Vill frekar deyja á hestbaki en í rúllustiganum í Kringlunni

Andrea Líf, Þórarinn Örn, Atli Freyr og Sævar í upphafi ferðar með Núpshestum.

Sævar Karl Ólason hefur farið óvenjulega leið að þeim stað sem hann nú er á. Hann er fæddur 1947 og lærði ungur til klæðskera. Hann stofnaði verslun undir eigin nafni 1974 ásamt eiginkonu sinni, Erlu Þórarinsdóttur, að Bankastræti 9 og margir muna eftir. Þau ráku verslunina þar til ársins 2007 þegar þau seldu fyrirtækið og þá hófst nýr kafli í lífi þeirra.

Óhætt er að segja að Sævar sé listamaður litanna því eins og verk hans núna bera með sér leikur hann meistaralega með liti. Verkin hans má nú sjá á sýningu á Mokka við Skólavörðustíg. En lífshlaup hans til þessa hefur líka verið litríkt því hann hefur nýtt tækifærin sem honum hafa boðist mjög vel. Hann gerði slagorðið ,,Ég hef mjög einfaldan smekk og vel aðeins það besta” að sínu þegar hann opnaði verslun sína og það virkaði vel á viðskiptavini hans sem fóru fljótlega að sjást á áberandi stöðum í fötum frá Sævari Karli.

Segja má að hann og Erla hafi orðið áhrifavaldar í tískustraumum á Íslandi þegar þau stofnuðu verslunina en þau lögðu áherslu á innflutning á hátískuvörum, fatnaði og fylgihlutum, fyrir bæði konur og karla.

Fór ekki að mála fyrr en fimmtugur

Sævar er nú orðinn þekktur fyrir myndlist sína en þótt hann hafi alltaf fylgst mikið með listamönnum, bæði íslenskum og erlendum, fór hann ekki að mála sjálfur fyrr en hann var orðinn fimmtugur. Hann stofnaði Gallery Sævars Karls á neðri hæð verslunarinnar 1987 og þar sýndu margir myndlistarmenn verk sín. Sævar segir að þessir listamenn séu núna meðal þeirra sem séu hvað þekktastir á Íslandi í dag. Honum þykir mjög gott að hafa getað stutt þá fyrstu skrefin og keypti gjarnan af þeim verk en Sævar og Erla hafa verið mikilvirkir málverkasafnarar í gegnum tíðina.

Sævar segist alltaf hafa málað eitthvað sér til dundurs en það hafi ekki verið fyrr en 1990 sem hann fór að læra myndlist formlega, þá orðinn fimmtugur. Hann settist í Myndlistaskóla Reykjavíkur til að byrja með og segist hafa fengið þar mikilvæga tilsögn fyrstu skrefin.

Afmælisveisla með góðum vinum í Munchen.til að byrja með og segist hafa fengið þar mikilvæga tilsögn fyrstu skrefin.

Gerir aðallega það sem honum þykir skemmtilegt

Það var svo 2010 þegar Sævar Karl var orðinn sextugur sem hann fór virkilega að stúdera myndlist en þá hafði hann selt fyrirtæki sitt og fór að gera það sem honum þótti skemmtilegast á þeim tíma. ,,Þá fór ég líka að læra teoríuna hjá góðum kennurum í Munchen þar sem við Erla settumst að,” segir Sævar. ,,Við fluttum lögheimili okkar þangað af því að sonur okkar bjó þar þá og þar erum við enn þá með annan fótinn. Við kynntumst þar góðu fólki sem við umgöngumst mikið enn í dag og njótum þess að lifa borgarlífinu sem borgin býður upp á. Munchen er ekki stórborg eins og Berlín, París eða London en hún hefur upp á að bjóða margt af því sem maður finnur í stóru borgunum. Þar er listalífið geysilega öflugt og þar höfum við eignast marga góða vini sem við myndum ekki vilja vera án.”

