Farðu og gerðu gagn

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Undanfarnar vikur hafa háskólarnir verið að kynna ólíkar námsleiðir og vekja athygli á því hvenær umsóknarfresti lýkur fyrir komandi haust. Auglýsingar um kennaranám hafa vakið sérstaka athygli mína. Samkvæmt þeim virðast allir vera skraddarasaumaðir sem úrvals kennaraefni. Ég vildi óska þess að svo væri. Þá væri Evrópumet í brottfalli drengja fljótlega úr sögunni og fallsæti í Pisa sömuleiðis ásamt ýmsum öðrum kvillum í skólakerfinu.

Þegar ég lít til baka átta ég mig á því að ég hef verið óendanlega heppin með kennara. Jenna tók mig undir sinn verndarvæng í skóla þeirra Hreiðars á Akureyri. Þau gáfu mér aðgöngumiða inn í besta bekk í barnaskóla. Atkvæðafjöldi í lestri var svarið. Nú er ekkert lengur sem heitir besti bekkur eða tossabekkur, sem betur fer. Námshæfileikar og atkvæðafjöldi eru heldur ekki lengur síamstvíburar. Í barnaskólanum dekraði frábær kennari við okkur í „besta“ bekknum og lét áhuga okkar ráða för. Við vildum meira og meira …. Þetta hélt svo áfram og ég var í góðum höndum alla mína skólagöngu.

Þegar þessar línur eru skrifaðar er ég í Bandaríkjunum til þess að kveðja leiðbeinanda minn úr doktorsnámi á níunda áratugnum. Eini tilgangur sex tíma flugferðar yfir hafið var að vera viðstödd kveðjustund gamals manns. Af hverju? Svarið er augljóst. Hann var frábær kennari og leiðbeinandi. Hann breytti lífi mínu.

Með því að vera viðstödd athöfnina langaði mig til þess að sýna fjölskyldu hans hversu miklu máli hann hafði skipt mig. Ég veit ekkert hvort það tókst. Synir hans ráku alla vega upp stór augu þegar ég sagði þeim að ég hefði komið frá Íslandi til þess að kveðja hann. Það segir nokkuð.

Eftir athöfnina fór ég út í sumarið og velti því fyrir mér hvað það var sem gerði hann að frábærum kennara. Ég kom inn í háskólanám á fertugsaldri. Ég þurfti að læra ný fræði á ensku og mér fannst ég alls ekki passa inn í hópinn. Ég sá hlutina frá öðru sjónarhorni. Allt þetta hefði geta orðið mér fjötur um fót ef ég hefði ekki átt leiðbeinandann minn að.

En aftur að spurningunni hvað gerir kennara góðan? Mig langar til þess að koma með nokkur atriði og svo getið þið bætt við á ykkar lista. Á mínum lista eru eftirfarandi atriði: Áhugi á einstaklingnum. Virðing fyrir skoðunum nemenda. Agi. Uppbyggileg gagnrýni. Samkennd. Kímni. Skilningur á aðstæðum nemenda. Skilningur á menningarmun. Hlýja. Samtal. Hrós. Tillitsemi. Mennska. Hófleg þolinmæði og aðgengi.

Þetta er þó nokkuð langur listi en samt vantar eitthvað á hann sem ég veit ekki hvað er. Jú kannski veit ég hvað það er. Það var þessi ódrepandi áhugi hans á minni vegferð og orðin sem hann sagði einu sinni við mig. Þau voru þessi – Sigrún, drífðu þig í gegnum doktorsnámið og farðu út í samfélagið og gerðu gagn. Ég hef nú sennilega brugðist honum hvað þetta seinna atriði varðar en skilaboðin hans voru skýr. Þú ert í námi í ákveðnum tilgangi. Þú ert ekki í námi til þess að vera í námi. Þú ert í námi til þess að öðlast lykil sem opnar þér aðgengi að mikilvægum verkefnum í samfélaginu.

Í minni kennslu hef ég oft vitnað í þessi orð um að drífa sig og fara að gera gagn. Stundum finnst mér að nemendur átti sig ekki á mikilvægi þeirra sem einstaklinga og að samfélagið þurfi á þeim að halda. Þessi orð leiðbeinandans míns voru mér ótrúleg hvatning. Hann trúði á mig þó svo að ég væri öðruvísi en aðrir nemendur hans. Hann gaf mér kraft og sjálfstraust. Til þess að þakka honum greiðan sat ég í eins og klesst samloka í flugvél nærri fullan vinnudag og á fyrir höndum sambærilegt ferðlag heim.

Sigrún Stefánsdóttir júní 2, 2024 08:04