Ekki praktískt eða vænlegt til veraldlegs afraksturs

Verk eftir Helga.

Verk eftir Helga.

„Ég vil að þekkingin færist á milli kynslóða. Ég vil kenna ungu fólki svo þekking  mín fylgi mér ekki í gröfina, þar hefur enginn gagn af henni. Ég vil segja krökkunum hvernig ég fór að, hvert ég sótti vopn mín gegn vananum, gegn endurtekningunni. Unga fólkið þarf að geta spurt einhvern með reynslu. Af hverju ætti ég ekki að segja öðrum frá því sem ég hef áunnið mér með þessu puði mínu síðustu áratugina. Af hverju ætti ég að halda þessu fyrir mig,“ segir Helgi Gíslason, myndhöggvari og kennari. Það eru ákveðin tímamót í lífi Helga því hann tekur þátt í stórri samsýningu í New York sem verður opnuð í byrjun desember. Á sýningunni verða fimm skúlptúrar eftir Helga. Hann kennir við Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Helgi segist hafa byrjað að kenna þegar hann var rúmlega tvítugur.  „Mér finnst gaman að kenna. Maður er svo einn á vinnustofunni, það er einyrkjastarf að vera listamaður þess vegna er svo gaman að vera innan um ungt fólk. Hlusta á það sem það hefur fram að færa, þá er maður í hringiðunni. Ég hef þörf fyrir það, eftir kennslu get ég farið á vinnustofununa mína, talað við verkin mín eða bara þagað með þeim langtímum saman,“ segir hann og hlær.

Tekið fagnandi á Listasafni Ásgríms

Helgi nýfermdur.

Helgi nýfermdur.

Helgi er uppalinn í stórri fjölskyldu. Foreldrar hans voru Gísli Eiríksson bifreiðarstjóri og Kristjana Guðrún Kristjánsdóttir, en hún lést þegar Helgi var 5 ára, frá fimm börnum. Þá flutti inná heimilið Kristín Guðnadóttir ráðskona með eitt barn. Þessi fjölskylda lifði sínu lífi í Laugarneshverfinu og það var líf og fjör á heimilinu. „Sem barni var mér eðlislægt að tjá mig í myndum.  Þegar við áttum að fara að sofa sat ég og teiknaði og málaði. Ég gat keypt mér lengri fótaferðatíma ef ég var að mála myndir. Það var svona þegjandi samkomulag á heimilinu um það,“ segir hann. Sem barn og unglingur eyddi Helgi  löngum tíma á Listasafni Ásgríms Jónssonar við Bergstaðastræti. „Þessi löngun byrjar í nösunum á manni. Ég man alltaf þegar ég kom í fyrsta skipti inn á safnið í kringum 1960. Olíulyktin var eins og hunangslykt í nefinu á manni. Þannig er minningin að minnsta kosti,“ segir hann.  Helgi heimsótti Listasafn Ásgríms nánast upp á dag í langan tíma. Mætti með litina sína og segir að sér hafi verið tekið fagnandi. Hann varð heimagangur í safninu.  Sat þar löngum stundum og  teiknaði og málaði. „Ég kóperaði Ásgrím. Svo var ég farin að gæta safnsins þegar gæslukonan þurfti að erinda úti í bæ. Hún launaði mér með því að fara með mig niður í kjallara þar sem öll málverkin sem ekki voru til sýnis voru geymd. Hún dró hvert málverkið á fætur öðru fram, svona einn meter á dag úr rekkanum. Þetta var einkasýning fyrir mig  og um leið fræddi gæslukonan mig um verkin. Hún var frænka Ásgríms, dáði hann og dýrkaði og þekkti hann vel,“ segir Helgi og bætir við að þetta hafi verið góður skóli. Hann hafi ekki sem barn skilið margt af því sem Ásgrímur gerði til dæmis af hverju hann málaði laufin á trjánum blá, eða rauð þegar allir vissu að þau voru græn. „En skilningurinn kom síðar,“ segir hann.

Maður er egósentrískur

Helgi og Gerður í tilhugalífinu.

Helgi og Gerður í tilhugalífinu

Helgi fór í Myndlista- og handíðaskólann og lauk þaðan prófi frá kennaradeild.  Hann tók svo eitt ár til viðbótar við skólann í akademískri deild sem Hörður Ágústsson setti á laggirnar og var undanfari nýlistadeildarinnar. „Við vorum þrír saman og fengum úthlutað einni stofu fyrir okkur og þar máluðum við. Þetta var, á sínum tíma, tilraun til að fara úr kennslu yfir í frjálsa myndlist,“ segir hann. Um vorið sýndu svo þremenningarnir með Septemhópnum á Kjarvalsstöðum sem þá voru enn í byggingu. „Okkur var vel tekið og við upplifðum okkur sem alvöru listamenn.“ Helgi segir að það hafi enginn orðið hissa þó hann fetaði þessa slóð. „Ég er af bændum og sjómönnum  kominn og þurfti kannski að hafa svolítið meira fyrir þessu en aðrir. Val mitt þótti ekki praktískt eða vænlegt til veraldlegs afraksturs. Fólki fannst það ekki lífvænlegt að fást við listir,“ segir Helgi og bætir við „maður er ekki eigingjarn sem listamaður en maður er egósentrískur.  Maður verður að styrkja sjálfan sig. Maður verður að trúa á sjálfan sig. Listamenn eru  einir að róa úti í hafi og þess vegna verða þeir að vera egósentrískir.“ Helgi hélt til Gautaborgar í Svíþjóð í framhaldsnám. Honum bauðst að halda áfram námi en ákvað að fara heim enda komin með konu og börn. „Það gekk fyrir,“ segir hann.  Helgi er giftur Hallgerði Arnórsdóttur og saman eiga þau 3 börn. „Lífsbaráttan tók við.“

Hélt að ég væri eilífur

 Eftir Helga.

