Ekki er rétt staðið að hávaðamælingum í skólum

Valdís Ingibjörg JónsdóttirHvaða tilgangi þjóna hávaðamælingar?

Það er eðli hávaðans í skólum sem við þurfum að fá vitneskju um en ekki eitthvert meðaltal bakgrunnshávaða yfir 8 stunda vinnudag miðaður út frá heyrnarþoli fullorðinna.  Skólar eru fyrst og fremst menntastofnanir þar sem kennt er á tungumáli sem þarf að heyrast og skiljast. Slík starfsemi getur ekki átt sér stað í hávaða. Að hafa heyrnarvernd fullorðinna að markmiði með hávaðamælingum í skólum sýnir að það vantar skilning á starfsemi og hlutverki skóla.

Dæmi um mælinganiðurstöður á hávaða í skólum

Rannsóknir hafa sýnt að hávaði er alræmdur í skólum víða um heim (Shield og Dockrell, 2004; McAllister o.fl.,2009). Sem dæmi mældist meðaltalshávaða úr þrem sænskum leikskólum 82,6 LaeqdB (mælihugtak yfir meðaltal hávaða) (dB (A)).

Svipað kom út hjá mælingum Vinnueftirlits Ríkisins fyrir einhverjum árum. (upplýsingar fengnar úr fyrirlestri).

Meðaltal
Leikskólar 28 mælingar 85,2 dB(A)
Skólastofur 19 mælingar á skóla 78,5 dB(A)
Íþróttasalir og sundlaugar 20 mælingar 86,5 dB(A)

Í rannsókn (óbirt skýrsla afhent íþróttakennarasambandinu 2007)  um ástand á röddum 71 íþróttakennara. Þar mældi Vinnueftirlitið í sitthvorum skólanum hávaða á 5 íþróttakennurum (hávaðamælir festur nálægt eyra) og þá – samkvæmt lögum – miðað við 8 stunda vinnudag:

  • Íþróttakennari úr skóla 1             88,6 dB
  • Íþróttakennari úr skóla 2             80,6 dB
  • Íþróttakennari úr skóla 3             85,9 dB
  • Íþróttakennari úr skóla 4             78,2 dB
  • Íþróttakennari úr skóla 5             85,4 dB

Er ekki hávaðinn kominn á það stig að samkvæmt lögum ætti að nota heyrnarhlífar? Að vísu gera lögin ráð fyrir að hávaðinn sé miðaður við 8 stunda vinnudag.

Það þarf að kortleggja  hávaðann í skólum

Það þarf að komast að því um hvers konar hávaða er að ræða, hvar hann er mestur og hvað veldur honum. Sé verið að mæla hávaða þarf að taka fram: a) fjölda í rýminu sem verið er að mæla hávaðann í, b) aldur og kyn þeirra sem þar eru,

  1. c) hvaða starfsemi á sér stað á mælingatímanum d) hvenær dags er mælt e) hvar er mælirinn staðsettur. Mælir þarf að vera staðsettur í hæð barna en ekki fullorðinna og beinast að hópnum. Að auki þarf að skrásetja hvað veldur hávaðanum.

Hávaði kortlagður í þremur leikskólum á Akureyri 2015 – 2016

Hávaði var kortlagður í rannsókn á 11 leikskólum (272 starfsmenn)  á Akureyri árið 2015 – 2016 (óopinber óbirt skýrsla) sem opinberir aðilar stóðu fyrir. Rannsóknin var tvíþætt – annars vegar fengu allir leikskólakennarar í þessum 11 leikskólum rafrænan spurningalista þar sem 223 svöruðu (81.6% svörun). Þrír skólar voru teknir sem úrtaksskólar og þar var farið nánar í saumana á hvað gæti valdið hávaða og hvenær. Til þess að kortleggja hávaðann var fenginn aðili sem sat í kennslurýmum leikskólanna og skráði hjá sér hegðun hávaða við vissar athafnir.

