Fjórar frábærar á Netflix

Það er mikið horft á Netflix og aðrar efnisveitur þessa dagana, enda virkilega góð afþreying að horfa á góða þætti og kvikmyndir. Hér eru fjórar myndir á Netflix sem blaðamanni Lifðu núna þóttu góðar.

Kiss the girls 

Morgar Freeman leikur í sálfræðitrylli

Réttarsálfræðingurinn og leynilögreglumaðurinn Alex Cross  hraðar sér frá Washington DC til Durham í Norður Karólínu, þegar ung frænka hans Naomi sem er háskólanemi hverfur. Cross fær þær fréttir frá Nick Ruskin rannsóknarlögreglumanni á staðnum að Naomi sé sú síðasta í röð ungra kvenna sem hafi horfið sporlaust. Skömmu eftir að Cross kemur til Durham finnst ein horfnu kvennanna látin og stuttu eftir það er lækninum og boxaranum Kate McTiernan rænt af heimili sínu. Þegar hún vaknar upp lyfjuð, uppgötvar hún að henni er haldið fanginni af manni sem kallar sig Casanova og að hún er ein af fleiri föngum sem sitja fastir í fylgsni hans. Mjög spennandi sálfræðitryllir þar sem  Morgan Freeman og Ashley Judd fara með aðalhlutverkin.

Self Made

Sarah Breedlove, fæddist í Louisiana í Bandaríkjunum árið 1867. Hún varð munaðarlaus 7 ára gömul. Seinna tók hún upp nafn eiginmanns síns og kallaði sig Madame C.J. Walker. Hún stofnaði hársnyrtivörufyrirtæki sem varð stórveldi og átti eftir að gera hana, fyrstu blökkukonuna í Bandaríkjunum, að milljónamæringi. Hún átti ævintýralegt líf og þrjá eiginmenn. Hún flutti til New York,  tók virkan þátt í góðgerðarstarfi þar og var „aðgerðarsinni“.  Ævi hennar varð kveikjan að þáttaröðinni Self Made á Netflix, þar sem Octavia Spencer fer á kostum í hlutverki hennar. Þættirnir sem eru fjórir lýsa hetjulegri baráttu konu við tvöfalda kúgun, vegna kynþáttar og kynferðis.

Revolutionary Road

Hjónin April og Frank Wheeler leita að hamingjunni

Myndin lýsir lífi ungra hjóna í úthverfi í Connecticut. Hjónin Frank og April Wheeler eiga tvö börn. Hann starfar sem sölumaður í sama fyrirtæki og faðir hans hafði gert. Hún lærði leiklist en tókst ekki að fóta sig í faginu og sneri sér að húsmóðurstörfum, eftir að þau eignuðust börnin. April á ekki gott með að sætta sig við hlutskipti sitt, eða hlutskipti kvenna, eins og það var á þessum tíma. Henni finnst líf þeirra hjóna innantómt og dreymir um að þau flytji til Parísar. Þetta er mynd sem lýsir úthverfalífi í Ameríku í kringum 1960. Myndin er átakanleg og firna vel leikin, enda toppleikarar í aðalhlutverkunum. Leonardo DiCaprio leikur Frank, en Kate Winslet April konu hans. Kathy Bates leikur einnig í myndinni, vinkonu þeirra hjóna.

Our Souls at Night

Robert Redford og Jane Fonda eru bæði um áttrætt í myndinni

Þessi mynd hefur verið á Netflix í nokkur ár, en fyrir þá sem eru komnir á efri ár og hafa ekki séð hana, er enn tækifæri til að sjá hana á Netflix.  Jane Fonda og Robert Redford, leika nágrannana Louis Waters og Addie Moore í smábæ, en þau eru bæði búin að missa maka sína. Þau eru einmana og hún bankar uppá hjá honum eitt kvöldið og leggur til að þau hittist á kvöldin og sofi saman án kynferðislegs sambands, aðallega til að geta spjallað við einhvern á kvöldin, svo að þau sofi betur. Það fer vel á með þeim, en uppkomnum syni April líst ekki á blikuna þegar mamma hans er farin að hitta nýjan mann. Þetta er vel gerð mynd, vel leikin, róleg, og gæti gerst í lífi eldri borgara hvar sem er í heiminum.

Ritstjórn apríl 3, 2020 07:20