hneykslismál í tengslum við  #MeToo bylgjuna komu upp, var hann snarlega klipptur út úr myndinni og Chrisopher Plummer tók við hlutverkinu. Myndin er mjög vel gerð og sérstaklega vel leikin. Hún fjallar ekki bara um ránið, heldur líka um tilfinningar og það hvernig auður getur leikið manneskjuna. Alveg þess virði að eyða einu kvöldi í að horfa á hana. Leikstjóri myndarinnar er Ridley Scott.

Systurnar Ginger og Jasmine

Blue Jasmine. Ein besta mynd Woody Allen, hefur verið lengi á leigunni hjá Símanum. Ef einhverjir eiga eftir að sjá hana má hiklaust mæla með henni, en Cate Blanchett á stjörnuleik í myndinni sem Jasmine Francis. Jasmine hafði verið gift forríkum fjármálamanni sem sveik viðskiptavini sína og endaði í fangelsi. Hún missir fótanna og á hreint ekki auðvelt með að byrja nýtt líf peningalaus og allslaus í San Francisco, þar sem hún neyðist til að  flytja inná systur sína Ginger, sem á varla orð yfir því að hún skuli hafa flogið á fyrsta farrými frá New York til San Francisco, þó hún sé allslaus. Cate dreymir um að verða innanhúss arkitekt og inn í þetta allt saman blandast ástarmál þeirra systra sem verða býsna flókin. Myndin er ótrúlega vel gerð .

Siggi Sigurjónsson, Steindi og Edda Björgvins á rauða dreglinum en myndin hefur fengið lofsamlega dóma hér heima og erlendis

Fyrir þá sem misstu af henni í bíó, er Undir trénu einnig á VOD-inu. Edda Björgvins vann leiksigur í  aðalhlutverkinu í myndinni. Myndin segir frá hjónunum Baldvin sem Sigurður Sigurjónsson leikur og konu hans Ingu sem Edda leikur, sem búa í ósköp venjulegu raðhúsi í Reykjavík. Steinþór Hróar Steinþórsson leikur son þeirra sem stendur í skilnaði.  Þegar nágrannarnir  í næstu íbúð fara að kvarta yfir stóru tré í garðinum þeirra sem skyggir á sólpallinn hjá þeim, hefst atburðarás sem hefur afdrifaríkar afleiðingar svo ekki sé meira sagt. Ef þið misstuð af myndinni í bíó og hafið ekki enn séð hana, er um að gera að smella á takkana á fjarstýringunni og leigja myndina.

Ritstjórn apríl 20, 2018 10:30