Eftir Helga.

„Þegar ég kom heim voru engir myndhöggvarar hér, nema Sigurjón Ólafsson. Allt í einu kom einhver nýr og það þótti sjálfsagt að nýta hann eins og kostur var. Ég var fenginn til að gera tillögur að verkum og sum urðu að veruleika, svo var farið að halda samkeppnir um stærri listaverk og stundum fékk maður þau verk og stundum ekki.  „Mér fannst alltaf skipta mestu máli að taka þátt,“ segir hann. Í Ráðhúsi Reykjavíkur eru portrett af fyrrverandi borgarstjórum, gerð af Helga. „Ég hef mikinn áhuga á einstaklingnum og hvernig á að nálgast hann. Hvernig er hægt að segja sögu hans. Maður þarf að leita inn á við til þess.  Ég lít á portrettin mín sem glímu við sjálfan mig um leið og ég er að fást við hvernig viðkomandi hefði getað orðið eða verið. Ég er að geta mér til um hann. Það er svo áhugavert hvernig tíminn mótar fólk, lesa sögu viðkomandi og halda henni til haga.“ Helgi hefur haldið eða tekið þátt í tugum sýninga. Hlotið bjartsýnisverðlaun Bröste og fengið listamannalaun í eitt ár. Uppúr 1980 sýndi hann nokkuð þétt í Þýskalandi.   Honum láðist að fylgja velgegni sinni þar eftir. „Ég fékk bréf frá Þýskalandi um að koma þangað aftur með sýningu en gaf mér ekki tíma til að svara því fyrr en 20 árum síðar. Maður hélt á þeim tíma að maður væri eilífur og það væri nógur tími til stefnu. Á sama tíma var ég kominn á kaf í stóru verkin mín, þau átu tíma minn. Maður gætti sín ekki og gaf sig allan í þessi verk. Þau voru dálítið tortímandi,“  segir Helgi og er að vísa í verk sem margir þekkja eins og kopardyr Seðlabankankans og  altari Fossvogskirkju. „Eftir á að hyggja hefði maður átt að halda einhverju af tímanum fyrir sjálfan sig, ég sé það nú,“ segir hann.

Ungt fólk lifir fyrir núið

Sem ungur listamaður.

Ungur listamaður í Akademíunni

Helgi segir að margt hafi breyst frá því hann kom heim úr námi frá Svíþjóð. „Þegar ég var að byrja var manni skipað á ákveðinn bás. Það var búið að flokka mann niður. Kennararnir mínir lærðu í París um miðja síðustu öld. Þeir voru módernistar. Það eru því margar kynslóðir á milli þeirra og þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í dag. Ungt fólk nálgast hlutina á allt annan hátt en við gerðum. Það hugsar á annan veg og lifir fyrir núið. Þau segja: Ég er hér og nú, horfðu á mig. Ég tilheyri 68 kynslóðinni og við vorum hluti af ákveðinni hugmyndafræði. Við vorum upptekin af því að við værum hluti af ákveðinni heimsmynd. Í dag er unga fólkið farið frá þessari heildarsýn yfir í einstaklingshyggjuna. Það er allt leyfilegt í þeirra huga. Mér finnst það áhugavert. Þau eru svo hispurslaus. Aðföngin koma allstaðar að. Það eru engin skil lengur á milli tónlistar, vísinda og myndlistar.  Menn eru farnir að hugsa þvert á þessar línur sem okkur af minni kynslóð var gert að fylgja. Um leið gerist eitthvað nýtt og óvænt,“ segir hann og heldur áfram að tala um unga fólkið.  „Það hefur enga þolinmæði gangvart tímanum. Okkur var sagt að bíða, bíða eftir því að röðin kæmi að okkur. Ef mann langaði að sýna varð maður að bíða eftir sal. Bíða í röðinni. Ef ungu fólki langar að sýna í dag og fær ekki sal á stundinni finnur það sér einfaldlega nýtt húsnæði og heldur sýningu. Það heillar mig komandi úr hinum geiranum. Ég læri mikið að þessu unga fólki. Ég fer stundum út með þá hugsun úr kennslustundum að ég hafi lært meira af þeim en þau af mér.“

Staða eldri listamanna

Eins og áður sagði er Helgi er nú á leið til New York til að taka þátt í sýningu. Hann segir að það sé mikilvægt fyrir sig sem listamann. „Þá fær maður tækifæri til að upplifa verkin sín í öðru samhengi, fá annað sjónarhorn á þau. Það er mikilvægt hverjum listamanni að verkin hans séu gjaldgeng í alþjóðlegu samhengi, að þau eigi erindi við fleiri. Umræðan um höfundinn snýst alltaf um hann sjálfan á heimaslóðum en þegar verkin eru komin út tala þau fyrir sig sjálf. Ég hætti að skipta máli,“ segir Helgi. En svona að blálokum hvernig metur Helgi stöðu eldri listamanna hér á landi í dag. Hann segist telja að það sé pláss fyrir bæði yngri og eldri listamenn. „Eldri listamenn ættu að hafa áunnið sér þá virðingu að menn kaupi verk þeirra gæðanna vegna“, segir hann.  „En ég er ekki sáttur við stöðu myndlistarmanna á meðan listamenn geta ekki unnið heilir og óskiptir að sinni list og þurfa að sjá fyrir sér með allt annarri vinnu en listsköpun“.

Helgi á vinnustofu í Prag.

Helgi á vinnustofu í Prag.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 27, 2015 11:19