„Meiri lífsfylling að búa með öðrum en vera einsamall“

Margrét Sölvadóttir er fíngerð og grönn kona, komin yfir sjötugt.  Þar sem við sitjum og tölum saman í stofunni á heimili hennar  og sambýlismannsins Jóhanns Stefánssonar í Árbænum, kemur fljótt í ljós að hún býr yfir ofurkrafti. Hún hefur rekið saumaverkstæði, líkamsræktarstöð fyrir konur, flísabúð, bar á Spáni og verið fasteignasali hér og í Bandaríkjunum, skrifað skáldsögu, verið með útvarpsþátt á Aðalstöðinni og um skeið var hún formaður BPW hér á landi, en það er félag útivinnandi kvenna.  Sú hugmynd kom upp meðal félagskvenna að auglýsa eftir konum til að bjóða sig fram til forseta og þrjár konur brugðust við henni. Ein þeirra var Vigdís Finnbogadóttir og allir þekkja framhaldið. Hér er bara stiklað á stóru í öllu því sem Margrét hefur lagt fyrir sig um dagana. Hún lærði ung að dansa og hefur alltaf haft gaman að dansinum.

Jóhann og Margrét í ferðalagi á Spáni

Hef ekki losnað við hann síðan

„Ég var fastagestur í dansinum hjá Félagi eldri borgara í Stangarhyl“, segir Margrét og þar hittust þau Jóhann fyrir fjórum árum. „Ég var búinn að vera ekkjumaður í fimm ár á þessum tíma“, segir Jóhann. „ Þegar maður er einsamall í lengri tíma, verður erfiðara að hafa sig af stað í að gera ýmsa hluti, svo sem eins og að fara í bíó, leikhús, sund eða ferðalög. Ég fór að hugsa málið, hafði heyrt af þessum dansi hjá eldri borgara félaginu í Reykjavík og ákvað að kíkja þangað“.  Þetta reyndist örlagarík ákvörðun, því þarna kom Margrét auga á hann. „ Hann sat þarna úti í horni þessi elska og bauð engum upp. Svo var ég stök í hringdansi og vinkaði til hans og spurði hvort hann kæmi ekki í dansinn. Ég hef ekki losnað við hann síðan“, segir hún hlæjandi. Ári eftir að þau hittust fóru þau að búa saman í Árbænum.

Íbúðin rennur til barnanna hans

Það er að ýmsu að hyggja þegar fólk tekur upp samband á þessu aldri og Margrét hefur ákveðna skoðun á því. „ Jóhann á einbýlishús með öllu tilheyrandi á Selfossi, en það var engin leið fyrir hann að lokka mig þangað. Við ákváðum að fara að búa saman hér og hann fer að spá í að kaupa íbúð í borginni og vill að við kaupum hana saman. Þá sagði ég,  Nei, þú kaupir íbúðina bara einn og ef annað okkar fellur frá, á ég enga kröfu í hana, hún rennur bara til barnanna þinna“.  Margrét og Jóhann hafa aðskilinn fjárhag og kaupa í matinn til skiptis. Það gengur mjög vel að þeirra sögn. Uppkomin börn bera velferð foreldra sinna fyrir brjósti, en Margrét bendir á að það séu einnig ákveðnir fjárhagslegir hagsmunir í húfi, sem þurfi að hafa í huga.

Margrét og Jóhann fyrir miðju ásamt vinum, í Aðalvík á Ströndum

Meiri lífsfylling að búa með öðrum

Þau hafa tilkynnt fjölskyldum sínum að þau ætli ekki að giftast. „Það geta komið upp alls kyns vandamál og leiðindi ef þessir hlutir eru ekki á hreinu“, segir Margrét. „Við búum í þessari íbúð og keyptum allt innbúið notað, þannig að við erum ekki að taka neitt frá neinum“. Jóhann tekur undir þetta og bætir við. „Það er meiri lífsfylling að búa með öðrum, en vera einn. Þeir sem eru framtakslausir setjast bara í sófann og koðna niður. Svo eru ýmsir sem eiga ekki börn, eða eiga börn sem búa erlendis“.  Þau segja að fjölskyldan hafi tekið sambandi þeirra vel. „Við fórum og heimsóttum syni mína í Seattle í Bandaríkjunum, það gekk mjög vel og annar þeirra sagði við mig. Mamma þetta er góður maður, vertu góð við hann“, segir Margrét og brosir. „Þetta kom út úr dansinum í Stangarhylnum. Þarna hafa sambönd þróast og svo eru aðrir sem eru eingöngu dansfélagar“.

