Réttindi Íslendinga búsettra erlendis

Æ fleiri Íslendingar kjósa að búa erlendis hluta af árinu. Sumir flýja vetrarveðrið og myrkrið meðan aðrir eru í leit að ódýrara húsnæði og betri kjörum í matvöruverslunum. Það gildir hins vegar einu hvorri gerðinni af farfuglum menn tilheyra allir þurfa að gæta að réttindum sínum í heimalandinu og vera vissir um að halda þeim við.

Samkvæmt íslenskum lögum missa einstaklingar skattalega heimilisfesti á Íslandi dvelji þeir lengur en sex mánuði utanlands á ári. Í því felst að þeir njóta ekki lengur sömu réttinda hér og áður enda, þá taldir með lögheimili erlendis. Þetta gildir jafnt um heilbrigðisþjónustu sem og skattaleg fríðindi. Samkvæmt Íslendingi búsettum á Spáni á þetta þó eingöngu við um fólk búsett utan EES-svæðisins. Séu menn innan samningsvæðis Evrópusambandsins sækja þeir íslenska heilbrigðisþjónustu til jafns við aðra íslenska ríkisborgara þegar heim er komið, enda sé ríkisborgararétturinn heimilisfesti yfirsterkari. Þetta er þó ekki alveg einhlítt, ef þú flytur lögheimili þitt til EES-lands þá fer eftir sjúkratryggingareglum þar hvort þú ert tryggður í því landi eða ekki. Ef þú ert tryggður þar þá gildir sú trygging á Íslandi þar til þú kemst inn í heilbrigðistryggingakerfið hér aftur. Stundum kemstu strax inn í heilbrigðiskerfið ef þú ert með þannig tryggingu í ríkinu sem þú bjóst í.

„10. gr. Sjúkratryggðir samkvæmt lögunum. Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi [laga um lögheimili og aðsetur]. 1) Börn yngri en 18 ára sem búsett eru hér á landi eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn. Sjúkratrygging fellur niður þegar sjúkratryggður flytur búsetu sína frá Íslandi, sbr. þó 11., 12. og 15. gr., nema annað leiði af milliríkjasamningum. Þá geta milliríkjasamningar sem Ísland er aðili að haft í för með sér undanþágur og takmarkanir á beitingu ákvæða laga þessara.“

Til þess að halda sinni skattalegu heimilisfesti á Íslandi þarf að gæta þess að koma heim reglulega og færa ekki lögheimili sitt til annars lands. Þess vegna kjósa margir að fara út á haustin, koma heim í jólamánuðnum og fara aftur að honum loknum. Ef einstaklingur færir lögheimili sitt tímabundið til annars lands þarf að gæta þess að færa það aftur til Íslands innan sex mánaða vilji menn halda öllum réttindum hér á landi.

Lögin eru hugsuð þannig að dvelji menn lengri tíma á ári utan heimalandsins en 183 daga teljist þeir ekki lengur búsettir þar.  Á næsta ári ganga í gildi lög sem kveða á um að menn njóti ekki lengur persónuafsláttar á Íslandi búi þeir erlendis. Inga Sæland og aðrir þingmenn flokks fólksins börðust ötullega gegn gildistöku þessara laga og fengu henni frestað um eitt ár.

Til að gera sér fulla grein fyrir hvað felst í lögheimili segir í íslenskum lögum:

„Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Ekki er heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt er að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.
Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.
Lögheimili skal skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang.
Með aðsetri er átt við tímabundna búsetu í húsnæði sem uppfyllir skilyrði lögheimilis skv. 3. mgr., þar sem skráning er heimil samkvæmt ákvæðum laga þessara.

Leiki vafi á því hvar föst búseta einstaklings er, t.d. vegna þess að hann býr á fleiri en einum stað og í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs. Dveljist hann ekki meiri hluta árs í neinu sveitarfélagi skal hann eiga lögheimili þar sem hann stundar aðalatvinnu sína enda hafi hann þar búsetu. Um er að ræða aðalatvinnu þegar hún gefur tvo þriðju hluta af árstekjum eða meira.
Verði ekki skorið úr um lögheimili einstaklings skv. 1. mgr. er heimilt að skrá einstakling til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs. Skal þá miðað við það sveitarfélag þar sem hann hafði síðast skráð lögheimili.“

Íslendingar njóta margvíslegra réttinda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ef menn gæta þess að vera alltaf með gilt evrópskt sjúkratryggingakort fá þeir neyðaraðstoð, afgreidda lyfseðla og geta leitað á ríkissjúkrahús í neyðtilvikum án þess að þurfa að greiða fyrir það. Margvíslega sérfræðiþjónustu geta þeir hins vegar þurft að borga að full en síðan reynt að sækja um einhverja endurgreiðslu í gegnum Sjúkratryggingar Íslands

Til þess að vera viss um að menn njóti þeirrar læknisþjónustu sem þeir þurfa þarf að fá S1 pappíra á Íslandi, hjá Sjúkratryggingum Íslands. Hægt er að fá þá senda í tölvupósti. Umsóknareyðublaðið er að finna undir yfirskriftinni „Eyðublöð/réttindi milli landa/S1 vottorð“ inn á vefnum www.sjukra.is.  Þá er ekki annað en hala niður eyðublaðinu fylla það út, prenta, skrifa undir og skanna og senda á Sjúkratryggingar, netfangið: international@sjukra.is  ásamt ljósriti af vegabréfi. Þegar þeir hafa fengið gögnin send til baka fara menn með þau til yfirvalda sem eru mismunandi eftir því hvar menn eru búsettir.

Nú nálgast forsetakosningar á Íslandi og þá er gott að vita að íslenskur ríkisborgari sem hefur átt lögheimili á Íslandi, á kosningarétt í sextán ár frá því að hann flytur lögheimili af landinu. Eftir þann tíma þarf hann að sækja um að vera settur á kjörskrá aftur til Þjóðskrár Íslands. Hið sama gildir um þann Íslending sem flytur heim eftir meira en sex mánaða búsetu erlendis, hann þarf að sækja um að komast aftur inn í íslenska sjúkratryggingakerfið og það tekur að jafnaði sex mánuði að fá aftur full réttindi.

Menn geta ekki búið erlendis séu þeir í virkri atvinnuleit og fái atvinnuleysisbætur. Njóti menn örorkulífeyris, eftirlauna eða sjúkradagpeninga eru ekki sett búsetuskilyrði að öðru leyti en því sem greint var hér að ofan.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 29, 2024 07:00