Eigum við að borga „bónusana“?

Félagstíðindi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni eru nýkomin út. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður félagsins gagnrýnir bankana harðlega í leiðara blaðsins, en fyrst fjallar hún ítarlega um skert kjör efirlaunafólks og segir:

Eru alþingismenn meðvitaðir um afleiðingar þessara skerðinga? Vita alþingismenn að þetta er fólkið sem byggði vegina, brýrnar, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og skólakerfið upp og ól upp kynslóðina sem ekki veit hvernig Nýja Ísland varð til?

Og Þórunn heldur áfram og snýr sér að bönkunum.

Þá er komið að næsta stórvanda en það er bankakerfið sem hefur hreinlega stolið af eldra fólki miskunnarlaust í áratugi. Inneignir í bönkum vaxtalitlar og nú greiðslur fyrir hvert handtak. Það er kallað vöruúrval á bankamáli. Okkar fólk hefur mótmælt og sumir meira en aðrir þannig að til dæmis Arionbanki fór að verða uggandi og vildi fara varlega

Þórunn hvetur eldri borgara til að halda áfram að spyrja um kjörin í bönkunum.

Þið eigið bankana með ykkar traustu, miklu innistæðum og viðskiptum. Þarna sérstaklega hefur „drengjunum“ gefist tækifæri til að greiða bónusa í stað vaxta til okkar sem byggðum þetta land. Eigum við að borga „bónusana“ og það jafnvel til þeirra sem stuðluðu beint og óbeint að því að við eldri borgarar þessa lands glötuðum bréfum okkar, sjóðirnir okkar voru færðir niður og lífeyrir okkar lækkaður. Maður spyr sig: „Eru drengirnir sem hafa elst byrjaðir aftur. Eigum við að borga „bónusa“ með þóknunum fyrir að nota okkar fé?“ Þessum aðförum verður að linna! Eigum við eldri borgarar enn og aftur að greiða fyrir kollsteypuna? Því verður ekki unað.

 

Ritstjórn júní 11, 2015 11:59