Fólk þarf að láta í sér heyra

Sigurður Hermannsson

Sigurður Hermannsson

„Þetta er mikið sama fólkið sem er að mæta á viðburði hjá okkur. Sami fasti kjarninn. Það er erfitt fyrir félagið að ná til sumra,“ segir Sigurður Hermannsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri.  Síðast liðinn vetur gekkst félagið fyrir könnun meðal félagsmanna til að fá fram nýjar hugmyndir um hvað félagið gæti boðið upp á og einnig var spurt um hvernig fólki líkaði það sem félagið býður upp á í dag.

Fleiri mættu nýta þjónustuna

Félagsmenn eru á tólfta hundrað en á Akureyri búa um 3000 manns 60 ára og eldri.  „Það mættu vera fleiri sem notfæra sér þjónustu félagsins og með þessari könnun erum við að reyna að fá fram hvað það er sem fólk vill,“ segir formaðurinn og bætir við að kannski sé fólk að leita eftir einhverju öðru en félagið sé að bjóða upp á núna. Honum finnist hins vegar að það skorti nokkuð upp á fólk láti í sér heyra og tjái skoðanir sínar á því hvað það vill. Á næstu vikum á að vinna úr könnuninni og þá ætti að skýrast hvað fólki finnst og hvaða væntingar það hefur til félagsins.  „Ég held að það sé mjög mikilvægt að ná til fólks snemma og kenna fólki að notfæra sér þá þjónustu sem er í boði.  Þetta er breiður aldurshópur sem við erum að sinna, eða fólk frá sextugu og uppundir tírætt,“ segir Sigurður.

Gönguferðir og bingó

Félag eldri borgara á Akureyri býður upp á margskonar afþreyingu, gengst fyrir fundum og ráðstefnum og ýmisskonar námskeiðahaldi.  Á vegum félagsins eru haldnar skemmtanir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann auk þess sem spilað er í félagsmiðstöðinni í Bugðusíðu einu sinni í viku, á miðvikudögum. Félagsvist er spiluð hálfsmánaðarlega á fimmtudagskvöldum og haldin eru bingó. Á sumrin stendur félagið fyrir ferðum fyrir eldri borgara. Farnar eru tvær lengri ferðir á hverju sumri auk þess sem farið er í dagsferðir. Þá skipuleggur félagið utanlandsferðir. Árviss sex daga ferð til Hveragerðis er farin í mars. Félagið hefur einnig staðið fyrir gönguferðum í Kjarnaskógi alla fimmtudaga. Innan félagsins starfar mjög öflugur kór sem stofnaður var af frú Sigríði Schiöth árið 1986 en hún var stjórnandi hans í mörg ár. Kórinn heldur tónleika auk þess að koma fram við ýmis tækifæri. Kórinn hefur komið fram utan landssteinanna, til dæmis í Færeyjum og í Danmörku.„Nú er bítalkynslóðin að komast á efri ár og hún þarf annars konar prógramm en kynslóðin á undan. Við höfum verið með pubbakvöld og þau hafa verið vel sótt, sérstaklega ef það hafa verið hljómsveitir sem geta spilað fjölbreytta tónlist,“ segir Sigurður.

Stuðningur bæjarins

Sigurður segir að það sé að mörgu leyti gott að eldast á Akureyri. Bæjarfélagið styður við Félag eldri borgara með því að láta félaginu í té húsnæði fyrir starfsemina endurgjaldslaust auk þess sem félagið fær 900 þúsund króna peningastyrk á þessu ári. „Almennt held ég að bærinn standi þokkalega að þessu,“ segir hann en bætir við að það megi alltaf gera betur.

 

Ritstjórn ágúst 24, 2015 12:25