Margrét með systkinum sínum í braggahverfinu

Ég fékk, ég fékk….

Margrét er fædd í Reykjavík, en foreldrar hennar eru ættaðir frá Aðalvík á Ströndum. Fyrstu sex æviárin bjó hún ásamt fjölskyldunni í Skerjafirði, en þaðan var flutt í Herskálakamp á Surðurlandsbraut. „Pabbi sem var á sjó, kemur þá í land og fer að lagfæra braggann“ segir hún.  Þegar Margrét sem á þrjú systkini var 11 ára, fékk fjölskyldan úthlutað raðhúsi við Réttarholtsveg í Smáíbúðahverfinu. „Að fá úthlutað íbúð var eins og að vinna í happdrættinu. Menn fengu bréf og hlupu um hverfið veifandi því og kölluðu hástöfum. Ég fékk, ég fékk“, rifjar Margrét upp.  Hún segir að foreldrar hennar hafi búið í húsinu í  60 ár og föðuramma hennar bjó hjá þeim. Margrét  gekk að sjálfsögðu í Réttarholtsskóla og þaðan lá leiðin í Verknám þar sem hún lærði að sauma, eins og klæðskeri. „Á tímabili setti ég upp saumastofu ásamt vinkonu minni, ég útskrfaðist úr náminu 17 ára og gifti mig 18 ára“, segir hún.

Opnaði fyrstu líkamsrækarstöðina fyrir konur

Margrét hafði alltaf mörg járn í eldinum, þrátt fyrir að hún giftist og eignaðist börn. Hún á þrjá drengi, en tveir elstu synirnir búa í Seattle í Bandaríkjunum, þar sem faðir þeirra bjó líka, en hann lést fyrir þremur árum. Yngsti sonurinn býr hins vegar á Íslandi.  Hún segist hafa stundað fimleika þegar hún var krakki og sýnt fimleika á Arnarhóli. „Ég tók svo á leigu sal í Kópavogi þegar ég var orðin fullorðin og opnaði þar Líkamsræktarstöðina Hebu, sem var eingöngu fyrir konur. Þetta var fyrsta kvenna líkamsræktarstöðin sem var opnuð hér á landi. Það voru engar sturtur þarna og konurnar fóru heim í bað.  En síðan ákvað ég að gerast stórtæk og tók á leigu heila hæð fyrir ofan trésmíðaverkstæði  í Auðbrekku. Þar lét ég útbúa búningsklefa, sturtur, sána, nuddstofu og setja upp ljóslampa. Þangað komu um 200 konur á dag. Þarna fengu líka þær sem vildu, aðstoð við að grennast. „Það voru fleiri tonn af fitu sem fóru þarna og ég fékk Flugleiðir til að veita verðlaun, þeir gáfu flugferðir svo það var eftir miklu að slægjast að standa sig í baráttunni við aukakílóin“, segir hún.

Sumarkvöld í Aðalvík þar sem Margrét tínir hvannarfræ á hverju sumri og notar til að halda heilsu

Er þetta ekki bara plat?

Um þrítugt er Margrét fráskilin tveggja barna móðir og selur líkamsræktarstöðina. Hún fer að vinna hjá fyrirtækinu Austurbakka sem selur lækningavörur. „ Þeir ætlu að ráða karlmann en ég fór að sagði þeim að ég gæti unnið þetta betur en nokkur karlmaður“, rifjar hún upp „Ég hafði nefnilega unnið á sótthreinsunardeild Borgarspítalans og þekkti öll þessi áhöld. Það endaði með því að ég fékk starfið!“.  Bandarísk samstarfskona hennar hjá Austurbakka fékk hana svo í lið með sér til að stofna Íslandsdeild samtakanna Business and Professinal Women (BPW)  Hún var sér til mikillar undrunar kjörin formaður félagsins. „Við fáum þá hugmynd að auglýsa eftir kvenframbjóðendum fyrir forsetakosningarnar 1980, en þá voru einungis karlar búnir að gefa kost á sér. Þetta vakti mikla athygli. Er þetta ekki bara eitthvert plat? spurði fólk. Það datt engum í hug að þetta væri hægt!“

Margrét og synirnir þrír, Sölvi, Davíð og Gísli

Allir urðu brjálaðir í gólfflísarnar

Margrét keypti sér raðhús í Grafarvogi um þessar mundir og byggði það að hluta með aðstoð verktakans. „Ég get svarið það, ég bar vikursteinana upp í íbúðina, raðaði þeim upp og múraði þá saman. Setti  svo einangrun í loftið með hjálp sonar míns. Ég hafði kynnst flísum á Spáni og ákvað að setja flísar á gólfin í íbúðinni. Það urðu allir brjálaðir í flísarnar, fólk bað mig um að flytja þær inn fyrir sig,  svo ég setti upp flísabúðina Marás sem ég rak sjálf og hafði strákana mína mér til aðstoðar.