Heildarniðurstöður frá úrtaksskólunum bentu til þess að hávaðinn væri mestur a) þegar börnin voru í fataklefa b) á matmálstíma c) í frjálsum leik og d) þegar þau voru að koma inn og fara út í útivist. Með því að kortleggja hávaðann svona var hægt að ráðast í aðgerðir til að draga út honum.

90% kennara fannst hávaðinn vera of mikill eða allt of mikill.

Niðurstöður úr spurningalistanum eru mjög upplýsandi um hvað kennurum fannst sjálfum um hávaðann í leikskólunum sb. þessi súlurit. Ath að fjöldi svarenda af heild 223 er skráður sem n=fjöldi.

Hvernig er hávaðinn og hvernig þú upplifir hann

Hlutfall svarenda sem segir „Allt of mikill“ eða „Of mikill“

Hvenær er hávaðinn og hvernig upplifir þú hann?

Hlutfall svarenda sem segir „Allt of mikill“ eða „Of mikill“

Það er hægt að draga úr hávaða

Það sem er sláandi hér er að 90% kennara fannst allt of mikill/of mikill hávaði koma frá börnunum sjálfum. Það er skipulags og menningaratriði að ná þeim hávaða niður.

Ef litið er til umhverfis er óánægjan miklu minni. Það stingur þó í augu hve  kubbar virðast valda fólki óþægindum.Hér er einnig um uppeldis og menningaratriði að ræða – það er óþarfi að sturta kubbum niður eða hræra í þeim bara til að skapa hávaða.

Það er eins og oft sé hávaði tekinn sem sjálfsagður hlutur og í raun er börnum leyft að öskra. Fólk athugar ekki að öskur geta skemmt raddböndin. Þannig er farið í áhættu með raddheilsu barna. Rödd getur gefið sig eins og allt annað í líkamanum. Eitt sem fólk ætti að hugsa sig tvisvar um er notkun á orðunum “innirödd” og “útirödd”. Innirödd þýðir ekkert annað en “talaðu lægra” en útirödd þýðir að í raun má öskra úti.

Það er hætta á að við verðum samdauna hávaða frá sjálfsögðum hlutum í kringum okkur. Það má vissulega draga úr slíkum hávaða með vissum ráðstöfunum

Að draga markvisst úr hávaða

Óþarfa hávaði myndast oft þegar hlutir eru hreyfðir t.d.  pinnastólar dregnir eftir gólfi eða þeim skellt saman (t.d þegar stálfætur á borði og stól skella saman). Það má draga úr slíkum hávaða sb:

Pinnastól rennt á gólfi án hlífa. Mælir sýnir 64 dB

Rennt á gólfi með hlífum. Mælir sýnir 46 dB

Stól skellt utan í borðfót.

Án hlífa. Mælir sýnir 80 dB

Með hlíf. Mælir sýnir 56.2 dB

 

Kubbi skellt í gólf (stór) (kubbur var laus í festingum)

Á bert gólf  mælir sýnir 100dB

Á íþróttadýnu mælir sýnir 80 dB

Á dempandi mottu mælir sýnir 90 dB

Lokaorð

Það verður að setja sérákvæði um hávaðamælingar í skólum og miða þá við þá starfsemi sem lögbundin á að fara þar fram. Það verður að breyta mælingaaðferðum (t.d mæla í hæð barna) og kortleggja hávaðann. Það á að miða mælingar við heyrnarþol barna en ekki fullorðinna og mæla hávaðann í eyrnahæð barna. Það þurfa að vera markvissar ráðleggingar um hvernig draga skal úr hávaðanum. Það gengur ekki að mæla hávaða í skóla á sama hátt og hávaði er mældur í verksmiðjum og miða þá við 8 stunda vinnudag og heyrnarþol fullorðinna. Ef börn heyra ekki sér til skilnings þá er ekki hægt að ætlast til árangurs í námi.

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir skrifar.

Ritstjórn mars 12, 2025 07:00