Lent í listinni eftir að púkinn á öxlinni hvarf

Margrét og Þórmundur hafa ferðast geysilega mikið og eru hér við Grænahrygg í Landmannalaugum.

Margrét Einarsdóttir Laxness er með myndlistarmenntun frá Íslandi en einnig frá Ítalíu þar sem hún dvaldi í tvö ár við nám. Þegar hún kom heim tók við tími þar sem hún þurfti að vinna fyrir sér við annað en listina þótt sú menntun hafi sannarlega nýst henni vel í öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Hún græddi líka tungumálið á Ítalíu sem kom sér vel þegar hún ákvað að fara í leiðsögunám fyrir nokkrum árum. Margrét er gift Þórmundi Bergssyni og eiga þau saman þrjú börn.

Minnkuðu við sig um fimmtugt

Margrét segir að þau Þórmundur hafi komist að því þegar þau voru fimmtug að svo mikið púður var farið að fara í húsið sem þau bjuggu í þá. Þau ákváðu þá að minnka við sig sem þeim þótti skynsamlegra, bæði peningalega og svo var fyrirhöfnin í viðhaldi orðin töluverð. Þau keyptu lítið raðhús í Fossvogi og Margrét segir hlæjandi að hún sé náttúrlega óvirkur fermetrafíkill. „Í sannleika sagt er mjög gott að vera í minna húsnæði þegar upp er staðið því maður þarf ekki alla þessa fermetra. Léttirinn við að hreinsa út úr geymslunni var líka mjög mikill” segir Margrét og brosir.

Setur kúrsinn reglulega upp á nýtt

Margrét og Þórmundur á Snæfellsjökli 2020.

„Ég áttaði mig á því 2012 að ítalskan mín var farin að ryðga eftir áratuga notkunarleysi svo ég ákvað að fara í Háskólann og rifja hana upp. Ég lærði tungumálið upp á nýtt og fór svo í leiðsöguskólann með það að markmiði að taka að mér ferðir með ítalska ferðamenn. Þetta reyndist vera mikið happaspor og var ótrúlega skemmtilegt nám. Ég var að gera eitthvað alveg nýtt og það var svo hressandi þótt ég hafi reyndar alltaf verið ánægð í mínum verkefnum. Ég var bara orðin svo leið á þessari 9-5 rútínu og þá var tilhugsunin um að standa upp frá tölvunni og komast út í náttúruna mjög aðlaðandi.”

Tilvalið að gera breytingar

Margrét fór upphaflega í Myndlista- og handíðaskólann og tók þar textíl og einnig vefnaðarkennarapróf og líka aukalega 1 ár í nýlistadeildinni.  Eftir textílnámið hér heima fór hún til Rómar í málaradeildina í listaakademíunni þar. Þegar hún kom heim frá Róm fékk hún vinnu á auglýsingastofu og hefur unnið mest sem grafískur hönnuður síðan þótt hún hafi ekki menntað sig sérstaklega í því fagi. Þetta var 1987, rétt áður en farið var að vinna grafíska hönnun í tölvum. Með vinnunni á auglýsingastofunni tók Margrét að sér kennslu í Myndlistaskólanum í Reykjavík þar sem hún kenndi módelteikningu í 7 ár. „Ég fékk kunningjakonu mína til að aðstoða mig við að ná tökum á hönnuninni í tölvu og náði tökum á því. Svo fæddust strákarnir og ég fékk vinnu í Máli og menningu þar sem ég var samfleytt í 10 ár við bókahönnun og myndskreytingar barnabóka. Það var gífurlega skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Síðan urðu miklar breytingar þegar Mál og menning rann saman við Eddu í kringum 2000 og þá þótti mér tilvalið að gera breytingar í lífi mínu.”

Eignaðist örverpi og söðlaði um

Margrét með ferðamenn í baksýn 2020.

Á þessum tímapunkti varð Margrét ófrísk að yngsta barninu þeirra Þórmundar, orðin 41 árs, og ákvað þá að hún nennti ekki að vera í þeirri stöðu að þurfa sífellt að vera að afsaka sig í stressi með barnið komin á þennan aldur. „Þá gók ég ákvörðun um að fara bara í lausamennsku og taka að mér verkefni og vinna þau heima. Svo rann 2012 upp, börnin orðin stálpuð og þá fann ég að mig langaði að takast á við eitthvað nýtt. Það var þá sem ég fór í háskólann og svo 2015 í leiðsögunám. Síðan hef ég unnið sem leiðsögumaður með Ítali öll sumur eða allt þar til covid skall á. Það var svo óendanlega gott að standa upp frá tölvunni og gera eitthvað allt annað.”