Á nóg af öllu og er afskaplega gæfusamur

Sævar er mjög meðvitaður um að hann er gæfusamur maður en hann hefur komið lífi sínu á miðjum aldri þannig fyrir að hann getur gert það sem hann langar. ,,Það, út af fyrir sig, er sannarlega ekki sjálfgefið. Gæfa mín felst fyrst og fremst í því að allt gengur vel hjá afkomendum okkar og allir eru við góða heilsu.” Sævar og Erla eiga tvo syni og annar þeirra var lengi vel viðloðandi fyrirtæki þeirra. Nú er hann heimspekingur og kennari og starfar sjálfstætt sem ráðgjafi, búsettur í Dusseldorf. Hinn er læknir og er búsettur í Noregi þar sem hann á eiginkonu og þrjú börn.

Gerbreyttur maður eftir að hafa búið erlendis

Sævar sækir kaffihús þar sem hann finnur skemmtilegt fólk til að spjalla við. Við Skólavörðustíginn eru tvö þeirra.

Nú hafa Sævar og Erla verið hér á landi frá því í janúar vegna covid ástandsins en undanfarin ár hafa þau verið á Íslandi bjartasta tímann en í Munchen á veturna. ,,Það gerum við vegna þess að dagurinn er svo miklu lengri sunnar í álfunni. En ég uppgötvaði núna í vor að það eru svo miklir töfrar þegar daginn fer að lengja hér heima. Ég vakna alltaf mjög snemma og þykir svo óendanlega mikils virði að sitja við gluggann og sjá daginn renna upp smátt og smátt. Birtan er svo rómantísk og það rann upp fyrir mér að Ísland er nú ekki svo slæmur staður að vera á,” segir Sævar og brosir. ,,Ég hef nú komst að því að það er geysilega mikilvægt að vera um tíma í útlöndum. Maður sér landið sitt með allt öðrum augum en ef maður býr alltaf á Íslandi og fer ekki nema í stuttar ferðir. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa getað gert þetta þótt seint sé. Ég sé núna hvernig fjarveran hefur breytt mér og kennt mér að meta landið mitt upp á nýtt.” Hann segir að hugsanir sínar og skoðanir hafi breyst í fjarlægðinni.

Fór í hestamennskuna á miðjum aldri

Á meðan jafnaldrar Sævars eru að draga saman og hætta að stunda íþróttir af ýmsu tagi hefur hann tekið upp sumar þeirra. Hestaíþróttin er dæmi um það sem hann ákvað að tileinka sér eftir miðjan aldur. ,,Þannig var að eitt barnabarnanna var að fermast fyrir nokkrum árum og ég ákvað að gefa henni þriggja daga hestaferð með Núpshestum inn á hálendið og ég skyldi fara með henni. Ég hafði farið áður í styttri ferðir með henni en þarna fórum við í lengri ferð. Árið eftir fórum við í aðra ferð og þá var henni boðin vinna hjá Núpshestum og hefur síðan verið leiðsögumaður hjá þeim á sumrin. Nú er hún til dæmis með hóp inni í Landmannalaugum,” segir Sævar og er alsæll með að geta tekið þátt í þessu áhugamáli með barnabarni sínu.

Sævar hefur alltaf farið einn túr á ári síðan og lært meira um hestamennskuna. Túrarnir hafa lengst og í sumar fór hann með sonum sínum í 7 daga ferð langt inn á hálendið. ,,Vinir mínir frá Þýskalandi hafa nokkrum sinnum komið í þessa túra með okkur. Í þessum ferðum upplifi ég landið svo sterkt og fæ margar hugmyndir í list mina,” segir Sævar alsæll.

Gerum það sem er skemmtilegt

Skilaboð Sævars til jafnaldra sinna eru þau að einbeita sér að því að umgangast skemmtilegt fólk og forgangsraða rétt. Ekki hlusta á úrtöluraddir heldur halda áfram að taka þátt í jákvæðum og skemmtilegum hlutum og viðburðum. Eitt af því sem Sævar gerir reglulega er að hitta hóp manna sem allir eru komnir á eftirlaunaaldur og koma saman í Hafnarfirði þar sem þeir sinna áhugamálum sínum. Þetta eru menn sem eru hafsjór af þekkingu og reynslu og miðla hver öðrum og Sævar segist njóta góðs af. Hann fer á listsýningar og jasstónleika því þar segir hann að sé alltaf skemmtilegt fólk.

Hægt er að sjá verk Sævars Karls á tveimur stöðum um þessar mundir, annars vegar á Mokka og í nýju galleríi, Portfolio Gallerí, á Hverfisgötu 71.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 13, 2021 07:00