Margrét á Spáni með föður sínum

Spánarævintýri Margrétar

Margrét hafði alltaf verið hrifin af Spáni og segir blaðamanni Lifðu núna að hún hljóti að hafa búið þar í fyrra lífi.  Eftir að hafa eignast þriðja soninn, ákvað hún að hætta að vinna hjá Austurbakka þar sem starfið hentaði ekki móður með lítið barn. Nokkrum árum síðar, seldi hún allt sitt á Íslandi og keypti sér íbúð á Spáni og seinna stórt hús sem hún hugðist gera að gistihúsi. Það gekk af ýmsum ástæðum erfiðlega að uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til gistihúsa þar í landi, þannig að á endanum leigði hún gamla ísbúð og breytti henni í Íslendingabar sem varð mjög vinsæll. Spánarævintýrið stóð í rúman áratug, en þá flutti Margrét heim til að annast aldraða foreldra sína. Hún fékk vinnu á Hótel Loftleiðum sem var mikið lán, því nú var hún búin að eignast sonardóttur í Seattle og fékk ókeypis flugmiða þangað í gegnum vinnuna.  „Ég vildi hugsa vel um hana Elenu mína litlu, fór til hennar með lýsi og skyr og fékk að hafa hana viku og viku“, segir hún. Þegar hún missti vinnuna á Hótel Loftleiðum og þar með flugmiðana, öllum konum sem voru orðnar fimmtugar var sagt upp, gerist hún fasteignasali. Ekki nóg með að hún ynni hér á landi sem fasteignasali, heldur fékk hún sér líka réttindi til þess í Seattle í Washington fylki og flutti þangað, þegar sonur hennar var orðinn einstæður faðir með tvær dætur, sem nú eru orðnar 18 og 22ja ára.

Margrét með Elenu litlu

Eldmóðurinn minnkar þegar ekkert gengur

„Ég bjó í Seattle meira og minna í 20 ár, en kom heim alkomin 2018“, segir Margrét. Hún tók um tíma þátt í starfi Gráa hersins. Það náði hins vegar ekki því flugi sem að var stefnt, en Margrét gafst ekki upp og hún og stöllur hennar tvær Sigurlaug og Dóra  ræddu við Ragnar Þór Ingólfsson formann VR sem að lokum varð til þess að VR samþykkti að styðja málaferli Gráa hersins vegna skerðinganna í almannatryggingakerfinu.  Margrét var ötul að skrifa greinar á þessum tíma. „Ég var full af eldmóði og hélt að VG myndi standa við loforð sín gagnvart eldri borgurum, en svo gerðist það náttúrulega ekki. Svo minnkar eldmóðurinn. Maður missir trúna á að þetta takist nokkurn tíma og þegar maður sér að baráttan hefur engin áhrif, ákveður maður að hætta. Ég hef 210.000 krónur í tekjur frá TR á mánuði og 60.000 frá lífeyrissjóði og verð að láta mér það nægja. Ég bið til Guðs að málaferlin hafi einhver áhrif, en hef samt ekki trú á því“, segir hún.

Gamalt fólk brotið niður

„Mér finnst persónulega að það sé búið að brjóta gamla fólkið niður, eldri borgarana. Það er alveg sama hver fer á þing, allir hafa talað um að bæta hag eldri borgara en það gerir enginn neitt í því. Það er auðvitað ríkistjórnin sem þarf að gera eitthvað. Ég nenni þessu ekki lengur og ætla bara að vera hamingjuseöm með það sem ég á. Ég tel mig heppna að hafa eignast góðan lífsförunaut það sem eftir er. Við eigum yndislegt heimili, getum önglað saman aurum til að fara í ferðalög og ég ætla bara að njóta þess,  í stað þess að vera að ergja mig yfir stöðunni hjá eldri borgurum. Þetta virðast vera hafsjór af öldum sem ekki er hægt að brjótast  í gegnum“, segir Margrét að lokum.

 

Viðtalið var áður birt á Lifðu núna vefnum í apríl á þessu ári

 

Ritstjórn september 16, 2022 14:02