Eldri borgarar oft óvissir um réttindi og skyldur

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir

Þingmann allra flokka hafa beðið um skýrslu frá félagsmálaráðherra um réttindi og skyldur eldri borgara. Í greinargerð með beiðninni segir að almennir borgarar séu oft óvissir um réttindi sín, skyldur og hvernig þeir geti leitað réttar síns í stjórnsýslunni. Samkvæmt skýrslu umboðsmanns Alþingis frá árinu 2012 eigi stjórnsýslan það til að koma í veg fyrir að borgararnir fái skorið úr um réttindi sín.

„Segja má að eldri borgarar séu sá hópur borgara sem er í hvað veikastri stöðu til að standa vörð um réttindi sín. Skýrslan mun gegna hlutverki eins konar leiðarvísis fyrir eldri borgara um réttindi, skyldur og feril þess að sækja réttindi sín innan opinberrar stjórnsýslu ásamt því að öðlast skilning á réttindum og skyldum við meðferð kærumála á stjórnsýslustiginu,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

Skýrslan yrði ekki ein­göngu gagnleg eldri borgurum heldur einnig stjórnsýslunni sjálfri sem hefur leiðbeiningar- og frumkvæðisskyldu gagnvart borgurunum. Umboðsmaður Alþingis hefur einnig vikið að nauðsyn þess að starfsfólk stjórnsýslunnar fái viðhlítandi og reglulega starfsmenntun um þær sérstöku reglur sem gilda um meðferð mála borgaranna þar.

Samkvæmt þingskaparlögum hefur ráðherra tíu vikur til að ljúka skýrslugerðinn og skal skýrslan þá prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Ef það gengur eftir að ráðherra ljúki skýrslugerðinni á réttum tíma, það eru um miðjan júlí, verður væntanlega þinghlé, en í stað þess að útbýta skýrslunni á þingfundi hefur ráðherra þann möguleika að birta hana á vef Alþingis.

 

Ritstjórn maí 6, 2015 11:24