Nýtt tímabil hafið

Frá því 2012 hefur Margrét markvisst breytt til ef hún hefur fundið fyrir leiða og þá hefur hún nýtt sér þjálfun sem hún hefur aflað sér á ýmsum sviðum. Og þegar upp er staðið  hefur öll hennar vinna miðað að því sem hún hefur nú fundið sig fullkomlega í en það er listmálunin. Þar byrjaði hún og nú kemur saman öll sú reynsla sem hún hefur aflað sér og nýtist í listinni. „Listmálunin hefur auðvitað alltaf blundað í mér,” segir Margrét. „Ég valdi að gera eitthvað annað eins og að ferðast með fjölskylduna og stunda útivist og hreyfingu í frístundum. En núna finn ég að neistinn er kviknaður og ég er tilbúin. Nú hef ég tíma, börnin orðin stór og ekki komin barnabörn og af því að ég er ekki í fastri vinnu þá get ég gert þetta. Svo nú er nýtt tímabil í lífi mínu hafið. Innri gagnrýnandinn sem spyr í sífellu hvort þetta sé nú nógu gott hjá manni fær ekki að stjórna lengur,” segir Margrét alsæl með að vera lent í listinni.

Neyðarkallinn

Neyðarkallarnir sem Margrét hefur hannað öll árin.

Eitt af þeim verkefnum sem Margrét hefur tekið að sér er að hanna hjálparsveitakarlana og hefur gert það öll árin sem hann hefur verið seldur fyrir björgunarsveitirnar. Hún tekur að sér hæfilega mörg smærri verkefni svo hún hafi líka tíma til að mála.

Fór að vinna með miklu yngra fólki.

Margrét segir frá því að á fyrir nokkrum árum hafi hún fengið vinnu á auglýsingastofu á veturna þar sem flestir starfsmenn hafi verið mun yngri en hún. „Það var mjög skemmtilegur tími og endurnýjaði fagið fyrir mig. Þar var ég mikið að vinna við auglýsingagerð og naut þess að finna kraftinn í samstarfsmönnum mínum. Ég skil alveg að fyrirtæki kjósi að ráða ungt fólk í skapandi vinnu þótt sjálfsagt væri gott að blanda saman reynslu og sýn unga fólksins. Eftir að ég hætti á auglýsingastofunni reyndi ég að leita þangað sem styrkur reynslunnar nýttist og ég fór aftur að kenna í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Ég fann að bæði kennslan og leiðsögumennskan voru svið þar sem ég fann styrk minn vel.

Viðhorf til aldurs kolrangt

„Tímarnir hafa breyst mikið til batnaðar að mjög mörgu leyti fyrir okkur sem höfum náð miðjum aldri,” segir Margrét og þar er hún að miða við kynslóðirnar á undan okkur.  „Við lifum mörg mjög aktífu lífi,

Margrét og Þórmundur í hjólaferð í Vietnam í september 2020.

hreyfum okkur meira og tökumst á við alls kyns áskoranir. Tækni og vísindum hefur fleygt gífurlega fram og það þýðir að viðhorf fólks til aldurs er allt í einu kolrangt á mjög mörgum sviðum,” segir hún.

Margrét prófaði fyrir nokkrum árum að leita sér að vinnu. Hún var þá orðin fimmtug og lenti í vandanum sem virðist blasa við konum á þessum aldri. „Ég fann vel að aldurinn var ekki að hjálpa mér í atvinnuleit minni. Ég hugsaði þá með mér að þessu nennti ég nú ekki,” segir hún og segist þar með hafa prófað á eigin skinni viðhorf samfélagsins og er nú mjög þakklát fyrir að hafa getað smíðað sér óháða tilveru. En það eru ekki allir svo heppnir og þess vegna sé svo svo mikilvægt að stuðlað sé að viðhorfsbreytingu samfélagsins til aldurs.

Sýnishorn af verkum Mrgétar.

Auðveldara líf listamanna eftir tilkomu Facebook

Margrét segir að með tilkomu Facebook sé miklu auðveldara fyrir listamenn að koma sér á framfæri á eigin forsendum, nú geti maður gert sig sýnilegan og kynnt verk sín og auðveldara að ná til stærri hóps en áður.

Þeir sem vilja sjá verk Margrétar geta kallað upp FB síðu hennar: „Margret Laxness artist og þar er hægt að komast í samband við listamanninn.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 5, 2021 07:20